Bækur, 16. mars 2018

Höfundur bókarinnar The Silk Roads, sagnfræðingurinn Peter Frankopan, segir í formála hennar að hann hafi í æsku átt risastórt landakort og að hann hafi lagt á minnið örnefni heimsins sér til dægrastyttingar. Þegar hann óx úr grasi fór það í taugarnar á honum hversu þrönga (vestræna) mynd af heimssögunni hefðbundin sögukennsla veitti honum og hefur hann, mörgum árum síðar, ákveðið að skrifa niður það sem hann telur vera gleymda mannkynssögu á meðal vestrænna sagnfræðinga. Bókin fjallar um svæðið á milli Miðjarðarhafsins og Himalayafjalla, þar sem siðmenningin eins og við þekkjum hana óx úr grasi. Í dag þekkjum við þessi svæði (Írak, Íran, Afganistan, Sýrland, Ísrael o.s.frv.) sem átakasvæði en saga þeirra er ríkari og fróðlegri en mig hefði nokkru sinni grunað. Sýn mín á heimsmálin breytist umtalsvert þegar fókusinn á heimssöguna er færður frá Grikklandi og Róm og yfir til Persíu (Íran) og Kína. Mannkynssagan er öllu flóknari en hún kom okkur fyrir sjónir í menntaskóla og það er öllum hollt að líta út fyrir kassa vestrænnar heimsmyndar. (KF.)

Ég brenndi í gegnum I Dreamt I Was a Very Clean Tramp eftir Richard Hell, einn upphafsmanna pönkbylgjunnar í New York, stofnanda Television ásamt Tom Verlaine (Hell sagði reyndar skilið við sveitina árið 1974, þremur árum áður en hún gaf út sína fyrstu plötu) og leiðtoga Richard Hell and The Voidoids, sem var ein mest áberandi pönksveitin í New York undir lok áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda, þó að fáir þekki kannski til hennar núna. (Hell er eiginlega þekktastur í dag fyrir að starta nett sjúskuðu hárgreiðslutrendi og það svo sem út af fyrir sig ekkert lítið afrek.) Í bókinni er hann afar yfirlýsingaglaður, jafnt hvað snertir ljóðlist, tónlist eða málaralist, fólk og hegðun þess. Hann er í senn kærulaus og alvörugefinn, bitur og raunsær, og harmar til dæmis að The Sex Pistols, með Sid Vicious í fararbroddi, hafi slegið í gegn í klæðnaði sem Hell ruddi til rúms (rifin föt, stálpinnar, klippingin) og samkvæmt attitúdi sem hann lagði línurnar fyrir – í hnotskurn: allt má fara til fjandans – en skilur um leið hvers vegna; Hell var alltof mikill níhílisti til að njóta nokkurn tímann lýðhylli utan lítilla kreðsa í New York. Hann hóf ferilinn sem ljóðskáld, gaf út litla bæklinga og bækur, rambaði svo inn í tónlistarheiminn án þess að hafa beinlínis nokkra sérstaka tónlistarhæfileika og sagði skilið við þann bransa nokkrum árum síðar, þá nærri dauður úr heróínneyslu og rugli. Þetta er læsileg og grípandi bók, eins konar mótvægi við Just Kids eftir Patti Smith (sem kemur svolítið við sögu), aðra endurminningabók sem hefur notið mikillar athygli og hefur eiginlega breyst í eins konar fylgihlut fyrir listræna hipstera ásamt avókadóbrauði og silkiþýðu mjólkurkaffi. Ég mæli með bók Richards, hann hefur skemmtilega sýn á lífið, er lipur penni, býsna fróður og lifaður, ófeiminn við að rakka hið samþykkta niður – honum finnst til dæmis Sgt. Pepper’s Lonely Heart Club Band með Bítlunum vera vandræðalegt drasl sem gerir lítið úr og skrumskælir rokktónlist og eflaust hefur hann nokkuð fyrir sér í því – og hefja fólk og verk, sem týnst hafa utan alfaraleiðar, inn í sviðsljósið. (SN.)

