Hlekkir, 9. mars 2018

Einhvers staðar heyrði ég að allar helstu hugmyndir að sprotafyrirtækjum Kísildalsins þessa dagana væru lausn á vandamálum sem mæður stofnenda hefðu áður séð um, hvort sem það er þvottur, innkaup, matreiðsla, skattframtöl o.s.frv. Þó að þetta sé einföldun á annars blómlegri frumkvöðlastarfsemi vestan hafs, þá segir það ýmislegt um það hversu miklu máli aukin þægindi skipta nútímamanninn. Þessi ágæta grein í New York Times fjallar um neikvæð áhrif þessarar þróunar og það sem við förum á mis við þegar við gefum okkur á völd þæginda. (KF.)

Undanfarin ár hefur hróður kólumbíska eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar borist vítt og breitt um jarðarkringluna, einkum í krafti poppmenningar; sjónvarpsefnis, stuttermabola í áþekkum anda og merkjavörur með andliti Che Gueavara, Pablo Escobar-túristapakka fyrir fjölskylduhópa og svo framvegis. Þetta er nokkuð athyglisvert í ljósi þess að hér er um að ræða einn forhertasta glæpamann síðari tíma og mörgum kann að þykja dýrlingsljóminn, sem stundum virðist umvefja Pablo Escobar, skjóta skökku við. Í þessari líflegu greinmá lesa fróðlega samantekt á því hvernig afkomendur Escobars, fyrrum samstarfsmenn hans (meðal annars hinn litríki Popeye, sem er óneitanlega senuþjófurinn) og margir fleiri hafa reynt að blóðmjólka og færa sér í nyt goðsögnina um þennan þekktasta son Kolumbíu; og þá ekki síst sonur hans, sem er óþreytandi í að biðja aðstandendur fórnarlamba föður síns afsökunar, milli þess sem hann upphugsar klókindalegar leiðir til að nota föðurnafn sitt í fjárfestingaskyni og við framleiðslu fisléttrar afþreyingar. Undanfarna áratugi hafa komið út ófáar bækur, sjónvarpsþættir og bíómyndir, og ber þar kannski hæst Netflix-syrpuna Narcos. Menn líta ýmist á Pablo Escobar sem allt að því kristslega frelsishetju sem hreinlega beitti þeim meðulum sem honum stóðu til boða til að rífa sig upp úr fátækt og berjast gegn kúgun elítusamfélagsins í Kolumbíu – og þá oftar en ekki í því skyni að hjálpa snauðum sem eins konar dóp-Hrói Höttur – eða þá menn álíta hann kaldrifjaðan siðleysingja sem fyrirskipaði blóðsúthellingar án þess að depla auga og stóð fyrir morðum á fleiri þúsundum manna. (SN.)

Eitt af því eftirminnilegasta við dvöl mína í London á því herrans ári 2007 voru heimsóknir mínar í Tate Modern safnið. Þetta er risastór bygging sem áður var rafstöð og er stærsti hluti safnsins – túrbínusalurinn – heilir 3.400 fermetrar að stærð. Ég rambaði nýlega á grein sem birtist í Guardian síðastliðið sumar og fjallar um Nicholas Serota, safnstjóra Tate safnsins frá árinu 1988 til ársins 2017. Ég kannaðist vel við kauða en áttaði mig ekki á því fyrr en ég las þessa grein hversu mikil áhrif hann hafði á bæði bresku listasenuna og viðhorf almennings til myndlistar. Safnstjóri listasafns í almannaeigu gegnir því óöfundsverða hlutverki að þurfa að safna og sýna myndlist sem er á undan sinni samtíð á meðan hann er háður fjármögnun frá almenningi sem hefur sjaldan skilning fyrir samtímalist. Serota leysti það verk vel af hendi og það verður forvitnilegt að fylgjast með honum á nýjum vettvangi.

Ég hef átt í mestu vandræðum með að fá botn í Sýrlandskrísuna og mig grunar sterklega að ég sé ekki einn um það. Það sem hefur gert fólki erfiðara fyrir að skilja þessi langvinnu átök er sú staðreynd að fáir vestrænir blaðamenn hafa haft aðgang að svæðinu og hafa því heldur brotakennda mynd af ástandinu. Ég hef lengi treyst á einn blaðamann sem þekkir vel til svæðisins, Patrick Cockburn, eftir að ég las greinar eftir hann í London Review of Books um málefni Mið-Austurlanda. Nú færir hann okkur fregnir af því að hryðjuverkasamtökin ISIS eru að styrkja stöðu sína í kjölfar innrásar Tyrkja í Afrin í Sýrlandi. Þessi áhugaverða grein hans í The Independent rekur þessa frétt ágætlega. Ég mæli líka með bók sem hann skrifaði um sögu ISIS samtakanna, Rise of Islamic State: Isis and the New Sunni Revolution. (KF.)

Eftir glimrandi gengi í efnahagsmálum síðustu árin, blæs ekki lengur eins byrlega í Þýskalandi. Hér er brugðið birtu á erfiðleika Angelu Merkel við að takast á við vandann.

Ungverskur heimspekingur, G.M. Tamás, stillir flóttamannavandanum upp með sláandi hætti í áhugaverðum, og tilfinningaheitum, pistli: „Það eru ekki hinir grimmu, vígbúnu menn sem eru hataðir, heldur fórnarlömb þeirra.“

Til mótvægis langar mig svo að klykkja út á léttu nótunum: Eyðilagði Andrew Lloyd Webber, höfundur Jesus Christ Superstar og annarra vafasamra menningarafurða, söngleikjaformið – eða bjargaði hann því? (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s