Bækur, 23. febrúar 2018

Um mildina – Fyrsta þýðingin á verkum Seneca sem birtist á íslensku. Mér fannst þetta vera jólabókin í ár, en það fór lítið fyrir henni. Bókin er þýðing á bréfi Seneca til fyrrum nemanda síns, Neró keisara í Róm. Verkið sjálft veitir að vísu ekkert sérstaklega góða innsýn í hugarheim höfundarins en inngangurinn, eftir þýðandann, Hauk Sigurðsson, er frábær til að skilja betur skrif og samtíð þessa merka stóuspekings.

Ég er búinn að bíða spenntur eftir að geta lesið nýjustu bók Nassim TalebSkin in the Game, sem var að koma út í Evrópu fyrir rúmri viku síðan. Bókin er hluti af bókaröð sem hann kallar Incerto og inniheldur heimsþekktar bækur á borð við Fooled by RandomnessBlack Swan og Antifragile. Menn skiptast í fylkingar bæði hvað snertir verkin og persónu hans – sér í lagi vegna þess hversu dónalegur hann getur verið á Twitter. Sjálfur uppgötvaði ég skrif hans þegar ég var í hagfræðinámi í miðju efnahagshruni árið 2008 og þau hafa haft varanleg áhrif á það hvernig ég hugsa enn þann dag í dag. Ég mun að öllum líkindum skrifa langan pistil um þessa tilteknu bók og allar hans bækur en í stuttu máli fjallar Skin in the Game um þá siðferðisreglu að ekki sé hægt að hafa skoðanir, veita ráðgjöf eða gera nokkurn skapaðan hlut án þess að eitthvað sé í húfi fyrir mann – að maður geti fundið hlutina á eigin skinni. Bókin er ótrúlega skemmtileg en margir kaflar úr henni eru fáanlegir á Medium síðu Talebs til aflestrar. (KF.)

The Metaphysical Club (2002) eftir enskuprófessorinn Louis Menand geymir eins konar yfirlit um hugmyndasögu Bandaríkjanna á 19. öld og sýnir hvernig ríkjandi stefnur og straumar menntamanna á þeim tíma lögðu að stóru leyti línurnar að ríkjandi hugmyndum í samtímanum. Bókin er þétt og læsileg, einkum hlutinn þar sem Menand tekur fyrir Þrælastríðið, en eftir því sem nöfnum og ártölum fjölgar og hiti færist í leikana, verður frásögnin svolítið ruglingsleg og krefjandi. Sem er svo sem bara heilsusamlegt og hressandi.

Ég hef einnig verið að rifja upp kynnin við snjáða bók sem ber þann lýsandi titil Roald Dahl: The Collected Stories. Sögurnar hans eru yndislegar: kvikindisskapur og skammleysi persónanna hafa alltaf svo undarlega hressandi áhrif á mig, auk þess sem beinskeyttur stíllinn, og listilega ofnar flétturnar, eru hálf ávanabindandi. Eina skáldsaga Dahls, Uncle Oswald, um hin kynósa frænda, er líka frábær; og fær mig, óhjákvæmilega, til að hugsa til enn annars meistaraverksins, Frásagnarinnar af lífshlaupi mínu (L’histoire de ma vie) eftir heimspekinginn og séníið Casanova.

Elín, ýmislegt er nokkuð stutt skáldsaga sem færði höfundinum, Kristínu Eiríksdóttur, hin íslensku bókmenntaverðlaun nú í janúar síðastliðinn. Af einhverjum ástæðum fíla ég voða sjaldan þær bækur sem fá þessi íslensku bókmenntaverðlaun: mér finnst oft eins og verið sé að verðlauna höfundana fyrir bækur sem þeir skrifuðu nokkrum árum fyrr, og það þá gert undir yfirskini nýju bókarinnar – góð dæmi væru Einar Már (Hundadagar) og Auður Ava (Ör) – og mér fannst hið sama gilda um verðlaunaveitinguna að þessu sinni.

Síðast en ekki síst ber að nefna Fire and Fury eftir Michael Wolff, bókina umdeildu um Trump. Ég les hana laumulega í símanum mínum í strætó meðan smábarn dottar á bringunni á mér. Ýmsir vina minna sögðust ekki nenna að skauta í gegnum hana vegna þess hversu rækilega hefði verið fjallað um efnistök hennar í fjölmiðlum, en ég blæs á slíkar afsakanir. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s