Hlekkir, 13. apríl 2018

Í tilefni þess að tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason hyggst höfða mál gegn Universal Music, norska lagahöfundinum Rolf Løvland og fleiri góðum gæjum, vegna meints hugverkastuldar á laginu „Söknuður“, er gaman að reka nefið í þessa grein hér, þar sem fjallað er um málaferli sem dánarbú platínumbarkans Marvins Gaye höfðaði gegn kátri þrenningu söngelskra karlmanna, þeim Robin Thicke, Pharrell William og Clifford „T.I.“ Harris, en þeir sætu, söngnu sveinar munu hafa stolið „stemningunni“ í Gaye-laginu „Got to Give It Up“, hvorki meira né minna, þegar þeir settu saman lag undir því viðeigandi heiti „Blurred Lines“. (Já, „stemningunni“.) Málaferlum vegna meints hugverkastuldar í tónlistarútgáfu hefur snarfjölgað og útgáfufyrirtæki, kvikmyndafólk og listamenn eru vör um sig þessa dagana og ráða jafnvel sérstaka tónlistarfræðinga í réttarsal (e. forensic musicologist) til að ganga úr skugga um að engin nóta hafi verið tekin ófrjálsri hendi áður en lög og plötur eru sendar út úr húsi í átt að eyrum neytenda. Í Marvin Gaye-laginu var, líkt og áður segir, ekki einu sinni um að ræða beinan stuld á laglínu eða hljómferli heldur einungis þjófnað á „stemningu“. Mér finnst þetta svoldið klikkað, þar sem ég veit, af eigin reynslu og áralangri athugun á hugverkum annarra og almennri hnýsni minni, að öll hugverk eru greinar á sköpunartré sem sprottið er af sömu rót. Eða hvað? Það er aðeins kerfi samtímans, og kapítalisminn, sem lætur okkur hugsa um allt – listaverk, mat og svo framvegis – sem söluvörur. Og það getur verið hættulegt og skaðlegt. Auðvitað vona ég þó að Jóhann hafi sigur úr býtum gegn Universal Music og blóðþyrstum meðreiðarsveinum þess, enda hljómar „Söknuður“ Jóhanns miklu betur en hið vemmilega „You Raise Me Up“, sem er sláandi líkt hinu fyrrnefnda hvað tónsmíðina snertir, og raunar áþján að hlýða á það til enda. (SN.)

Við Sverrir elskum allt sem sígilt er og þess vegna fannst mér gaman að lesa þessa ágætu grein í Washington Post um það af hverju bókmenntir fornaldar skipta enn máli. Ég bjóst reyndar við því að greinin væri öllu dýpri rökstuðningur fyrir mikilvægi fornbókmennta en í henni er fjallað um fjórar þýðingar á fornaldarverkum yfir á ensku. Sem betur fer vekja þær allar athygli mína. Ein þeirra er t.d. eftir Ann Carson, þann mikla snilling (og Íslandsvin) sem er bæði liðtækur þýðandi klassískra verka og eitthvert athyglisverðasta ljóðskáld sem ég hef lesið. Ef þú hefur hins vegar áhuga á góðum rökstuðningi fyrir mikilvægi sígildra verka þá mæli ég eindregið með þessari ritgerð eftir ítalska rithöfundinn Italo Calvino og heitir í enskri þýðingu Why Read the Classics? Samnefnt ritgerðarsafn eftir hann er líka alveg frábært og hefur að geyma margar frábærar ritgerðir, fyrst og fremst um bókmenntir.

Ég skemmti mér konunglega yfir þessu viðtali við heimspekinginn og fjárfestinn Nassim Taleb sem gaf nýlega út bókina Skin in the Game. Bókin var til umfjöllunar í fyrsta Leslistanum og ég get hiklaust mælt með henni aftur hér. Viðtalið er stílað svolítið til fjármálanörda en það er margt í því sem nær til breiðari hóps. Enda eru leiðarstefin í bókinni, að það sé mikilvægt að hafa eitthvað í húfi fyrir skoðanir sínar, eitthvað sem ætti að geta höfðað til allra. (KF.)

