Bækur, 13. apríl 2018

Út er komin á íslensku skáldsagan Dagar höfnunar eftir Elenu Ferrante, sem ætti að vera íslenskum lesendum að góðu kunn eftir velgengni Napólí-fjórleiksins magnaða. Það er alllangt síðan ég las Daga höfnunar, sem kom upprunalega út árið 2002 á Ítalíu og er afar hnitmiðuð og kröftug nóvella. Ég las hana á ensku, undir heitinu The Days of Abandonment (frá 2005), en mér skilst að íslenska þýðingin sé mjög fín. Já, dáindisfín bara. Ég man vel eftir því þegar ég las bókina (það voru fyrstu kynni mín af Elenu Ferrante): Ég bjó í París, líklega var þetta árið 2011, og ég var sárveikur, með hita og flensu – líkastur persónu úr skáldsögu eftir Dostojevskí: ungur maður með óráði sem býr við skáldlega eymd og volæði í agnarlítilli skonsu í syndabæli stórborgarinnar – og í rúmlegunni las ég þessa bók. Og vá sko. (Ég hef áður skrifað um dálæti mitt á Ferrante, meðal annars hér.)

Hin kanadíska Rachel Cusk hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli fyrir tvær nýjustu skáldsögur sínar, Outline (2014) og Transit (2017), en þær tilheyra þríleik og lokahnykkurinn, Kudos, er víst væntanlegur. Ég uppgötvaði Cusk fyrst í The Paris Review, sem smábirti Outline í fjórum innslögum, og hún náði mér strax. Rödd Cusk er einstök – rétt eins og rödd áðurnefndrar Elenu Ferrante – en það tók hana, að ég hygg, nokkrar bækur að rata á sinn rétta tón. (Fyrsta skáldsaga hennar, Saving Agnes (1993), er til að mynda með allt öðru sniði og nær hvergi sömu hæðum; einhvern veginn mjög dæmigerð, og svolítið flöt, fyrsta skáldsaga.) Ég skrifa kannski meira um skáldsögurnar hennar síðar, ef mér endist til þess aldur og þrek; sú bók, sem mig langaði að vekja máls á hér, er af sannsögulegum toga og nefnist A Life’s Work; on becoming a mother. Lestu hana endilega. Þar lýsir Cusk, á grátbroslegan og oft pínlega hreinskilinn hátt, trámatískri reynslu sinni af því að verða móðir. Hún ræðst ótrauð á margvísleg tabú og greining hennar, á stöðluðum hugmyndum um móðurhlutverkið, er í senn hvöss og fyndin og tímabær. Cusk sætti á sínum tíma heiftarlegri gagnrýni fyrir þessa bók og var sökuð, af fjölmörgum veimiltýtum til sjávar og sveita, um að vera svolítið kaldlynd og grimm; ófáum alvitringum þótti víst til að mynda óverjandi að viðurkenna að allar þær margvíslegu þolraunir og allur sá argi hryllingur sem hlýst af barnseignum, svo sem svefnleysi, algjör fjarvera frítíma og næðis til að hugsa/lesa/skrifa, sú staðreynd að önnur manneskja situr nú skyndilega stanslaust um mann og krefst þess með skerandi öskrum og góli að maður mati sig, hreinsi burt gubb og þvag og kúk og svo framvegis, sé á tíðum óþolandi eldskírn og að mann langi oft hreinlega að flýja öskrandi upp í næstu lest og endurheimta sitt fyrra líf. Styrkur bókarinnar liggur annars vegar í orðsnilld höfundarins (lýsingar hennar á hlutum og fólki eru afar lifandi og góðar) og þeirri samsvörun sem lesandinn (í þessu tilviki: ég, tiltölulega nýbakaður pabbi) finnur til. Ergelsislegar tilfinningar i í garð barnanna okkar útiloka þó auðvitað ekki að við berum samfara til þeirra yfirþyrmandi ást; öll erum við samsett úr þúsund ósamrýmanlegum tilfinningum og hugmyndum og ef maður áttar sig ekki á því, þá er maður einfaldlega blábjáni. Já, þú last rétt: blábjáni. Þetta er stórskemmtileg bók – stundum þannig að maður hlær upphátt – og virkilega vel skrifuð. Mest fór í taugarnar á mér hversu ljót kápan á minni útgáfu er. Af hverju eru bækur eftir konur oft klæddar upp á svona hallærislegan hátt? Cusk er umfram allt vitsmunalegur höfundur og hún á skilið að verkum hennar sé pakkað inn í smekklegar umbúðir frekar en að ýjað sé að því að hér fari einhvers konar tilfinningaklám og lífstílsspeki sem höfða eigi sérstaklega til hysterískra kvenna. Mæli mikið með þessari bók – einkum fyrir nýbakaða (og eins raunar þaulreynda) foreldra. (SN.)

