Hlekkir, 6. apríl 2018

Hrikalega skemmtileg grein í The New Yorker um einn besta vasaþjóf í heimi, en viðkomandi er jafnframt galdramaður og sjónhverfingameistari í Las Vegas. (SN.)

Ég minnist þess að hafa einhvern tímann lesið um námsskrá úr kúrsi sem breska ljóðskáldið W.H. Auden kenndi árið 1941 við Michigan háskóla í Bandaríkjunum. Kúrsinn, sem bar titilinn „Örlög og einstaklingurinn í Evrópskum bókmenntum“, geymdi um 6.000 blaðsíður af skyldulestri og á meðal þeirra bóka sem tæklaðar voru má nefnda Gleðileikinn guðdómlegaeftir Dante, Karamazov bræðurna eftir Dostojevskíj, Faust eftir Goethe, Játningar Ágústínusar og svo mætti lengi telja. Allt þetta, nota bene, á einni önn! Margir myndu eflaust renna yfir þennan lista og áætla að engum heilvita manni myndi detta í hug að kenna slíkan kúrs í dag – á tímum Candy Crush, Snapchat og PornHub. Blessunarlega er til fólk sem lætur sér detta slíka „vitleysu“ í hug. Tveir prófessorar við sama háskóla hafa ákveðið að kenna kúrs sem er byggður á námskeiði Audens. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og nefndi t.d. einn nemandi að kúrsinn hefði breytt lífi hans. Ég vildi óska þess að ég hefði getað lagt í slíkan kúrs þegar ég var í háskólanum.

Five Books er ein af mínum eftirlætis síðum. Á henni eru birt viðtöl við sérfræðinga á ýmsum sviðum og þeir beðnir um að velja fimm bækur sem ramma inn eða einkenna það svið. Það er alltaf hægt að læra eitthvað áhugavert af þessum viðtölum og svo skemmir ekki fyrir að síðan er algjör fjársjóðskista fyrir bókaorma. Nýlegt viðtal vakti áhuga minn, nánar tiltekið við stærðfræðiprófessorinn Robert Wilson, um sögu stærðfræðinnar. Sjálfur hefur hann skrifað mikið um efnið; nú síðast kom út bók eftir hann um Leonhard Euler, og lofar sú mjög góðu. En annars fer hann vítt og breitt um efnið og færir mér skemmtilegar bókaábendingar um málefni sem mér finnst áhugavert og ég veit lítið sem ekkert um.

Mér fannst þessi stutta grein um internetið, samfélagsmiðla og ljósmyndirskemmtileg. Í henni er fjallað um hvaða hlutverki ljósmyndatæknin gegnir í minni okkar og hvaða merkingu það hefur fyrir fólk að persónulegar ljósmyndir varðveitist á internetinu um ókomna tíð.

Við höfum öll heyrt að vandi fjölmiðla og alls kyns útgáfustarfsemi hefur aukist svo um munar með tilkomu internetsins. Réttara væri hins vegar að segja að umhverfi útgefenda hafi tekið stakkaskiptum og að með auknum vandamálum verði einnig til ný tækifæri. Ég er t.d. ekkert viss um að við Sverrir hefðum getað staðið að útgáfu fréttabréfs um bækur og annað áhugavert lesefni fyrir tilkomu internetsins þar sem annar okkar býr í Bandaríkjunum og hinn á Íslandi. Við hefðum kannski getað gert það, en það hefði verið töluvert flóknara og tímafrekara ferli. Ev Williams, einn stofnanda Twitter og Medium, skrifaði nýlega áhugaverða grein (á eigin miðli að sjálfsögðu) þar sem hann fer yfir þau vandamál og þau tækifæri sem liggja fyrir framleiðendum ritaðs máls á internetinu. Í stuttu máli er hann bjartsýnn á framtíðina og telur það vel mögulegt fyrir rithöfunda, blaðamenn og fleiri að afla tekna í gegnum skrif á netinu. Ég mæli einnig með því, ef þú hefur áhuga á þessum pælingum, að lesa það sem Ben Thompson, ritstjóri vefmiðilsins Stratechery, hefur að segja um framtíð útgáfumála á internetinu. Þessi grein er t.d. mjög góð byrjun. Hann telur að framtíð héraðsfrétta (e. local news) felist í aukinni sérhæfingu og áskriftarmódeli í gegnum netið. Hægt er að skoða fleiri greinar sem hann hefur skrifað um sama málefni hér.

Svo virðist sem einn besti vinur Leslistans sé breski heimspekingurinn John Gray. Ég gleypi í mig allt sem hann skrifar og finn mig knúinn til að deila því með umheiminum. Hér er að finna nýja grein eftir hann úr Times Literary Supplement sem fjallar um öfgakennt frjálslyndi (sem er slæm þýðing mín á hyper-liberalism). Í henni færir hann rök fyrir því að hnignun frjálslyndis sé að mörgu leyti sjálfsprottið fyrirbæri. Í nafni „frjálslyndra skoðana“ séu tilburðir til opinna skoðanaskipta kvaddir niður, en ein sterkasta birtingarmynd þessara þróunar er að finna á skólalóðum ýmissa Bandarískra háskóla þar sem krafan um örugg svæði (e. safe spaces) fyrir ögrandi skoðunum verður sífellt háværari. Gray sýnir í greininni að vandinn nær út fyrir þessar lóðir og í lokaorðum hennar er hann heldur myrkur í máli: “Insignificant in itself and often comically absurd, the current spate of campus frenzies may come to be remembered for the part it played in the undoing of what is still described as the liberal West.” (KF.)

Sjálfsagt ættum við öll að hætta að nota Google, Facebook og aðrar netþjónustur og samfélagsmiðla einn tveir og núna strax – en samt gerum við það auðvitað ekki. Og auðvitað ættum við öll einnig að hætta bara alfarið að nota Internetið – og frekar syngja, dansa, lesa, elskast, ferðast. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s