Í hlaðvarpi sem nefnist The Longform taka þáttastjórnendur viðtöl við höfunda sem einkum fást við nonfiksjón skrif; blaðamenn, rithöfunda, sjálfstætt starfandi tímaritspenna og svo framvegis. Ég hef hlustað reglulega á þetta hljóðvarp síðustu árin og það er gaman að kafa í sarpinn hjá þeim, sem orðinn er býsna stór. Hér er gott dæmi um nýlegt viðtal, virkilega fínan þátt þar sem rithöfundurinn og tölvuleikjasmiðurinn Tom Bissell er spurður spjörunum úr. Bissell hóf feril sinn ungur sem ævintýragjarn ferðaskríbent, gaf út smásögur í tímaritum og nokkrar bækur og færði sig síðan yfir í að semja tölvuleiki. Hann er íhugull, viðkunnanlegur og hefur þýða rödd og margt áhugavert að segja. Annað sem er skemmtilegt við Longform-síðuna er að umsjónarmennirnir hlekkja á ýmsar eftirlætisgreina sinna eftir vel valda höfunda; hér má til dæmis skoða undirsíðu sem helguð er Bissell, þar sem hann skrifar meðal annars á fjörlegan og frískandi hátt um Loch Ness-skrímslið, William T. Vollmann og Grand Theft Auto-fíkn sína. (SN.)

Ég merkti við eftirfarandi klausu úr ágætri grein af The Guardian. Nokkuð gott: „The most tragic part of social media’, the writer Zinovy Zinik told me the other evening, ‘is that though people think they are expressing their personalities they’re always just quoting someone else’. He meant that when people think they are writing ‘what’s on their mind’ on Facebook they are just following a set of sub-literary tropes, prescribed poses. And in the sense that people choose social media as the main forum to express themselves, that means there’s less of themselves all the time. For those who are more passive-expressive, there is always the option to re-post other people as a way of signalling your position: literally transforming oneself into a series of quotes.“ (SN.)

Bandaríski listgagnrýnandinn Jerry Saltz hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Hér fjallar hann um nýja yfirlitssýningu á verkum Cy Twombly sem er einn af mínum eftirlætis myndlistarmönnum. Það hefur fáum tekist að festa það í orð af hverju verk hans eru jafn áhrifarík og raun ber vitni og þrátt fyrir að Saltz takist það ekki til fulls, þá er þessi fína grein ágæt leið til að komast nær því að skilja magnaða list Twomblys.

Nýleg bók sálfræðingsins fræga Steven Pinker, Enlightenment Now, var til umræðu hér fyrir nokkrum Leslistum síðan. Í henni er fjallað um mikilvægi Upplýsingarinnar og færð rök fyrir því að hún sé uppspretta allra þeirra framfara sem blasið hafa við mannkyninu síðastliðna áratugi. Í þessari ágætu grein eftir Yoram Hazony er farið dýpra í skuggahliðar Upplýsingarinnar en Pinker gerir og gefið í skyn að hans sýn hans risti alls ekki nógu djúpt. Lokasetning greinarinnar fangar ágætlega hvert Hazony er að fara: “The most important political truth of our generation may be this: You can’t have both Enlightenment and skepticism. You have to choose”.

Rakst á þessa fínu grein um „lókalisma“ eða mikilvægi þess að hugsa samfélagsumbætur frá grunni og út frá nærumhverfinu. Þetta er þörf áminning um að helstu ágreiningsefni heimsins verða mun frekar leyst af almennum borgurum en stjórnmálamönnum. Þetta er líka góð lesning í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. Í greininni er vísað í skipulagsfræðinginn Charles Marohn og stofnun hans, Strong Towns, sem berst fyrir betra borgarskipulagi í Bandaríkjunum. Fyrir fjórum árum síðan heyrði ég viðtal við hann í mínu uppáhalds hlaðvarpi, EconTalk, og hafði í kjölfarið samband við hann. Útkoman varð skemmtilegt viðtal sem ég tók við hann fyrir Viðskiptablaðið, en ég starfaði þá sem blaðamaður þar. (KF.)

Ef þú þarft að færa úr stað grafreit, jafnvel heilan kirkjugarð, þá er sennilegt að þú hafir gagn og gaman af því að lesa þessa grein. Aðalpersóna frásagnarinnar er náungi sem þénar vel á slíku starfi og er, svolítið kaldhæðnislega, nýbakaður ekkill.

Ég var árum saman áskrifandi að pappírsútgáfunni af The New York Times (sagði henni upp nýlega vegna flutninga og veit ekki hvort ég endurnýi hana) og las þá einkum, um helgar, bókmenntakálfinn sem Pamela Paul ritstýrir. Hún var nýlega í viðtali í Kiljunni. Bókmenntapési The Times er í senn góður og óþolandi, líkt og The New York Times í heild, en mér finnst þetta dagblað að mörgu leyti þreytandi og snobbað; áherslan á peninga, frægðardýrkun og falleg hús verður oftar en ekki yfirþyrmandi, auk þess sem fréttastíllinn hjá dagblaðinu er undarlega endurtekningasamur og oft klaufalegur. Pamela Paul er, rétt eins og ég, bjartsýn á framtíð bókarinnar – og það er ég einnig, að minnsta kosti hvað enska bókaútgáfu varðar. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s