Bækur, 9. mars 2018

Eðlisfræðingurinn orðheppni Richard Feynman gaf út endurminningar sínar árið 1985 í bók sem ber titilinn Surely You’re Joking, Mr. Feynman. Ég hlóð henni niður á Kindle-appið í símanum mínum um daginn og hef verið að grípa í hana síðastliðna mánuði. Feynman lifði viðburðarríka ævi en hápunkturinn (eða lágpunkturinn, eftir því hvernig maður vill líta á það) á ferli hans var þegar hann vann að þróun kjarnorkusprengjunnar, sem var hluti af Manhattan-verkefninu fræga. Lengsti kafli bókarinnar fjallar um þann tíma í lífi hans, sem markaði einnig þau kaflaskil að eiginkona hans lést úr berklum. Hér er hægt að finna heimildarmynd um þennan merka mann á Youtube, en ég mæli eindregið með því að lesa þessa bók. Það eru ekki margar bækur sem fjalla til jafns um eðlisfræði, bongótrommuleik og lásaopnun. Ef þær eru hins vegar til, þá eru þær örugglega ekki jafn skemmtilegar og þessi.  (KF.)

Þó svo að Technopoly; the Surrender of Culture to Technology eftir bandaríska samfélagsrýninn Neil Postman hafi fyrst komið út fyrir tuttugu og sex árum, eða 1992, á hún óneitanlega ennþá brýnna erindi við okkur í dag, krúttlegu sæborgirnar sem við erum. Postman er sjálfsagt þekktastur fyrir bókina Amusing Ourselves to Death, þar sem hann benti meðal annars á að heimur samtímans væri nær þvi að líkjast dystópískri veraldarsýn Aldous Huxley í Veröld ný og góð (e. Brave New World), þar sem erfðabreyttum mannverum er markvisst haldið niðri fyrir atbeina ávanabindandi afþreyingarefnis, frekar en 1984 eftir George Orwell, þar sem menn er bældir niður af ríkisvaldinu. Í framtíðinni þurfi ekki að halda fólki frá því að gera uppreisn með járnaga og hörku, því allir verða hnepptir í ljúfan (en ófullnægjandi) sæludoða tæknivímunnar; við tökum bara af okkur sjálfur, streymum fyndnum og/eða spennandi þáttum og skrunum niður handahófskennt algóritmaval tilkynninga og „frétta“. Í Technopoly, sem ekki er síður áhugaverð, rekur Postman hvernig samfélagið hefur þróast frá því að nota og stjórna tækninni yfir í að hálfpartinn stjórnast af tækninni. Postman var þekktur dægurmálarýnir (e. public intellectual) og ekki síður skemmtilegur áheyrnar en aflestrar. (SN.)

Ég sá um daginn kvikmyndina The Post sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna þetta árið. Ein aðalpersóna myndarinnar, Katharine Graham (sem Meryl Streep leikur), hefur mér þótt áhugaverð í langan tíma – sér í lagi eftir að ég las ævisögu Warren Buffet eftir Roger Lowenstein. Sú bók er skemmtileg, en kannski sérstaklega ef maður er fjármálanörd eins og ég. Í henni er samstarf þeirra Buffet og Graham rakið en hann var einn stærsti eigandi Washington Post og helsti ráðgjafi hennar við rekstur dagblaðsins. Hún var greinilega mögnuð kona sem yfirsteig miklar hindranir til að ná þeim árangri sem hún á endanum náði með blaðinu. Þegar upp er staðið þá fannst mér hún áhugaverðari en sjálft umfjöllunarefni bókarinnar og stefni að því að lesa sjálfsævisögu hennar líka, Personal History. (KF.)

