Hlekkir, 2. mars 2018

Sálfræðingurinn frægi, Steven Pinker, gaf nýverið út bókina Enlightenment Now, þar sem hann horfir björtum augum á framtíð mannkyns. Þetta er í svipuðum dúr og önnur bók eftir hann, Better Angels of Our Nature, þar sem hann færði rök fyrir því að dregið hafi stórlega úr ofbeldi á heimsvísu. Bókin hefur fengið mjög góðar viðtökur þótt hún sé aðeins nýkomin út (einn mjög ríkur maður telur hana strax á meðal uppáhalds bóka sinna), en hún er alls ekki allra. Einn af mínum uppáhalds rithöfundum, John Gray, gagnrýndi hana á dögunum í New Statesman, og tekur Pinker þar vægast sagt í bakaríið. Ég ætla að varast það að taka afstöðu áður en ég les bókina, en mér finnst Gray hafa heldur mikið til síns máls. (KF.)

Hér prófar einn penna The New Yorker nýútkomið tól sem nefnist The Twitter Demetricator og nota má til að slökkva á allri statistík samfélagsmiðilsins Twitter. Notandinn sér ekki lengur hversu mikla dreifingu tíst hafa hlotið, hversu marga fylgjendur tístarar hafa, hversu margir elska það sem þeir skrifa og svo framvegis. Sjálfur er ég ekki á Twitter, mér finnst það taugatrekkjandi miðill (einkum íslenska útgáfan), en ég fíla þessa hugmynd, sem ég ímynda mér að geri tíst-upplifunina í senn bæði skilvirkari (maður fókúserar á efnisinnihald frekar en segulmagn hjarðarinnar) og einmanalegri (við hvern eru allir að tala?). Greinarhöfundurinn David Zweig telur að kynngikraftur samfélagsmiðlanna hljótist ekki síst af því hvernig þeir grafa markvisst undan sjálfsöryggi okkar – allar tölurnar: fjöldi læka, fjöldi vina: alltaf þarf að stefna hærra; er ég í raun og veru einhvers virði? – og að það ýti svo aftur undir ennþá meiri og þráhyggjukenndari notkun, sem nýtist svo fyrirtækjunum við að selja fleiri auglýsingar. Eflaust mætti súmmera upp efnistinntak greinarinnar á þann hátt að í kraftkapítalísku neyslusamfélagi eins og Bandaríkjunum (og Íslandi) virðist innstillt í okkur að vega og meta hluti út frá tölum, jafnvel þó að fæst okkar setji umhugsunarlaust samasemmerki á milli gæða og útbreiðslu.  (SN.)

Frábær grein eftir breska rithöfundinn Will Self um mikilvægi þess að lesa erfiðan skáldskap. Hluti af þessu er hálfgert gamlakalla-raus um að fólk nú til dags lesi ekki nógu mikið af gæðaefni, en ég er sammála honum í því að fólk eigi að leggja í vana sinn að lesa flókinn skáldskap sem krefst einhvers af þeim. Mér finnast lokaorð greinarinnar fanga þetta vel: „But some texts are clearly going to be a better jungle gym for the mind than others—and just as you never put on much muscle mass with a limp-wristed workout, so no one ever got smart by reading… Dan Brown.“ (KF.)

Þessi hér fjallar um Marion Hammer, gustmikla og heillandi konu sem er án nokkurs vafa ötulasti lobbýstinn fyrir framgangi NRA í Bandaríkjunum. Hammer hefur verið talsvert milli tannanna í fólki í kjölfar skotárásarinnar í Florída nú á dögunum. Hún er ákaflega smá í vexti, klæðist sterkrauðum bleiserjökkum og fer aldrei út úr húsi án þess að vera með skammbyssu í handtöskunni.

Skemmtileg hugleiðing um sérkenni japanskrar tónlistar, meðal annars mikilvægi tónblæs (e. timbre) og vissrar bjögunar í flutningi: fegurðarinnar sem býr í hinu ófullkomna. (SN)

Eiturlyfjavandinn í Bandaríkjunum er orðinn svo skæður að meðal-lífslíkur Bandaríkjamanna hafa lækkað, annað árið í röð. Þessi grein eftir Andrew Sullivan setur vandann í mjög áhugavert samhengi við þær samfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Ég gat varla slitið mig frá þessari grein þegar ég las hana.

Annað í þessum dúr sem ég las í morgun. Þessi grein í New York Times gæti unnið til verðlauna sem sorglegasta grein ársins. Í henni er fjallað um áhrif eiturlyfjavandans í Bandaríkjunum á almenningsbókasöfn þar í landi. Þar eru bókasafnsverðir í gríð og erg að reyna að endurlífga fíkla sem taka of stóran skammt á bókasöfnum og er starfsfólkið skiljanlega ekki sátt. Ég legg til að geyma þessa grein þar til eftir helgi ef þú vilt halda í góða skapið. (KF.)

Óður til verslunarmiðstöðva, sem voru, þrátt fyrir allt, einhvers konar vettvangur mannlegra samskipta og/eða nándar á gullaldarskeiði sínu, ólíkt flestri verslun sem nú fram fer úr öruggri fjarlægð á netinu og er á góðri leið með að murka lífið úr mollum vítt og breitt um Bandaríkin og Evrópu. Er aðeins tímaspursmál að Kringlan og Smáralind fari sömu leið og frændsystkini þeirra á þessum ljósmyndum? (S.N.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s