Bækur, 2. mars 2018

Bandaríska ljóðskáldið Mary Ruefle er í miklu uppáhaldi hjá mér. Nýjasta bókin hennar, My Private Property, er safn smáprósa/örsagna, að mestu vel heppnuð. Eftirlætisbókin mín eftir hana er þó án nokkurs vafa safn yndislegra fyrirlestra, Madness, Rack, and Honey, sem ég blaða reglulega í – það er bók sem virkjar stöðugt einhverja sprengikrafta í heilanum, sem virðist vera æ sjaldgæfari reynsla eftir því sem maður gránar og eldist. Ég held raunar svo mikið upp á þessa bók að ég tími varla að segja þér frá henni. En … lífið er, þegar öllu er á botninn hvolft, æfing í því að vera örlátur. Svo að gjörðu svo vel. (SN.)

Ég hef eytt miklum tíma (og mun eflaust eyða dágóðum tíma til viðbótar) í stórvirkið The Power Broker eftir Robert Caro. Bókin fjallar um ævi og störf Robert Moses sem var um tíma valdamesti maður New York borgar, þrátt fyrir að hafa aldrei verið kjörinn í neitt embætti af borgarbúum. Þetta er einstaklega vel unninn og litríkur 1.300 síðna doðrantur og færir manni ekki aðeins frábæra innsýn í sögu New York-borgar heldur er hún einnig merkileg rannsókn um völd, stjórnmál og borgarskipulag. Ég mæli líka með því að lesa þetta viðtal við höfund bókarinnar í Paris Review þar sem skyggnst er inn í vinnuferli hans. (KF.)

Í vikunni las ég The Dream of My Return, þýðingu Katherine Silver á skáldsögu eftir Horacio Castellanos Moya, verk sem kom út hjá einu eftirlætisforlaginu mínu, New Directions, árið 2015. Nefnd skáldsaga fannst mér nú bara nokkuð góð – en þó komst hún ekki í hálfkvisti við íslenskun Hermanns Stefánssonar á öðru verki sama höfundar, Fásinnu. Sú þýðing kom út árið 2012 og ég man að ég las hana, uppnuminn, í einni striklotu í flugvél (alltaf best að lesa bækur í einni striklotu í flugvél) og núna vildi ég óska að ég ætti þá reynslu ennþá inni – en ég er einmitt á leið í flug eftir tæpa klukkustund og sit á flugvelli í New Jersey. Hvet þig til að lesa Fásinnu – eða annað eftir Hermann: hann er meðal þeirra alflinkustu í að beita tungumálinu okkar um þessar mundir. (SN.)

Kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson hefur verið mikið á milli tannanna á fólki upp á síðkastið. Þetta er mjög sérstakur karakter sem heldur úti gífurlega vinsælli Youtube rás og er markhópurinn hans upp til hópa ráðvilltir ungir karlmenn. Hann gaf nýlega út bókina 12 Rules for Life: An Antidote to Chaos þar sem hann leggur bókstaflega fram lífsreglur sínar. Hvort sem maður hatar hann eða elskar þá er þetta virkilega áhugaverð bók sem flakkar skemmtilega á milli biblíusagna, Dostoyevskis, æsku höfundar í smábæ í Kanada og tilhugalífs humra. Ég var efins um bókina fyrirfram en finnst hún áhugaverðari eftir því sem ég les meira. Hann er væntanlegur til landsins í sumar og mér finnst líklegt að ég mæti á svæðið. Hér er hægt að hlusta á gott viðtal við hann sem gefur ágæta mynd af efni bókarinnar. (KF.)

Ô ma mémoire geymir langa, ævisögulega esseyju eftir Stephane Hessel, auk áttatíu og átta ljóða ýmissa skálda, sem Hessel tók saman undir lok ævi sinnar; eitt fyrir hvert aldursár hans. Hessel, sem lést árið 2013, var sendiherra, diplómat og rithöfundur, maður sem lifði af útrýmingabúðir nasista og átti langa og viðburðaríka ævi. Hann var þrítyngdur (þýska, franska, enska) og lýsir í þessari bók mikilvægi ljóðlistarinnar í lífi sínu, þeirri sáluhjálp sem ljóðlistin veitti honum alla tíð og hvernig hún skilaði honum gegnum margvíslegar þrengingar, meðal annars hryllinginn sem hann upplifði í seinni heimsstyrjöldinni. Ljóðin eru ýmist á frönsku, þýsku og ensku (aftast fylgja franskar þýðingar Hessels á þeim ljóðum sem eru á ensku eða þýsku). Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að námsefni í grunnskólum landsins ætti að megninu til að vera utanbókarlærdómur á margvíslegri ljóðlist (segjum 80-90% pensúmsins) og þessi lestur styrkti mig enn í þeirri trú minni. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s