Bækur, 20. apríl 2018

Í vikunni las ég Reckless Daughter eftir David Yaffe, langa og býsna ýtarlega ævisögu um Joni Mitchell. Yaffe fer af innsæi og næmi í gegnum sköpunarverk söngvaskáldsins; tónlistina, textasmíðina, málverkin. Þá kafar hann djúpt, og stundum fulldjúpt, í ástalíf hennar. Bókin er lipurlega skrifuð, örlítið endurtekningasöm og – líkt og flestar bækur – aðeins of löng. Auk þess er aðdáun Yaffe á viðfangsefninu óumdeilanleg; stundum minnir verkið á hálfgerða lofgjörð, aðdáendabréf til Joni. En ber nokkuð að undra það þó að Joni Mitchell heilli höfundinn, er hún ekki besta söngvaskáld 20. aldarinnar? Hér framkallar hún allavega gæsahúð. Og hér er svo langt viðtal við hana, tekið árið 2013. Magnað dót. Joni veitir ekki oft viðtöl, er líkt og svo margt næmt og áhugavert fólk frekar reklúsíf – en mikið yndislega er gaman að hlusta á hana. Beinskeytt, keðjureykjandi, hvöss, snjöll, einstök. (SN.)

Ég vék að því fyrir einhverjum Leslistum síðan að út væri komin bók þar sem því væri haldið fram að menntun væri ekki nærri jafn ábatasöm fyrir samfélagið og oft er haldið fram. Bókin heitir The Case Against Education: Why the Education System Is a Waste of Time and Money og er eftir Bandaríska hagfræðinginn Bryan Caplan. Ég var búinn að lesa þó nokkuð um bókina og í vikunni stökk ég svo til og hlóð henni niður á Kindilinn minn. Nú hef ég töluverða reynslu af menntun, bæði hef ég setið á skólabekk í fjöldamörg ár og hef starfað í háskóla, og þess vegna vekur þetta efni áhuga minn. En ég held að það sé öllum í hag að kynna sér efni þessarar bókar, sama hvort maður er sammála höfundi eða ekki. Caplan heldur því fram að þótt æðri menntun skili vissulega hærri tekjum til einstaklinga þá sé það ekki endilega vegna þeirrar þekkingar og þeirrar hæfni sem nemendur tileinka sér í náminu. Að hans mati er það fyrst og fremst skilaboðin (e. signal) sem háskólagráðan senda til vinnuveitenda sem valda tekjuaukningunni og hann færir sannfærandi rök fyrir því að þessi skilaboð séu í raun einu haldbæru verðmæti menntunar. Hann segir ekki að menntun sé beinlínis gagnslaus, heldur að gagn hennar sé stórlega ofmetið og að sú mikla fjárfesting sem ríki leggja í hennar vegna skili sér alls ekki í auknum hagvexti. Ég er að mörgu leyti sammála Caplan, ég held að fjárfesting í menntun skili sér ekki beint í auknum tekjum fyrir samfélagið – ég held að það orsakasamhengi sé miklu frekar öfugt. En ég er ósammála honum vegna þess að ég held að virði menntunar sé ekki hægt að mæla einungis í tekjum. Menntun (fyrir mér) er fyrst og fremst til þess að auðga mannsandann og gera fólk að málsmetandi þjóðfélagsþegnum. En eins og ég segi, sama hverrar skoðunar maður er um verðmæti menntunar þá er þessi bók bæði holl og skemmtileg lesning. Hér er flott viðtal við höfundinn þar sem stiklað er á stóru um helstu atriði bókarinnar. (KF.)

Almennt les ég býsna mikið um loftslagsmál, náttúrufræði og sorp, sem er ekki alltaf hægðalosandi. En hvernig er annað hægt eins og nú árar? Í vikunni dró enn og aftur fram bók sem ég hef lengi frestað að lesa, The End of Natureeftir Bill McKibben, eina þá alfyrstu sem tók á loftslagsbreytingum með hinn almenna lesanda í huga. Líkt og titillinn gefur til kynna, þá er þetta ekki upplífgandi lestur. Á bókarkápunni minni er dauður fugl. Hugmyndin að baki titlinum, um endalok náttúrunnar, er sá að við mennirnir séum ekki lengur lítil peð ofurseld duttlungum náttúrunnar, heldur séum við nú stærsta og áhrifamesta aflið á jörðinni – mengandi strit okkar, allar framfarirnar, hafa gjörbreytt jörðinni á síðustu áratugum. Og hvað tekur nú við? Það er hálf-óhugnanlegt að hugsa til þess. Bill McKibben er meðal annars einn stofnenda hinna merku 350-samtaka, og þetta er góður upphafsreitur að verkum hans og lífsstarfi. (SN.)

