Ráðunautur Leslistans: Guðmundur Björn Þorbjörnsson

1956-july-pointing

Guðmundur Björn stundar doktorsnám í Brussel, en hefur einnig gert garðinn frægan sem fjölmiðlamaður á RÚV. Nú síðast sendi hann frá sér útvarpsseríuna Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, þar sem hann kafaði á nýstárlegan hátt inn í heim íþróttamanna, við afar góðar undirtektir. Guðmundur er, rétt eins og aðstandendur Leslistans, mikill heimsborgari og var, þegar Leslistinn tók hann á teppið, staddur í lest á leið til Lundúna, syplandi rándýrt kaffi, blygðunarlaust flaggandi FitBit-armbandsúri. Í gluggakistunni hjá honum hvíldu ReyBan-sólgleraugu. Þá nefndi Guðmundur að meðferðis væri ein bók, og það harðspjalda.

Hvaða bók er það, Guðmundur?

Það er bókin Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman, sem kom út árið 2005 og er síðasta bókin fyrir þríleikinn fræga. Ég hef farið í marga hringi með Jón Kalman, sem er Jerry Bruckheimer íslenskra bókmennta. Hann fer oft yfir strikið þegar hann fabúlerar um sársauka mannsins og tár himinsins og harm fjallanna og allt þetta. En stundum vill maður bara heyra það eins og stundum vill maður bara horfa á Armageddon. Ég er enn að lesa hana enda les ég frekar hægt þar sem ég er nútímamaður sem teflir hraðskákir í símanum við Kúrda, endurræsi í sífellu fréttasíður um Liverpool-liðið og les hvað Gísli Marteinn vill segja mér um veruleikann og samfélagið.

Hvað annað ertu að lesa í bókarformi þessa dagana?

Mest af því sem ég les þessi dægrin er eftir Kierkegaard. Ég nenni ekki að fara nánar út í það. Í augnablikinu er ég annars ekki að lesa nein sérstök skáldverk; en ég blaða vissulega stefnulaust í nokkrum bókum, hraðskáka á milli. Ég tók þó með mér nokkrar ljóðabækur eftir Þorstein frá Hamri út síðast þegar ég var á Íslandi (lesist: ég er heimsborgari). Hann var greinilega mjög dýrt skáld og ég held að margir ungir íslenskir höfundar (þrotakallar) geti lært af honum. Orð eiga að vera dýr þegar þau eru komin á prent. Þau mega vera ódýrari á internetinu.

Ég má þó til með mæla með bók sem ég lauk nýlega við sem heitir The Lonely City: Adventures in the Art of Being Alone eftir Oliviu Laing. Þetta er svona new non-fiction bók þar sem Laing segir frá upplifun sinni af þeirri sáru einsemd sem hún upplifði eftir að hún hafði flutt til New York til að búa með kærastanum sínum, sem hætti svo snögglega með henni. Hún varð eftir í borginni og í bókinni greinir hún einmanaleika sinn í gegnum hina ýmsu listamenn, líf þeirra og sköpun. Á einhvern hátt er þessi bók óður til einmanaleikans, án þess þó að reyna að fegra hann.

Hvaða netsíður, vefmiðla, tímarit?

Ég er áskrifandi að einu tímariti, áströlsku heimspekitímariti sem ber heitið New Philosopher. Það er mjög, mjög gott og er jafnt fyrir leikmenn sem lærða. Fær mín allra bestu meðmæli.

Annars get ég eiginlega ekki mælt með neinu á Internetinu, nema kannski textalýsingu Guardian á enskum fótboltaleikjum.

Hvaða hlaðvörp/útvarpsþætti hlustarðu mest á?

Áður en ég svara þessari spurningu ætla ég að lýsa yfir frati á podcast-appið frá Apple. Verandi mikill hlaðvarpsunnandi finnst mér hreint óskiljanlegt hversu lélegt þetta app er. Auk þess, búandi í heimi algóryðma og sítengingar, þá hefur þetta app ekki enn bent mér á hluti sem ég hef áhuga á.

Ég hef því aldrei almennilega fundið mitt uppáhaldshlaðvarp. Ef ég ætti að nefna eitt þá er það líklega Entitled Opinions, þar sem Robert Harrison prófessor við Stanford háskóla spjallar um bókmenntir og önnur andans mál við gesti. Ég hef hlustað á það í mörg ár en það verður að segjast að hann er líklega við það að gefast upp á þessu. Gömlu þættirnir ríghalda sér þó. Spjöllin krefjast oftar en ekki grunnþekkingar á viðfangsefninu að hálfu hlustandans, en ekki endilega. Oft er gott að hlusta á menn tala á útlensku um flókna hluti.

Svo mæli ég hiklaust með menningarefninu frá BBC, eins og Moral MazeIn Our Time og The Documentary. Að ógleymdum hinum daglegu Thought for the Day, þar sem, prestar, ímamar og aðrir áhugamenn um trúmál pæla í eilífðarmálunum út frá líðandi stund.

Þá finnst mér On Being hlaðvarpið með Kristu Tippett oft gott. Þar ræðir hún við hina og þessa gildandi Kana um andleg málefni. Hún hefur mjúka rödd og mildan hlátur.

