Hlekkir, 23. febrúar

Grein eftir rithöfundinn fræga, Michael Lewis, þar sem hann sest niður með Steve Bannon, fyrrum hægri hönd Donalds Trump. Bannon hefur lengi verið álitinn maðurinn á bak við sigur Trumps á sínum tíma og greinin gefur áhugaverða sýn á stórfurðulegt líf hans. (KF.)

Í The New Yorker birtist nýlega ein áhrifaríkasta og mest grípandi frásögn sem ég hef lesið lengi. Viðfangsefnið er Henry Worsley, breskur liðsforingi og ævintýramaður með meiru, sem tekst á hendur það lygilega verkefni að arka, einn síns liðs, þvert yfir Antartíku. Sjálfur las ég greinina í prentútgáfu The New Yorker, en með netútgáfunni fylgja brot úr hljóðdagbók Worsleys, kort sem sýnir nákvæma gönguleið hans, einnig valdar ljósmyndir frá svaðilförum hetju hans og fyrirmyndar, Ernests Shackleton, og margvíslegt fleira ýtarefni. Mæli mikið, mikið með þessari. (SN.)

Erasmus frá Rotterdam var friðelskandi húmanisti sem dáði frelsi og hataði hvers kyns ofstæki. Hann var samtíðarmaður og pennavinur Marteins Lúters sem var að mörgu leyti algjör andstæða hans. Í þessari fróðlegu grein er varpað skemmtilegu ljósi á stormasamt samband þeirra og þá róstumiklu tíma sem þeir lifðu. Vilji menn dýpri innsýn í líf og störf Erasmusar (sem er svolítið gleymd fígúra í dag) mæli ég með ævisögu hans eftir Stefan Zweig sem kom út fyrir ekki svo löngu á íslensku. Þá kom Lof heimskunnar út sem Lærdómsrit fyrir allmörgum árum síðan og loks er Adagia, sem ekki hefur komið út á íslensku, samsafn grískra og latneskra spakmæla sem hann tók saman. (KF.)

Rory Sutherland er áhugaverður auglýsingamógúll sem skrifar reglulega dálka í Spectator. Í þessari grein fjallar hann um þá tilhneigingu fólks til að draga hluti niður í það sem það heldur að sé grunnvirkni þess og hendir barninu út með baðvatninu í kjölfarið. Hér og hér er hægt að heyra skemmtileg viðtöl við hann á svipuðum nótum. (KF.)

Á Wired birtist grein sem er tilvalin ef þú vilt – í pásum frá því að hanga á Facebook – lesa um Facebook. Býsna yfirgripsmikil úttekt á þróun fyrirtækisins frá því að vera tengslanet elítunemenda við Harvard og aðra Ivy League-skóla, yfir í að vera samfélagsmiðill þar sem frænkur þínar deila látlaust ljósmyndum af nýfæddum krúttsprengjum og jafningjar þínar virðast hver með tölu vera að standa sig betur en þú í lífinu, yfir í að verða einhvers konar einokandi afl í fjölmiðlum og gróðrarstía fyrir áróður og lygar sem sem Rússland nýtti sér til að streyma falsfréttum inn í vitundalíf milljóna bandaríska kjósenda árið 2016, hugsanlega með þeim afleiðingum að Trump komst alla leið til Washington. (SN.)

Ef þú lest frönsku, þá mæli ég með Daniel Pennac. Mjög skemmtilegur, hress og lífsglaður höfundur. Hér er nýlegt viðtal við hann á Télérama. Ef þú lest ekki frönsku, þá hefurðu samt kannski gaman af því að skoða þessar skrítnu ljósmyndir af gömlum, vingjarnlegum karli með kringlótt gleraugu í flöktandi kertabirtu. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s