Aftur að mannkynssögunni eins og hún leggur sig. Það er ekki langt síðan ég var að glíma við bókina Guns, Germs and Steel eftir Jared Diamond. Bókin hefur farið sigurför um heiminn síðan hún kom út fyrir rúmum 20 árum og svo gott sem lagt línurnar fyrir bækur af svipuðum toga – bækur sem stikla á stóru um sögu mannsins. Bókin leitast við að svara því af hverju sumum jarðarbúum vegnar betur en öðrum. Af hverju eru til fátæk þriðja heims ríki ef við mennirnir erum alla jafna eins og af hverju skara sumar þjóðir fram úr á meðan aðrar dragast aftur úr þegar kemur að veraldlegum gæðum? Að mati Diamond skýrist munurinn að mestu af umhverfislegum þáttum (hann er sjálfur landfræðingur að mennt). Sumar þjóðir höfðu heppilegri skilyrði til landbúnaðar en aðrar sem gaf þeim færi á fólksfjölgun, viðskiptum, framleiðslu, vopnaburði o.s.frv. Þetta er mjög einfölduð mynd af kenningu Diamond sem er virkilega sannfærandi og vel rökstudd en alls ekki gallalaus. Í grunninn er ég sammála því sem má kalla kjarnann í kenningu hans, að þær þjóðir, sem hafa „skarað fram úr“, séu ekki gæddar einhverjum yfirburðagáfum eða hæfni heldur hafi heppni og röð handahófskenndra atvika stuðlað að þeirri skiptingu auðs sem við lifum við í dag. Önnur góð bók um svipað málefni er Why Nations Fail eftir Daron Acemoğlu og James Robinson. Í henni er í grófum dráttum reynt að svara sömu spurningu og Diamond glímir við, þ.e. af hverju gæðum heimsins er skipt misjafnt. Að þeirra mati gegna pólitískar stofnanir lykilhlutverki við að safna og viðhalda auði innan þjóða. Þjóðir sem eru einangraðar og þrengja að frelsi þegna sinna lúta jafnan í lægra haldi fyrir þjóðum sem hafa opnara stjórnkerfi. Þetta eru mjög fróðlegar bækur en það er mikilvægt að lesa þær með gagnrýnum augum. (KF.)

Um daginn var ég á vappi um eitt fallegasta bókasafn Reykjavíkur, sem staðsett er í Norræna húsinu (ég fer þangað í hvert skipti sem ég er í borginni), og rak þá augun í sænsku frumútgáfuna af Lífi, list, orðum, eftir Boel Westin, ævisögu hinnar mögnuðu Tove Jansson, sem fitjaði upp á Múmínálfunum frægu, en er einnig höfundur frábærra nóvella, svo sem Sumarbókarinnar, og margra smásagnasafna. Ég las þessa ævisögu um hana fyrir margt nokkru, á ensku (Life, Art, Words), og fannst textinn raunar ekkert afskaplega þjáll eða kræsilegur, en bókin engu að síður áhugaverð; Jansson er meðal minna uppáhaldslistamanna – hún starfaði sem myndskreytir, höfundur og listmálari í sjö áratugi; geri aðrir betur – og ég mæli sannarlega með verkinu fyrir þá sem vilja kafa í líf hennar og afrek meðan þeir súpa teið sitt úr Múmínbollum. Bókin geymir margar myndskreytingar, brot úr bréfum og dagbókum Tove, margvíslegt annað gúmmelaði, og svo er víst aldrei of oft hnykkt á lífsmottói hennar vinkonu okkar, um grunngildin tvö í tilverunni: Iðjusemi og ást.

Höldum okkur við norrænar bókmenntir, en færum okkur frá Finnlandi yfir til Noregs. Ég heillaðist mikið af Þríleiknum eftir Jon Fosse þegar ég las hann fyrir sirka tveimur árum, og nú hefur íslenskur útgefandi þeirra, Dimma, vafið þeim öllum þremur inn í tilboðspakka. Um er að ræða stuttar skáldsögur – AndvökuDrauma Ólafs og Kvöldsyfju – sem best er að lesa í einum rykk. Stíll Fosse er sérstakur, dáleiðandi, draumkenndur, honum tekst að magna upp sterkar tilfinningar og stemningu með fáum strokum, endurtekningum, ljóðrænu og næmi fyrir harmrænu hlutskipti söguhetja sinna fyrr á tímum, og þýðing Hjalta Rögnvaldssonar er til fyrirmyndar. Eina gilda ástæðan fyrir því að lesa ekki þessar bækur væri sú staðreynd að fyrir þær hlaut Fosse Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs – maður á helst að forðast bækur sem hljóta stór og rótgróin verðlaun – en hér er í lagi að gera undantekningu. Eða það finnst mér allavega.