Þýðandi Föður Goriot (Skrudda: 2017), bendir á það í formála sínum að hér sé komin fyrsta íslenska útgáfan af skáldsögu eftir Honoré de Balzac, „svo undarlegt sem það má heita“, enda Balzac einn af risum evrópsku skáldsögunnar. Ég hef oft skælt svolítið yfir því hversu fátæklegur íslenski bókaskápurinn er af heimsbókmenntum, þó að þar leynist vissulega ótrúlegustu textar – ímyndaðu þér samt ef við ættum til að mynda allan Dickens, Balzac, Proust, Virginiu Woolf og svo framvegis á íslensku – og því fyrirtak að hér sé ráðist í að gera oggulitla bragarbót á þessari vöntun. Sigurjón hefur raunar verið iðinn við kolann upp á síðkastið og sent frá sér tvær aðrar vandaðar þýðingar, á ævisögum eftir Stefan Zweig, annars vegar Erasmus; upphefð og andstreymi(Skrudda: 2015), um Erasmus frá Rotterdam, hins vegar Balzac, um – jah – Balzac. Sú síðarnefnda var mjög fín – og þýðingin afar blæbrigðarík – og nú vona ég að Sigurjón snari til dæmis einnig út ævisögu Zweigs um Montaigne, sem sá austurríski skrifaði í útlegð sinni í Argentínu, skömmu áður en hann batt, ásamt annarri eiginkonu sinni, Lottu Altmann, enda á líf sitt. En höldum okkur við Balzac: Það er hressandi að lesa La Comédie humaine, sagnavefinn sem kaffisvelgurinn franski spann upp í hátt í hundrað sögur, og þar er Faðir Goriot sjálfsagt fínasti upphafsreitur. Sú saga á ýmsa stórskemmtilega spretti; mér verður til dæmis hugsað til ræðunnar sem hinn slóttugi Vautrin flytur framarlega í öðrum hluta, um spillingu Parísarborgar og þau klækjabrögð sem ungir framagosar þurfa að beita til að hysja sig upp framastigann. Þetta er mikill aldarspegill og persónugalleríið nokkuð stórt, allar persónur ljóslifandi þó að þær eigi það til að fjara út í hálfgerðar klisjur í hátíðlegum yfirlýsingum sínum um ástina. Balzac hefur oft verið sakaður um að vera hálfgert rithross, lítill stílisti – en það er ósanngjarnt. Ég viðurkenni þó að ég átti svolítið erfitt með mig í síðustu tveimur hlutum bókarinnar, eflaust vegna þess að ég er líkt og svo margir með áunnin athyglisbrest og Balzac er kannski full slakur á skurðarhnífnum. Undir lokin tekur sagan hverja sápuóperulykkjuna á eftir annarri og við vitum öll að ekkert eyðileggur góða sögu jafnauðveldlega og þegar persónurnar breytast alfarið í umboðsmenn söguþráðarins. Ég skautaði sem sagt leifturhratt gegnum síðustu hundrað síðurnar. En er það ekki bara allt í lagi? Sem sagt: Fínasta bók og glimrandi góð þýðing, þó að prófarkalesarinn hafi stundum aðeins dottað á gæsalappavaktinni.

Haustið 2015 kom út afar falleg bók hjá Bjarti, Veðurfræði Eyfellings, greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum frá árinu 1979, endurútgefin með viðbótum, nýrri orðaskrá og eftirmála höfundar, eftir Þórð Tómasson í Skógum. Sú bók var um margt fróðleg og geymdi orðaforða sem, að sögn höfundar, er nú óðum að tapast. Þórður hefur vísast margt fyrir sér í því; áður skildi vitaskuld á milli feigs og ófeigs í því að geta lýst í ýtrustu smáatriðum veðri og landslagi, en í dag flettum við tíðarfarinu bara upp í Weather á símanum og sjáum að það er annaðhvort rok eða rigning.

Á síðasta ári kom út ný bók eftir Þórð, að þessu sinni hjá Sæmundi, og nú vonar maður bara að sá gamli dæli út nokkrum í viðbótum. Sú nýja er nefnilega ekki síður skemmtileg. Hún nefnist Um þjóðfræði mannslíkamans; fróðleikur um höfuð og hendur dreginn úr djúpi hugans. Þar greinir Þórður, sem orðinn er 96 ára gamall, frá siðum, þjóðtrú og málfari sem tengjast höndum manna og höfði. Ýmis orð hafa stirðnað í málsháttum og orðtökum, svo sem „lurgur“ (hár – „að taka í lurginn á einhverjum“) og svo leynast þarna ótal orð og orðtök, mörg kunnugleg, önnur síður.

Þórður hefur leik á eftirfarandi orðum: „Gamla fólkið í æskubyggð minni nefndi það að leggja hönd á helgan plóg er ráðist var í vandaverk. Eitthvað svipað vakti fyrir mér í tilraun til að gera þjóðfræðilega grein fyrir manninum, höfði hans og hönd.“

Það er til marks um hversu brögðótt og snúin íslenskan er, að þessi góði, ritfæri maður – sem hefur afar notalega höfundarrödd og er þægilegur félagsskapur – kann ekki að fallbeygja orðið hönd. Þó er þetta fyrirbæri, mannshöndin, meginviðfangsefni bókarinnar. Kannski pinku bagalegt? Svo bregðast krosstré sem önnur. Þórði til varnaðar er þó rétt að nefna að hann er samkvæmur sjálfum sér í villunni og heldur eftir því sem ég fæ best séð rangri þágufallsmynd til streitu út alla bókina; sem er vitaskuld í senn ljóður og einhvern veginn æðislegt, bara kósý.

En rétt upp hend sem kann að leiðrétta skyssuna. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s