Svo hlusta ég mikið á allskonar amerísk sjálfshjálparhlaðvörp. Von er aldrei jafn tær eins og í rödd edrú Bandaríkjamanns sem hefur unnið bug á kvillum sínum.

Hver er uppáhaldsbókin/-bækurnar þínar?

Ég veit það ekki. Þetta er skrýtin spurning. En mér finnst bókin Iðrandi syndari eftir Isaac Bashevis Singer mjög góð. Pabbi gaf mér hana þegar ég var í menntaskóla.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Mér líður best þegar ég sit í stól, eins og flestu fólki yfirleitt. Ef ég er uppi í rúmi verð ég að lesa á Kindle, þar sem ég get legið á annarri hvorri hliðinni. Mér finnst líkamlega erfitt að lesa.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren, saga um baráttu góðs og ills sveipuð skandinavískri melankólíu. Annars man ég lítið eftir barnæsku minni.

Hver er ofmetnasta bók sem þú hefur lesið? Hver er vanmetnasta bók sem þú hefur lesið?

Mér fannst bókin Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson fá furðu mikið lof á sínum tíma. Ég var ekki hrifinn af henni. Ég held þó að hann sé frábær höfundur og mikið gáfumenni. Það segja mér fróðari menn, t.d. er amma mín Rósa mikill aðdáandi og hún er að mínu vita vitrasta kona á jörðinni. Hún sagði mér að lesa nýjustu bókina hans og ég ætla að gegna henni.

Vanmetnasta bókin í dag er líklega um leið ofmetnasta bók sögunnar, Biblían. Ekkert bókmenntaverk inniheldur jafn mikið af tímalausum vísidómi um eðli mannsins, ósanngirni tilverunnar og væntingastjórnun. Á því kveikir m.a. Jordan Peterson, sem að einhverju leyti er vanmetinn sömuleiðis af því hann er svona kallakall. Ég las bókina hans, 12 things eitthvað og fannst hún svosem ekkert sérstök, en sem brotinn karlmaður tengi ég við mjög margt sem hann segir. Peterson er dæmi um mann sem fattar tungumál Biblíunnar, maður sem getur talað um Guð án þess að trúa á Guð. Það er styrkleiki.

[Góðlátleg athugasemd frá alvitrum ritstjórum Leslistans: Bókin eftir Peterson, sem Guðmundur vísar hér til, nefnist 12 Rules for Life: An Antidote to Chaos, og var einmitt til umfjöllunar í fyrri Leslista.]

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Það eru líklega bækurnar Öreindirnar og Áform eftir Michel Houllebecq í frábærri þýðingu Friðriks Rafnssonar. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Þær er yfirleitt hægt að kaupa glæpsamlega ódýrt á bókamörkuðum, en fyrst og fremst þó vegna þess að Houlllebecq er einn af mínum uppáhaldshöfundum og mér er það ljúft og skylt að breiða út hans ófögnuð. Hann fangar einhver afkima mennskunnar sem við könnumst öll við, karlar og konur, en viljum ekki ræða og þess þá heldur velta vöngum yfir. Að mörgu leyti vantar Ísland einn Houllebecq. Ef einhver kemst nálægt honum er það Megas eða mögulega Kári Stefánsson. En hið sorglega er að á Íslandi fengi Houllebecq líklega ekki listamannalaun.

Hvaða bók viltu lesa næst? En þarnæst?

Ég væri til í að lesa Mein Kampf eftir Hitler en ég er hræddur um að ég myndi gefast upp og ekki læra neitt sérstakt af henni. Mig langar líka að lesa bókina Getting High: A Savage Journey to the Heart of the Dream of Flight eftir Kester Brewin. Tel líklegra að ég lesi Brewin frekar en Hitler.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í menntaskóla? En í leikskóla?

Íslandsklukkan eftir Laxness. Líklega er hún skyldulesning í menntaskóla nú þegar. Hún færir þér djúpstæða ást á tungumálinu, skilning á því hvað það er ömurlegt að vera Íslendingur en leið fyndið og skemmtilegt og kennir þér að vera illa við Dani þótt þeir eigi það ekki beint skilið. Fyrst og fremst sýnir hún um hvað bókmenntir snúast og ríkidæmi þeirra; að geta hlegið og grátið með nokkurra blaðsíðna millibili og að með þér kvikni einhver neisti. Annars skilst mér þó að menntaskólanemar í dag kunni ekki lesa.

Hvaða rithöfund myndir þú vilja fá til að skrifa ævisögu þína? Viltu yfirhöfuð að ævisaga þín verði fest á blað?

Það yrði Halldór Armand frændi minn. Við erum jafnaldrar en ég býst við að ég deyi nokkrum árum á undan Halldóri þar sem ég hef reykt fleiri sígarettur en hann og ég drekk verr. Hann myndi ekki draga neitt undan og því yrði sagan lík ævisögu Orra Páls Ormarssonar um Hemma Gunn, sem kom út að honum liðnum. Kaflaheiti í sögunni gætu, ef allt fer á versta veg, verið „Árin á Pattaya”, „Réttarhöldin” og „Fórnarlamb kerfisins.” Að sjálfsögðu vil ég ekki að þessi bók komi út.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s