Hlekkir, 23. mars 2018

Fjárfestar tala oft um mikilvægi þess að stýra vel áhættu og gera ráð fyrir henni í allri áætlanagerð. Þeir gleyma hins vegar að huga að því hversu stóran þátt heppni skipar í daglegu lífi og þeir ættu, samkvæmt fjármálaskríbentinum Morgan Housel, að taka jafnt tillit til hennar og áhættu við ákvarðanatöku. Þessi setning úr grein Housel um þetta efni er býsna góð: „There are all kinds of quotes that belittle luck – “It wasn’t luck, it was hard work and persistence,” and whatnot. I get the temptation. But can you imagine how crazy someone would look saying the same thing about risk? “The earthquake wasn’t a risk, we just didn’t work hard enough to predict it.”“

Mennt er, að sjálfsögðu, máttur – en borgar menntun sig? Er fjárfesting í menntun ábatasöm fyrir samfélagið? Flestir eru eflaust tilbúnir að svara þessum spurningum játandi en bandaríski hagfræðingurinn Bryan Caplan gerir það ekki. Í þessari grein og í nýútkominni bók eftir hann færir hann sannfærandi rök fyrir því að fjárfesting í menntun sé ekki ábatasöm fyrir samfélagið þegar öllu er á botninn hvolft. Svo virðist sem að Viðskiptaráð taki að einhverju leyti undir með Caplan, þótt afstaðan sé ekki jafn afdráttarlaus. (KF.)

Ég hef búið í New York árum saman og fannst þetta viðtal, við hinn ágæta Adam Gopnik, um borgina, breytingar þar, gentrífikasjón og listalíf, nokkuð gott. Ég hjó einnig eftir því að umrætt viðtal var tekið á The New York Society Library, bókasafni sem var stofnað árið 1754 og er elsta bókasafn New York (ég mæli með skoðanaferð þar um ef fólk er t.d. á rölti nærri Metropolitan-safninu) en þar var ég meðlimur í rúm tvö ár og sat stundum, milli vinnustunda, í bólstruðum hægindastól í „lestarsalnum“ yndislega, og lækkaði þá meðalaldurinn þar um sirka hálfa öld. Í viðtalinu er Gopnik í senn bjartsýnn og svartsýnn um framtíð New York-borgar og bendir meðal annars á hvernig listalífi og bóhemíu hefur verið algjörlega rutt út af Manhattan-eyju, sem er komin langleiðina með að breytast í verslunarmiðstöð. „Manhattan has become a place that has no bohemian frontier for the first time ever. In my lifetime, it had passed from the West Village to the East Village to SoHo to Tribeca to the Lower East Side. And now, there’s none. There’s no place where you say that’s where young artists are finding big spaces to make art. It just doesn’t happen.“ Ef yfirlýsingar um dauða New York-borgar höfða sérstaklega til þín, þá er nýleg bók, Vanishing New York; How a Great City Lost Its Soul, bæði fín og óþolandi. (SN.)

Um mildina eftir Seneca, sem kom út sem Lærdómsrit á síðasta ári, var til umræðu í fyrsta Leslistanum. Nýlega skrifaði Jóhann Helgi Heiðdal umfjöllun um bókina fyrir vefritið Starafugl sem er vel þess virði að lesa.

Eitt sinn var því spáð af ekki ómerkari spekingum en John Maynard Keynes að eitt helsta áhyggjuefni framtíðarinnar væri hvað við ættum að gera við allan þann frítíma sem tækniframfarir veita okkur. Raunin varð hins vegar sú að við fundum óteljandi möguleika til að fylla þennan frítíma með enn meiri vinnu. Staðan er orðin þannig að það virðist vera eins konar kappsmál meðal fólks að vera „upptekið“ og það þykir orðið mjög fínt ef það er „brjálað að gera“. Núna er fólki tíðrætt um framtíð vinnunnar, þar sem ljóst þykir að fjöldinn allur af störfum verði tölvuvæddur innan tíðar, en færri ræða um framtíð þess sem við gerum eftir vinnu. Í þessari ágætu grein er ljósinu varpað á hvað verður um frístundir fólks í framtíðinni og mikilvægi þess að þær séu vel nýttar.

Hér er viðtal við bandarískan viðskiptafræðiprófessor sem gerði ítarlega rannsókn á sjálfstæðum bókaverslunum vestanhafs. Þrátt fyrir nánast ótakmarkað aðgengi að bókum í gegnum Amazon dafna sjálfstæðar bókaverslanir líkt og aldrei fyrr. Ástæðan, að mati prófessorsins, er sú að bókaverslanir leggja allt kapp á að huga að þörfum viðskiptavina sinna og gera upplifun þeirra af bókakaupunum inntaksríka og skemmtilega. Mér þótti gaman að lesa þetta, enda finnst mér töluvert skemmtilegra að kaupa bækur í bókabúðum en á netinu. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s