Hlekkir, 20. apríl 2018

Atli Bollason, góðkunningi Leslistans, sendi okkur þessa flottu ábendingu:

Eins og margir varð ég sleginn yfir fréttum af fráfalli Hauks Hilmarssonar. Ég þekkti hann ekki neitt og hitti hann aldrei svo ég muni, en ég þekkti auðvitað ýmsar aðgerðirnar sem hann stóð fyrir. Mér virtist hann alltaf berjast fyrir málstað réttlætisins og lék því nokkur forvitni á að vita út á hvað síðasta aðgerð hans hefði gengið. Eftir því sem ég kemst næst, þá tilheyrði hann alþjóðlegri herdeild (ΕΣΔΑ, RUIS eða Revolutionary Union for Internationalist Solidarity) sem varði og barðist fyrir hönd sjálfstjórnarhéraðsins Rojava sem er í Norður-Sýrlandi, á landamærum Tyrklands. Þar hefur stórmerkileg samfélagstilraun staðið yfir um hríð sem gengur þvert á allar hugmyndir okkar um Mið-Austurlönd. Í sem skemmstu máli er verið að reyna að koma þar á veraldlegu lýðræðisríki þar sem konur hafa jafnmikil völd og karlar. Þessi tveggja ára grein úr NY Times gerir sögu Rojava góð skil og er mjög fróðleg lesning. (AB.)

Bókaskápur Ástu er skemmtilegt bókablogg. Hér skrifar gestapenni á síðunni, Hrafnhildur Þórhallsdóttir vinkona mín, skínandi vel um skrif og þýðingar og nagandi sjálfsefann sem fylgir slíkum störfum.

Michael Novogratz er meðal skrautlegri auðkýfinga Wall Street, einhvers konar heimsmeistari í því að græða á skjótan hátt stjarnfræðilegar upphæðir og glopra þeim svo frá sér aftur jafn snögglega og þær streymdu til hans. The New Yorker birti langa lýsingu á honum nýlega, ritaða af skáldsagnahöfundinum melankólíska Gary Shteyngart (sem er meðal annars höfundur Super Sad Love Story frá 2011). Novogratz lýsir sér sjálfur sem „Forrest Gump bitcoin-gjaldmiðilsins“ og virðist hafa mikinn húmor fyrir eigin lífsstarfi og uppátækjum. Þegar hann stundar ekki spáviðskipti, iðkar hann hugleiðslu á Indlandi og er óþreytandi í margvíslegu mannúðar- og góðgerðastarfi. Þetta er skemmtilegt viðtal. Hér má svo sjá manninn lýsa störfum sínum á myndbandsupptöku, í spjalli við Nick Paumgarten.

Ef þú hefur fylgst með bandarískum stjórnmálum upp á síðkastið, þá viltu sjálfsagt ekki láta þetta viðtal, sem George Stephanopoulos tók við James Comey, fram hjá þér fara. Hlekkurinn geymir útskrift af sjónvarpsviðtalinu. (SN.)

Mér fannst skemmtilegt að lesa þetta viðtal sem fjöllistamaðurinn Kanye Westtók við innanhúshönnuðinn fræga Axel Verboordt fyrir Hollywood Reporter á dögunum. Fréttapunktur viðtalsins var sá að West tilkynnti að hann væri að skrifa bók um heimspeki ljósmynda en viðtalið sjálft er fróðlegt og skemmtilegt fyrir þá sem hafa gaman af pælingum um fallega hluti. Fyrir þá sem hafa áhuga á Kanye West (hver hefur það ekki?) þá má benda á að hann hefur nýlega snúið aftur á Twitter – öllum til mikillar ánægju.

Talandi um Twitter: Venjulega er Twitter algjör tímaþjófur og hálf gagnslaust samansafn af fimmaurabröndurum. Þeir sem vilja hins vegar nýta miðilinn í að auðga andann ættu að elta sententiae antiquae, sem birtir reglulega viskukorn úr hinum klassíska heimi, bæði á frummálinu (grísku og latínu) og á ensku. Nýlega birtist þar þessi fína tilvitnun í Plútark og og var þar greint frá því að hún væri gagnleg hugleiðing til hliðsjónar þegar maður velur sér mynd til að horfa á Netflix. Ég get reyndar lofað því að hún ristir dýpra en svo, sem og allt sem Plútark skrifaði. (KF.)

Art Spiegelmann, höfundur Maus, auk fjölda annarra verka, er ef til vill einn dáðasti og margverðlaunaðasti myndasöguhöfundur samtímans. Hér er nýlegt viðtal við hann. (SN.)

Ég bjóst ekki við miklu þegar ég rambaði á þessa sögu um Bandarískan mann sem tókst einhvern veginn að starfa sem kennari í 17 ár án þess að hafa lært að lesa né skrifa. En í ljós kom að þetta er rosaleg frásögn sem skildi mig eftir gapandi við tölvuskjáinn.

Hér er grein sem tekst að sameina tvö helstu áhugamál mín, einræðisherra og bækur. Hún fjallar nánar tiltekið um bækur eftir einræðisherra og er í raun umfjöllun um bók sem fjallar um bækur eftir einræðisherra. Fólk virðist almennt sammála um að einræðisherrar séu alls ekki góðir rithöfundar, Mein Kampf er t.d. alræmt drasl að mati flestra, en það sem kemur á óvart í þessari umfjöllun er að sumir einræðisherrar eru undarlega liprir pennar. Höfundur bókarinnar um bækur einræðisherra bregður t.d. þegar hann les Mussolini (“Wait, was that … good?”) og neyðist til að játa það að Stalín væri ágætis stílisti. En hver er boðskapurinn af þessu öllu saman? Skiptir það einhverju máli hvort einræðisherrar eru góðir rithöfundar eða hvort þeir skrifa bækur yfir höfuð? Niðurlag greinarinnar gefur einhverja vísbendingu: “Bad people read good poetry and remain evil, while good people read bad novels and remain good, and we all, anyway, forget most of what we read.” (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s