Hlekkir, 16. mars 2018

Hér kemst Friðgeir Einarsson mjög vel frá því vandmeðfarna verkefni að skrifa um það að skrifa. Hann er fyndinn. (SN.)

Persónulega þykir mér fátt jafn pirrandi og trúlaust fólk sem leggur allt kapp við að gera lítið úr fólki sem trúir. Ég rakst á þennan ágæta bókadóm í LA Review of Books þar sem fjallað var um nýútgefna bók, The Meaning of Belief eftir Tim Crane. Í bókinni er fjallað um trúarbrögð af sjónarhóli trúleysingja en þó af virðingu fyrir þeim trúuðu. Höfundurinn verst því að fjalla um trúarbrögð líkt og þau séu forneskjuleg hjátrú (líkt og kverúlantar á borð við Richard Dawkins, Christopher Hitchens, Sam Harris o.fl. gera) og reynir að skilja þau á forsendum trúaðra. Ég er spenntur fyrir því að kynna mér þessa bók – enda sýnist mér á bókadómnum að höfundur spegli að mörgu leyti mínar skoðanir á þessum málum. Eins er ég spenntur fyrir nýrri bók eftir heimspekinginn John Gray um svipuð málefni sem er væntanleg í apríl. Hér er hljóðpistill eftir hann sem er líklega á sömu slóðum og bókin. (KF.)

Gæti verið að það myndi bæta hegðun okkar gagnvart öðrum jarðarbúum ef vísindamenn tækju að búa til afkvæmi apa og manna? (SN.)

Ég rambaði nýlega á þessa rosalegu „skýrslu“ eftir heimspekinginn fræga Isaiah Berlin sem hann skrifaði árið 1945 þegar hann starfaði fyrir breska sendiráðið í Rússlandi. Skýrslunni var ætlað að fjalla um listalífið í Rússlandi undir valdatíð Stalíns en svo virðist sem honum hafi tekist að ramma inn í hana næstum alla menningarsögu Rússlands á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Það er margt í þessari grein sem kemur mér mjög á óvart. Ég hafði einhvern veginn ímyndað mér rússneska list undir valdatíð Stalín sem einhvers konar menningarlega auðn, en raunin var öllu flóknari. Í kjölfar októberbyltingarinnar 1917 varð til ótrúleg bylgja af framúrstefnulist, sér í lagi í myndlist og arkítektúr. Á meðal lykilmanna í þeirri bylgju má telja menn eins og Kazimir Malevich og Vladimir Tatlin auk margra rithöfunda, leikskálda og kvikmyndagerðarmanna sem settu svip sinn á tímabilið. Þessi bylgja var fljótlega kvödd niður og þegar komið var að valdatíð Stalín voru allir listrænir tilburðir kyrfilega ritskoðaðir. (Glöggir lesendur taka kannski eftir því að myndin sem prýðir Leslistann var einmitt máluð á þessum tíma). Berlin heldur því fram að þótt listalífið hafi verið heldur gelt þá hafi Rússar verið hungraðir fyrir listinni og að listamenn hafi almennt verið í hávegum hafðir. Andagiftin og sköpunargáfan laut hins vegar yfirleitt lægri hendi fyrir flokkslínunni. Ég mæli eindregið með þessari grein, og öllu því sem Berlin hefur skrifað ef út í það er farið. (KF.)

Hefurðu ekki einhvern tímann rölt út í búð, keypt þér hressandi gosdrykk og súkkulaðistykki, smeygt þessu í plastpoka, gengið aftur heim og neytt afurðanna í makindum í sófanum, og hent plastpokanum svo í ruslið? Fimmtán mínútna notkun – og plastpokinn svo enn í fullu fjöri þúsund árum eftir dauða okkar fastur við trjágrein í Afríku. Kannski ekki beint mjög lógísk hegðun. Hér prófa fjórir pennar hjá The Guardian að skera niður plastnotkun sína, sem reynist hægara sagt en gert. Greinin er vel lestursins virði og með henni fylgja ýmsar góðar ráðleggingar og jafnframt þarfar áminningar um að smávægilegar breytingar í neysluhegðun skipta sannarlega máli.

Í umræðunni um lestrarkennslu og hnignandi lestrarfærni íslenskra ungmenna er jafnan hamrað á mikilvægi þess að nemendur læri að lesa sér „til gagns“. En hvað um ánægjuna? Hvort lest þú þetta fréttabréf þér til gagns eða ánægju, kæri áhangandi Leslistans? Ég reyni allavega að lesa oftast ánægjunnar vegna frekar en einungis mér til gagns nema kannski þegar ég er staddur á flugvelli og þarf að lesa brottfarartíma af skjá í biðsal eða þegar ég fæ svangur í hendurnar matseðil og þarf að gæta þess að eitthvað bragðgott, frekar en eitthvað óætt, verði borið fyrir mig. Þá er gagnlegt að geta lesið texta. En já … hvað um ánægjuna? Svona orti Sigurður heitinn Pálsson; „Hvað sem hver segir / er fegurðin ekki skraut / heldur kjarni lífsins,“ þau orð birtust okkur í síðustu ljóðabók hans, Ljóð muna rödd, og þetta vita auðvitað allir sem lesa sér til ánægju, eins og Jóhann Helgi Heiðdal bendir á í fínni grein á Kjarnanum. Þar skákar Jóhann þeirri ríkjandi hugsun að aðalmarkmið lestrarkennslu sé að kenna börnum að lesa sér til gagns. Hann varar við því að litið sé á lestur „sem ein­tómt tækni­legt og praktískt fyr­ir­bæri, eitt­hvað sem er mik­il­vægt að svo miklu leyti sem það leggur af mörkum til efna­hags­ins frekar en eitt­hvað sem miðar að skiln­ingi á sjálfum sér og öðrum – sjálfs­rækt […]“. Lestur ánægjunnar vegna sé nefnilega afar gagnlegur: „Eins mót­sagna­kennt og það hljómar kannski er lestur [á] sama tíma ræktun á skiln­ingi og virð­ingu fyrir sammann­legum gildum – bráð­nauð­syn­leg ræktun sem fæst hvergi ann­ars stað­ar. Les­and­inn er kannski tíma­bundið ein­angr­aður félags­lega, en sjaldan eins lif­andi eða í eins miklum tengslum við mann­skepn­una.“ (SN.)

Það eru til týpur sem maður elskar að hata og týpur sem maður hatar að elska. Í mínu tilfelli er breski myndlistarmaðurinn Damien Hirst týpa sem ég bæði hata að elska og elska að hata. Í senn frábær og skelfilegur listamaður. Hugsa miklu oftar um hann og list hans en ég þori að viðurkenna. Á síðasta ári hélt hann risavaxna sýningu í Feneyjum þar sem hann hafði útbúið „falinn fjársjóð“ til sýnis í safni í eigu eins stærsta listverkasafnara heimsins. Nú sýnir hann verk í Bandaríkjunum sem hann málaði á síðasta ári og tók New York Times viðtal við hann af því tilefni. Af myndunum að dæma finnast mér nýjustu verk hans bæði góð og slæm, ég get ekki ákveðið mig. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s