Bækur, 30. mars 2018

Þegar ég er á löngu ferðalagi og fæ að hvíla lúin bein heima hjá vinum og kunningjum, stenst ég sjaldan mátið um að grípa af handahófi bók niður úr hillu; þannig uppgötvar maður oft eitthvað nýtt og óvænt, líkt og raunin var nú fyrir nokkrum dögum þegar ég rataði á The Last American Man eftir Elizabeth Gilbert, höfund hinnar feykivinsælu Eat, Prey, Love. Um er að ræða ævisögu Eustace Conway, bandarísks manns (og hálfgerðrar ofurhetju) sem fluttist sautján ára gamall út í skóg og hefur búið þar síðar, nánar tiltekið á Skjaldbökueyju, Turtle Island. Eustace er í senn ómótstæðilegur og óþolandi, heillandi og hræðilegur; hann lifir 100% utan neyslusamfélags nútímans, veiðir sér í matinn, saumar öll sín föt, byggir öll sín híbýli (hann bjó í meira en áratug í „teepee“-tjaldi) og svo framvegis. Hann er svona maður sem finnur dauðan íkorna úti í vegarkanti, kippir honum með sér heim, fláir hann og notar í súpu. Hann er nýja hetjan mín. Bókin er úthugsuð, fljótlesin og listilega uppbyggð, krökk af eftirminnilegum karakterum. Fyrir margt löngu hlustaði ég á fínt viðtal við Elizabeth Gilbert hér í Longform-hljaðvarpinu og fannst hún virka snjöll, beinskeytt og sjarmerandi, en var þó haldinn vægum fordómum gagnvart (alltof vinsælum!) skrifum hennar. Ég hef til að mynda aldrei lesið Eat, Prey, Love, sem mér skilst þó að sé virkilega skemmtileg (og nú mun ég sannarlega bæta úr því).

 

… Og af því að Kári nefndi Borges hér að ofan og dálæti hans á íslenskri tungu og fornsögunum, þá langar mig að minnast snögglega á frábært tvímála ljóðasafn með íslenskum útgáfum af nokkrum ljóða hans, Yfir saltan mar, sem kom út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur árið 2015. Ég endurlas safnið um daginn, þegar ég var staddur heima á Íslandi, og það er betra en mig minnti, eiginlega bara alveg stórfínt. (SN.)

 

Eitt af mínum uppáhalds hlaðvörpum er In Our Time undir stjórn Melvyn Bragg. Þvílíkur hafsjór af fróðleik sem hægt er að finna í arkívum þess! Allt frá umfjöllun um merka heimspekingalindýrsvartholfiðraðar risaeðlur og svo mætti lengi telja. Allavega, í síðustu viku var frumfluttur þáttur um Alexis de Tocqueville og fræga bók hans, Lýðræði í Ameríku. Ég á og hef blaðað í þeirri bók en bölva því núna að hún sé föst í kassa í geymslu vegna þess að ég er nýbúinn að flytja úr íbúðinni minni. Megininntak bókarinnar situr þó enn fast í mér. Eins og titill verksins gefur til kynna fjallar hún um stjórnskipulagið í Bandaríkjunum á fyrri hluta 19. aldar af sjónarhóli fransks diplómata. Tilgangurinn með rannsókn hans var að komast að því af hverju það hefði tekist svo vel til með fulltrúalýðræðið í Bandaríkjunum og hvort hægt væri að heimfæra þennan árangur til Frakklands. Ég lærði heilmikið um sögu Bandaríkjanna af þessari bók en ekki síður um lýðræði, kosti þess og galla. Eins og staðan er í Bandaríkjunum í dag, og víðar í hinum vestræna heimi, þá er vel þess virði að endurnýja kynnin við þessa bók.

 

Þar sem ég vísaði í svo margar greinar um upplýsingaöldina þá má ég til með að nefna hér tvær bækur sem hafa hjálpað mér svo um munar að skilja heimspekina og hagfræðina á bak við hana. Sú fyrri, Information: The New Language of Science, er eftir eðlisfræðinginn Hans Christian Von Baeyer og er eins konar inngöngurit um eðlisfræði upplýsinga. Í bókinni skýrir hann, á læsilegan máta, hvað upplýsingar eru nákvæmlega, hvernig þær eru mældar og hvernig skilja megi heiminn eins og hann leggur sig út frá þeim. Hann siglir reyndar inn á mjög flókin mið undir lokin þegar hann ræðir hlutverk upplýsinga í skammtafræði, en bókin er engu að síður öll mjög skemmtileg og fróðleg. Cesar Hidalgo er líka eðlisfræðingur og skrifaði einnig bók um upplýsingar en nálgun hans er öllu aðgengilegri. Hann hefur bókina, sem nefnist Why Information Grows, á því að útskýra hvað upplýsingar eru, og síðan færir hann rök fyrir því að vöxtur og miðlun upplýsinga séu forsenda fyrir hagvexti og hagsæld ríkja. Þetta er kannski ekki hugmynd sem maður getur útskýrt í nokkrum línum (það er best að lesa alla bókina) en hún setur hlutina í kringum mann í nýtt og áhugavert samhengi. Hér er hægt að hlusta á höfundinn ræða bókina, sem er ágætis byrjun. (KF.)

 

Unnendur heilagrar ritningar að fagna því að nú má hlaða appi sem geymir Biblíuna á ótal tungumálum, þar á meðal á íslensku, sem er nýlunda. (SN.)

Þrátt fyrir að mín helstu áhugamál séu myndlist og bækur, þá hef ég yfirleitt verið lítið hrifinn af listaverkabókum. Mér finnast þær oft eins og léleg málamiðlun, of takmarkaðar til að njóta myndlistarinnar og of óþægilegar til lesturs. En sumar þeirra eru góðar, eins og nýútkomin bók um feril Rögnu Róbertsdóttur sem kom út í síðustu viku og ber titilinn Ragna Róbertsdóttir: Works 1984 – 2017. Samhliða útgáfunni var opnuð frábær sýning í Nýlistasafninu á nýjum verkum eftir hana. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s