Bækur, 23. mars 2018

„Við skulum vakna snemma, glaðvakna, og fá okkur morgunverð eða vera morgunsins verð, varlega og án þess að það raski ró nokkurs, látum gesti koma og fara, látum bjöllurnar hringja og börnin hrópa – ákveðin í að gera okkur dagamun. Af hverju ættum við að gefa eftir og láta berast með straumnum?“ Ég er á ferðalagi um Kaliforníu og hef því mestmegnis verið að lesa í nýja staði, nýtt fólk og landslag. Meðferðis er þó bók sem ég fjallaði lítillega um í fjórða Leslistanum, íslensk þýðing Walden eftir Thoreau, og þaðan eru tilvitnuð orð tekin. Þessi bók, svo falleg og eiguleg, er að mínu viti eitt það albesta sem komið hefur út á íslensku síðustu árin. Maður opnar hana hvar sem er, les nokkrar síður, allt fellur í ljúfa löð. „Við ættum ekki að hittast í svona miklum flýti,“ segir Thoreau á einum stað og það er hárrétt hjá honum. Við ættum ekki að hittast í svona miklum flýti. Slöppum af og njótum návistar hvert annars. Lesum Leslistann hægt.

Af skiljanlegum ástæðum er nefndur Henri David Thoreau einn eftirlætishöfunda annars bandarísks höfundar, Pauls Auster. Og Auster er – eða var allavega – einn eftirlætishöfunda minna þegar ég var yngri. Á táningsárunum las ég hverja einustu bók eftir hann, gróf upp sjaldgæfar útgáfur, reyfara undir dulnefni, ljóð, ritgerðir og svo framvegis. Seinna las ég óþarflega harðorða en þó ekki innistæðulausa grein eftir afar þekktan og áhrifamikinn enskan gagnrýnanda, James Wood – sem er meðal annars ábyrgur fyrir að hafa kynnt Elenu Ferrante fyrir ófáum enskumælandi lesendum og hugsanlega hálfpartinn ýta af stað þeirri metsölubylgju – þar sem hann leitaðist við að afhjúpa Auster sem eins konar póstmódernískan brellumeistara, yfirborðskenndan höfund og hálfgert rithross, klaufskan stílista og gott ef ekki bara ofdekraðan kúkalabba. Ég man að sú grein sló mig aðeins út af laginu; var einn uppáhaldshöfunda minna kannski bara einhver ofmetinn viðvaningur? Wood virðist sólgnari í meistaralega ritaðar setningar (hann heldur til dæmis mikið upp á Saul Bellow og hefur oft hampað ungverska höfundinum László Krasznahorkai, sem mér finnst óviðjafnanlega leiðinlegur) en hreina og klára sögu – þar er Ferrante að vísu undantekning; hún er í senn stílisti, heimspekingur og mikill sagnameistari – og vissulega hefur Wood nokkuð fyrir sér í því að Auster er enginn Nabokov eða Virginia Woolf, hvað þá Halldór Laxness. Samtölin í skáldsögunum hans eru oft teiknimyndalega stirð og óeðlileg og lýsingarnar nokkuð klisjuskotnar, en að sama skapi finnst mér eitthvað kósý við klaufalegheitin. Plús að hann er flinkur sögumaður. Allra nýjustu bækurnar hans, The Winter Journal og Report from the Interior, fundust mér að vísu heldur þunnur þrettándi (nema hvað byrjunin í Vetrarsjúrnalnum er mjög flott), og því kom mér skemmtilega á óvart hversu grípandi og fín nýjasta skáldsagan hans er. Sú nefnist 4 3 2 1, doðrantur upp á hátt í níu hundruð blaðsíður, geri aðrir betur. Í bókinni úir og grúir af klaufalegum samtölum og lýsingum, en einnig skemmtilegu orðalagi, ríkum orðaforða, óvæntum fléttum og furðulegheitum. Auster er sannarlega einhvers konar póstmódernisti (hvað sem það annars þýðir), en líkist einnig um margt skáldsagnahöfundum 19. aldar, ef ekki bara Cervantes og Rabelais, í því hvernig hann fléttar sögur inn í sögur og rembist ekki við að líkja um of eftir raunveruleikanum, heldur leyfir frásagnargleðinni að leiða sig í gönur og henda sér út og suður. Í 4 3 2 1 fylgjumst við með því hvernig líf Archie Ferguson þróast á fjóra ólíka vegu eftir því hvernig tilviljanir móta og breyta lífi hans og fólksins í kringum hann; þaðan kemur titillinn. Strúktúrinn er skemmtilegur, ívið ruglandi á köflum, en truflaði mig þó ekkert. Sögusviðið er Newark, New Jersey og New York, auk þess sem leikar berast líka aðeins til Parísar. Þetta er fínasta bók, að minnsta kosti langt síðan ég hef hrapað svona rækilega inn í söguveröld annars höfundar. Ekki veit ég hvað James Wood finnst um bókina, en við skulum ekkert velta því fyrir okkur, heldur frekar horfa á hann tromma lipurlega á dúkalagt borð, ólífubox úr plasti og hvítan kaffibolla, en Wood er heitur aðdáandi Keith Moon, úr The Who, og hefur einmitt besta ritgerðarsafnið sitt, með þeim frábæra titli The Fun Stuff, á esseyju um tónlistarmanninn ofvirka. Mæli líka með þeirri bók. (SN.)