Í fyrra keypti ég bókina A New Kind of Science eftir Stephen Wolfram á bókamarkaði í Boston eftir að hafa haft hana lengi í Amazon körfunni minni. Nokkrum dögum síðar, þegar höfundur hennar fagnaði 15 ára afmæli verksins, ákvað hann að hafa hana alla aðgengilega á netinu. Þetta var óneitanlega svolítið svekkjandi (bókin er mjög stór og þung og leiðinlegt að bera á milli landa), en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það svosum ekki öllu máli. Það hefur tekið mig langan tíma að lesa og skilja þessa bók og mér hefur fundist verðmætt að geta haft hana aðgengilega bæði á hörðu og mjúku formi. Þetta er algjör doðrantur og alls ekki auðskilið efni, en virkilega forvitnileg bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á vísindum og heimspeki. Ég ætla ekki að reyna að útskýra hana ítarlega en í stuttu máli fjallar hún um hvernig hægt er að nýta tungumál og hugtök úr forritun til að skilja betur heiminn. Einföld forrit, eða reiknireglur öllu heldur, geta gefið af sér ótrúlega flóknar niðurstöður og sú staðreynd er að mati Wolfram ærin ástæða til þess að endurhugsa hvernig við nálgumst vísindin. Ef Wolfram sjálfur myndi skilja íslensku og væri áskrifandi Leslistans myndi hann eflaust slá mig utanundir vegna þess hversu einfölduð og afskræmd kynning þetta er á hugmyndum hans. Þess vegna legg ég til að þú lesir þessa grein eftir hann sem hann skrifaði í tilefni 15 ára afmælisins á bloggsíðu sinni. Þar gerir hann bókinni öllu betri skil. Hér er líka önnur grein um þróun vísindapappíra sem vísa mikið í Wolfram og hans heimspeki. (KF.)

Að lokum langar mig svo að impra snöggvast á bók eftir Ursulu K. Le Guin, No Time to Spare. Le Guin er, eða var (hún lést nýlega), vitaskuld einn þekktasti vísindaskáldsöguhöfundur samtímans. Skáldskapur hennar olli straumhvörfum og stuðlaði að því að höfundar á hennar sviði, þ.e. innan fantasíu- og vísindaskáldskapargeirans, öðluðust meiri virðingu meðal bókmenntaspekinga. (Eða svo er mér sagt.) Margar skáldsagnanna hennar byggjast á æðislega heillandi hugmyndum: Í The Left Hand of Darkness (1969) hafa manneskjur ekki fastmótað kyn, heldur mótast kynhlutverk og -hneigð þeirra af aðstæðum hverju sinni og kemur aðeins fram einu sinni í mánuði. (Mér var gefið eintak af þessari bók nýlega en hef ekki enn lesið hana.) No Time to Spare er raunar fyrsta bókin sem ég les eftir Le Guin. Þetta er ritgerðarsafn, afar rólyndislegur tónn sem svífur yfir vötnum. Það sem einkum sækir á huga Ursulu eru kettir og ellin. Kettir eru snilldarfélagsskapur, einkum fyrir feimið fólk. Og ellin er helvíti. Allt verður svo erfitt. Efstu árin eru hálfgert flugslys. Undir það síðasta hafði Le Guin öðlast sess sem spakvitringur sem tilvalið þykir að vitna í á Internetinu. Þessi ræða hennar, þar sem hún veitir The National Book Awards viðtöku, hefur farið víða. Hið góða fólk hjá The Guardian er svo almennilegt að stafa ofan í okkur hvaða skáldsögur Le Guin við ættum alls ekki að láta framhjá okkur fara. Og hér er svo Paris Review-viðtal við hana.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s