Og þá til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Concord í New Hampshire. „Oftast finnst mér endurnærandi að vera einn. Að vera innan um aðra, jafnvel þá bestu, verður fljótt þreytandi og truflandi. Mér finnst gott að vera einn.“ Þessar ómótstæðilegu línur eru teknar úr Walden (151. bls.) eftir Henri David Thoreau (1817-1862), öndvegisriti sem nú er loksins komið út á íslensku í glæsilegri þýðingu tveggja sénía, þeirra Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur. Það er langt síðan ég las Walden fyrst, þá í útgáfu sem ég dró niður úr bókahillu hjá pabba, harðspjalda bók með sérkennilegum myndskreytingum, einhvers konar tréristum minnir mig, og síðan þá hef ég lesið reglulega í ólíkum útgáfum hennar og ýmist gefið þær eða týnt; sú nýjasta, nú grafin niður í kassa í kjallara í Queens, er með frábærum formála eftir Bill McKibben, höfund The End of Nature, sem fyrst kom út á níunda áratugnum í stuttum ritgerðum í The New Yorker og síðan sem bók árið 1988, og er eins konar grundvallarrit umhverfisverndarhreyfingarinnar, ekki ólíkt Animal Liberation frá 1975, eftir Peter Singer, sem er undirstöðurit dýraverndunarsinna. Walden Thoreaus er hálfgert kamelljón og hefur verið hampað af ólíkum hópum síðan hún kom fyrst út árið 1854, meðal annars notuð sem málsvörn fyrir einstaklingsgildum og sjálfstæðri framtakssemi, síðar flögguðu hippar henni ákaft milli þess sem þeir vögguðu sér við White Rabbit með Jefferson Airplane og innbyrtu eiturlyf, og upp á síðkastið hafa umverfisverndarsinnar vitnað mikið til hennar. Thoreau er stundum líkt við annan merkan höfund, hinn franska Montaigne (1533-1592), sem stundum er kallaður faðir persónulegu esseyjunnar, og ekki að ósekju; ritgerðir beggja bera oft einfalda titla og ekkert svið jarðvistarinnar er þeim óviðkomandi; kaflar í Walden bera heiti á borð við „Einvera“, „Hljóð“, „Vetrardýr“, „Hagsýni“ – uppáhaldstitillinn minn á ritgerð eftir Montaigne er „Um þumalputta“. Skemmst er frá því að segja að íslenska úttgáfan af Walden, sem líkt og Þríleikur Fosses gefin er út af Dimmu, er afar eiguleg; falleg, hörð græn kápa, flúruð, með gylltu letri, síðurnar mátulega rjómagular, eða kannski nær gómsætu smjöri í lit, snotrar myndskreytingar skilja að kaflana og textinn er smekklega uppsettur og leshvetjandi. Og – sem mest er um vert auðvitað – þýðingin frábær. Þessa bók má ýmist lesa í heild sinni eða þá með svipuðum hætti og ljóðabók eða heimspekirit; hvarvetna hægt að grípa niður og komast á flug eða í hugleiðslustillingu. Hún er yndisleg. Thoreau hefur oft verið kallaður sérvitringur, en mér finnst hann svo sem ekkert, ef marka má viðkynni mín við hann í þessari bók og ýmsum öðrum textum eftir hann, auk ævisagna, til að mynda þessari hér sem ég las nýlega, eitthvað tilfinnanlega skrítnari en flest annað fólk sem ég hef umgengist. (Skrítnastur er maður þó auðvitað sjálfur.) Því miður hlaut Walden á dögunum Íslensku þýðingaverðlaunin, en við látum það ekki bitna á bókinni og lítum raunar alfarið fram hjá því. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s