Ég trúi því eiginlega varla að þessi bók sé til. Ótrúlegt en satt þá var Winston Churchill, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, nokkuð liðtækur áhugalistmálari. Hann gaf árið 1932 út bók um þessa iðju sína, sem hét Painting as a Pastime. Churchill byrjaði ekki að mála fyrr en hann var orðinn 40 ára gamall (árið 1915). Hann lýsir því í bókinni að hann hafi kynnst málaralistinni fyrir tilviljun eftir að hann lauk störfum sem flotamálaráðherra. Skyndilegt aðgerðarleysið reyndist honum mjög erfitt og var málaralistin honum mikil huggun á þessum tíma og í raun það sem eftir lifði. Hápunktur þessarar stuttu bókar er þegar hann ber iðju málarans saman við störf hershöfðingja og sýnir þannig fram á djúpa þekkingu bæði á herkænsku og myndlist. Bókin er líka eins konar rannsókn á dægradvöl almennt, hversu miklu máli það skiptir að hafa eitthvað fyrir stafni annað en dagleg störf. Það sem hann skrifar í bókinni um lestur góðra bóka ætti t.a.m. að gleðja lesendur Leslistans en öll bókin er ótrúlega litrík og skemmtileg. Málverk Churchill eru reyndar ekkert sérstök, en það skiptir svosum ekki öllu máli.

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á klassískum fræðum og öllu sem tengist sögu Grikkja og Rómverja til forna. Konan mín gaf mér nýlega bókina The Rise of Athens eftir Anthony Everitt, og hún fjallar, líkt og titillinn gefur til kynna, um ris þessarar merku borgar. Mér þótti gagnlegt og skemmtilegt að lesa svona yfirlitsrit um þetta efni, sérstaklega vegna þess að ég hef dundað mér við að lesa frumheimildir um Grikkland til forna sem hafa komið út á íslensku á síðustu árum. Má þar nefna Rannsóknir Heródótusar sem komu út fyrir fimm árum í þýðingu Stefáns Steinssonar og Sögu Pelópseyjarstríðsins eftir Þúkýdídes, sem kom út fyrir fjórum árum í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Ég á eftir að klára þá síðarnefndu, sem er yfirleitt talin þurrari og nákvæmari en RannsóknirHeródótusar, en mun örugglega gera það við tækifæri. Bók Everitt setur frásögn Heródótusar í gott samhengi og hjálpaði mér að skilja betur þetta tímabil – en það er fátt sem getur komið í staðinn fyrir bók sem hefur staðið tímans tönn í 2.500 ár.

Rithöfundurinn og markaðsgúrúinn Ryan Holiday er ein af þessum týpum sem fær ungan mann eins og mig til að líða eins og ég hafi ekkert afrekað í lífinu. Aðeins 19 ára varð hann markaðsstjóri American Apparel og um þessar mundir er hann að gefa út sína áttundu bók, 30 ára gamall. Ég hef lesið nokkrar bækur eftir hann en sú sem skilur mest eftir sig að mínu mati er bókin Perennial Seller sem hann gaf út í fyrra. Í henni fjallar hann um þau sköpunarverk sem hafa, líkt og Rannsóknir Heródótusar, staðist tímans tönn. Í bókinni nefnir hann dæmi um tónlist, bækur og jafnvel fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að hafa ekki endilega slegið strax í gegn en hafa náð árangri í áranna rás og viðhaldið þeim árangri til lengri tíma. Hann leggur fram áætlun fyrir lesendur um hvernig megi ná slíkum árangri og leysir það verk vel af hendi, án þess að hljóma eins og ódýr sjálfshjálpargúrú. Hann gaf í síðustu viku út bók um frægt dómsmál Hulk Hogan gegn slúðurvefnum Gawker sem kallast Conspiracy og lítur vel út við fyrstu sýn. (KF.)

Að lokum er ég svo rétt byrjaður að blaða í The Love Object, eftir Ednu O’Brien, sem er virtur írskur höfundur. Smásögur, mér líst bara ágætlega (held ég) á þær. Sjáumst í næstu viku! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s