Bækur, 6. apríl 2018

The Red Parts eftir Maggie Nelson er afar vel skrifuð og grípandi frásögn, en um leið virkilega erfið aflestrar. Ég las hana í flugvél, í einni striklotu, og var hálf-vankaður á eftir – viðfangsefnið stendur manni nærri, án þess að ég fari frekar út í þá sálma hér. Maggie Nelson er sjálfsagt þekktust fyrir The Argonauts, og er að mínu viti á meðal áhugaverðari höfunda í Bandaríkjunum um þessar mundir. (SN.)

Bókin God – A Human History eftir Reza Aslan kom út fyrir ekki svo löngu síðan og er flott yfirferð um hvernig Guð hefur verið manngerður í aldanna rás, jafnvel þótt honum sé ætlað að vera táknmynd einhvers sem er handan hins mannlega. Það er býsna gagnlegt að hafa þessa hugmynd til viðmiðunar þegar farið er yfir sögu trúarbragðanna og hún hjálpar manni að skilja betur hvernig trúarbrögðum tekst að draga fram allt það besta og það versta í fari mannsins. Ég mæli einnig með öllu dýpri yfirferð um svipað málefni eftir trúarbragðafræðinginn og fyrrum nunnuna Karen Armstrong. Bók hennar, Fields of Blood, er öllu einbeittari og fjallar hún um samband trúarbragða og ofbeldis. Að hennar mati er það heldur grunnhyggnisleg söguskoðun að kenna trúarbrögðum um helstu styrjaldir og voðaverk mannkynssögunnar. Með því að grannskoða sögu trúarbragðanna og reyna að skilja hvaða hlutverki trúarbrögð gegndu fyrir mismunandi samfélög á ólíkum tímabilum mannkynssögunnar kemst lesandinn að því að ekki er beint samhengi á milli trúarbragða og stríðs. Þetta samband er öllu flóknara en það virðist vera í fyrstu og bók Armstrong er frábær upphafspunktur vilji maður mynda sér upplýstari skoðun á þessu hitamáli.

Mary Beard er að öllum líkindum þekktasti núlifandi fornfræðingurinn og hefur skrifað fjöldann allan af bókum um Rómarveldi til forna. Nýleg bók hennar um það málefni, SPQR, hefur setið lengi í innkaupakörfunni minni á Amazon, en hún hefur fengið frábærar viðtökur.  Ég fann nýlega ritgerðarsafn eftir hana sem heitir Confronting the Classics og í því safni tekst hún á við ýmis álitaefni úr hinum klassíska heimi. Upphafs- og titilgrein bókarinnar fjallar bæði um varnarbaráttu klassískra fræða í dag og einnig hvaða erindi þau eiga við samtímann. Til hvers ætti nokkur maður að læra latínu og grísku? Eru þetta ekki útdauð tungumál, töluð af útdauðum hvítum karlmönnum um útdauð málefni? Beard svarar þessum spurningum mjög vel á sinn einstaka máta, sem er í senn nákvæmur og skemmtilegur. Aðrar greinar í bókinni eru að mestu unnar upp úr bókadómum sem hún hefur skrifað í áranna rás, en það kemur ekki að sök – þær eru flestar mjög skemmtilegar. Hér er einnig hægt að lesa skemmtilegan prófíl um höfundinn, vilji lesendur kynna sér hana nánar.

Ég rambaði á þessa bráðskemmtilegu smásögu eftir ítalska rithöfundinn Dino Buzzati úr nýútkominni enskri þýðingu á smásögum hans sem ber titilinn Catastrophe and Other Stories. Sagan fjallar um inflúensu og því býsna viðeigandi lesning fyrir páskahretið. Ég mæli líka eindregið með frægustu skáldsögu Buzzati, Tartaraeyðimörkinni (Il deserto dei Tartari). Ég las enska þýðingu á bókinni á sínum tíma (þar sem ég kann fátt annað en að panta kaffi á ítölsku) og er vís til þess að lesa hana aftur. Bókin fjallar um herdeild sem bíður og bíður eftir stríði sem aldrei kemur og er sögð frá sjónarhóli ungs hermanns, Giovanni Drogo, sem eyðir meirihlutanum af ævi sinni með áðurnefndri herdeild þrátt fyrir að vera frjáls ferða sinna. Mér sýnist á léttu gúggli að verk Buzzati hafi ekki verið þýdd yfir á íslensku. Endilega leiðréttu mig, kæri lesandi, ef ég hef rangt fyrir mér. (KF.)

Bandaríski ljósmyndarinn Peter Menzel og rithöfundurinn Faith D’Aluiso ferðuðust vítt og breitt út um byggð ból og skrásettu, í mynd og orði, hvað manneskjur ólíkra landa leggja sér vikulega til goggs – útkoman var bókin Hungry Planet, sem kom út árið 2005 og felur í sér samanburð á átvenjum okkar á jörðinni. Niðurstöðurnar eru sjokkerandi (og vissulega oft fyrirsjáanlegar – til að mynda leggur ein bandarísk fjölskylda sér ekkert til munns nema það sé fyrst vafið rækilega inn í plast, og aðrar fjölskyldur borða á viku jafngildi þess sem flest okkar gleypa í sig á nokkrum klukkustundum. Sjón er sögu ríkari. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s