Ég fann fyrir tilviljun Sjálfsævisögu John Stuart Mill á útsölu í Bóksölu stúdenta um daginn. Svo komst ég reyndar að því að hún er öll aðgengileg á netinu ókeypis (en ég kýs reyndar yfirleitt pappírinn fram yfir skjáinn, þannig að það gerir ekkert til). Þvílíkt sem þessi bók kom mér á óvart! Ég kunni deili á John Stuart Mill og las einhvern tímann Frelsið eftir hann þegar ég var táningur og taldi mig þess vegna vita allt sem maður þarf að vita um hann. Ég hafði alltaf séð hann fyrir mér sem eins konar kláran einfeldning; mann sem hefur svo skýra sýn á heiminn og gangverk hans að hann sér ekki sólina fyrir eigin hugmyndafræði. Mill var einn helsti kyndilberi nytjahyggjunnar, sem er kannski sú heimspeki sem ég tengi hvað minnst við og er í hvað mestri andstöðu við. Mill byrjar bókina á að kryfja æsku sína, sem var alls ekki hefðbundin. Þriggja ára var hann farinn að læra forngrísku og tólf ára var hann líklega búinn að lesa fleiri þungavigtarrit en ég hef náð að komast yfir á minni 30 ára ævi! Þetta gerði hann undir þungri handleiðslu föður síns, James Mill, sem var rithöfundur, m.a. þekktur fyrir doðrant um sögu Indlands (þótt hann hafi aldrei stigið þar fæti!). Þegar Mill yngri varð tvítugur varð hann fyrir því sem við myndum í dag kalla taugaáfall en hann kallaði “a crisis in my mental history”. Hér fer bókin fyrst að verða áhugaverð. Á þessum tímapunkti spurði hann sig einfaldlega: Ef allt sem þú hefur haft að markmiði verður að veruleika í dag, myndi það gera þig hamingjusaman? Eftir mikla umhugsun neyddist hann til að svara þeirri spurningu neitandi, en sú neitun leiddi af sér langvinnt þunglyndi. Á endanum skreið hann ekki upp úr þessum hugmyndafræðilega blús fyrr en hann fór að kynna sér ljóðlist William Wordsworth. Þessi uppgötvun hans leiddi af sér ítarlega naflaskoðun sem breytti sýn hans á heiminn til frambúðar. Þótt hann hefði ekki gefið nytjahyggjuna upp á bátinn, þá varð heimspeki hans fágaðri og hann virðist hafa öðlast einhverja dýpt og skilning í krísunni sem faðir hans gat ekki veitt honum. Afgangurinn af bókinni er líka ágætur, sér í lagi kaflinn þar sem hann lýsir kynnum sínum af eiginkonu sinni, sem er falleg ástarsaga. Eitt er víst eftir þennan lestur, mér finnst Mill alls enginn einfeldningur lengur.

Svo er ég hálfnaður með aðra ævisögu, sem gæti ekki verið ólíkari sögu John Stuart Mill, en það voru endurminningar rapparans vinsæla Gucci Mane, The Autobiography of Gucci Mane. Gucci, sem heitir réttu nafni Radric Delantic Davis, er einn af upphafsmönnum trap-tónlistarstefnunnar, sem er farið að verða næstum eina rapptónlistin sem heyrist í útvarpi núorðið. Bókina skrifaði hann á meðan hann afplánaði fangelsisdóm vegna vopnaburðar en hafði fram að því nær rústað lífi sínu og ferlinum vegna eiturlyfjamisnotkunar. Núna er hann hreinn og beinn, nýgiftur og gefur út tónlist eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta er rosaleg saga og alls ekki bara fyrir þá sem hafa áhuga á rapptónlist, þar sem þetta er flott innsýn inn í menningarheim sem er ráðandi í poppmenningu dagsins í dag, hvort sem manni líkar það betur eða verr. Þegar ég hugsa um það þá er örlítill samhljómur í ævisögu hans og John Stuart Mill. Báðir umturnast þeir nefnilega fyrir tilstuðlan ljóðlistar og þótt það sé kannski ekki mikil tenging á milli Wordsworth og 2 Pac, þá er að finna í báðum þessum sögum verðmæta áminningu um mátt ljóðanna. Fyrir áhugasama er hér hægt að finna viðtal sem rithöfundurinn frægi Malcolm Gladwell tók við Gucci þar sem þeir fara yfir litríkan feril hans. Hér er líka nýlegt lag með honum og lærisveinum hans í Migos sem er býsna gott. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s