Bækur, 4. maí 2018

Það kom flatt upp á mig, satt að segja, þegar Kazuo Ishiguro fékk Nóbelsverðlaunin nú síðast. Árið á undan hafði aldurhnigið, vestrænt, enskumælandi söngvaskáld verið verðlaunað, og nú hneppti enskumælandi, vestrænn skáldsagnahöfundur (að vísu fæddur í Japan) góssið. Hvaða vestræna, enskumælandi séní ætli fái verðlaunin næst? Mig rámar í að hafa lesið, í námi í London, eina af þekktari bókum Ishiguro, Never Let Me Go, sem gerð var eftir doðaleg bíómynd fyrir nokkrum árum. Bókin var svo sem allt í lagi, hugmyndin áhugaverð, útfærslan nokkuð reyfarakennd, full af ódýrum trikkum og fyrirboðum („Ég vissi ekki enn að tveimur árum síðar myndum við …“ og svo framvegis). Aldrei hefði hvarflað að mér að þar héldi Nóbelsverðlaunahöfundur á penna. Nokkrum árum síðar las ég smásagnasafn eftir Ishiguro, Nocturnes: Five Stories of Music and Nightfall. Sú bók var þolanleg, einkum þótti mér fyrsta sagan, sem gerist í Feneyjum, eftirminnileg. Þó er eitthvað kaldhamrað og dautt við skrif Ishiguro, enda hefur hann lýst því yfir, í viðtali við The Paris Review ef ég man rétt, að hann hefði miklu heldur viljað starfa sem tónlistarmaður en rithöfundur, en því miður hefði tilfinnanlegur skortur á hæfileikum hamlað honum á því sviði. Besta skáldsaga, sem ég hef lesið eftir hann, er The Unconsoled, nokkuð heillandi Kafka-stæling sem tekur með sterkum hætti á alþjóðavæðingu – en er þó í rauninni bara dauft bergmál af skáldsögum áðurnefnds vinr okkar, hans Kafka. Ég hef ekki enn lesið þekktustu skáldsögu Ishiguros, The Remains of the Day, og vil því ekki dæma verk hans of hart, en ég reyndi, á ferðalagi um England fyrir ekki svo ýkja löngu, að lesa nýjustu skáldsöguna sem hann setur nafn sitt við, The Buried Giant. Það var sama deyfðarlega flatneskjan, eftir hundrað blaðsíður einhvern veginn bara lognaðist áhugi minn algjörlega út af og ég held ég hafi týnt bókinni á lestarstöð. Sem var leitt, því mig langar greinilega eitthvað svo mikið að fíla verk þessa manns. En það gerist bara ekki: Í vikunni las ég (af hverju gefst ég ekki bara upp á honum?) fyrstu útgefnu skáldsögu hans, A Pale View of Hills. Las, sagði ég – rembdist í gegnum væri nær lagi. Þetta var alveg merkilega slöpp bók. Að mestu flatur díalógur, plús einstaka snautlegar lýsingar. Næstum hver einasta lína er klisjukennd, kunnugleg. Af hverju les maður svona leiðinlegar bækur? Á kafla leið mér eins og höfundurinn hefði skrifað þessa bók undir áhrifum svefnlyfja – í hið minnsta fannst mér hvergi bóla á skáldskapargáfu – og nú ætla ég bara að vera alveg hreinskilinn: Ég laut í lægra haldi fyrir leiðindunum og bugaðist upp úr miðri bók, fletti bara á hundavaði gegnum restina. Jamm, rosa stuð í lífsins ólgusjó. Er ég svona lélegur lesandi? Er kannski allt morandi í snilld þarna og ég einfaldlega með dempuð móttökuskilyrði? Hvað um það, nú hefur Ishiguro sem sagt fengið Nóbelsverðlaunin. (Mér skilst að hann sé góður „network-ari“.) Þá vil ég nú heldur einn stærsta áhrifavald hans – sem enn er hunsaður af Nóbelsnefndinni – sjálfan Haruki Murakami. Ja, eða þá bara Guðrúnu frá Lundi. (SN.)

Ég fékk að láni frá móður minni bókina Mið-Austurlönd – fortíð, nútíð og framtíð sem kom út nýlega. Bókina skrifar Magnús Þorkell Bernharðsson sem er prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachusets og er eitthvert gagnlegasta yfirlitsrit yfir flókna, áhugaverða og merkilega sögu þessa heimshluta sem ég hef komist yfir. Það spillir ekki fyrir að bókin er að mörgu leyti skrifuð fyrir Íslendinga, bæði með vísan í íslenskan veruleika og ævi höfundarins. Þetta er mjög holl lesning fyrir hvern þann sem hefur áhuga á heimsmálum – eða hvern þann sem klórar sér í hausnum í hvert sinn sem hann heyrir fréttir af þessu stormasama svæði. Mér fannst líka sérstaklega skemmtilegt að fá svör við „heimskulegum“ spurningum um Mið-Austurlönd, eins og „hvað er arabi?“, „hver er munurinn á súnnítum og sjíum?“, „hvað eru íslamistar?“ og „eru konur í Mið-austurlöndum kúgaðar?“. Ég fagna því líka sérstaklega að til sé svona bók á íslensku. Það er til fjöldinn allur af fræðibókum um þessi mál á ensku, en enginn þeirra getur sett þau í samhengi við íslenskan veruleika. Með því að lesa fræðibækur á íslensku nær maður að nálgast viðfangsefnið með mun dýpri hætti en ella – jafnvel þótt að mun betri bækur um málefnið séu til staðar á ensku. Vonandi gefst okkur færi á að lesa fleiri svona bækur í framtíðinni. (KF.)

Ég tek eftir því að minningar mínar af bókum tengjast því oft hvar ég var staddur þegar ég las þær: The Idiot eftir Elif Batuman er gott dæmi. Ég las hana í The Catskills, héraði í New York-fylki, og fer strax að hugsa um þytinn í hlyntrjánum, pönnukökur, varðeld undir stjörnubjörtum himni, ullarteppið sem kviknaði í og brunasárið á andlitinu á m… Nei, nei, bara grín. En ég las The Idiot sem sagt á nefndu ferðalagi og var mjög hrifinn af henni, einkum af fyrri hlutanum. Þetta er nokkuð brokkgeng bók, á köflum frábær, stundum allt að því flöt og óáhugaverð; þ.e. akkúrat eins og skáldsögur – allavega sumar skáldsögur – eiga að vera. Styrkur hennar liggur helst í lýsingunum og húmornum; þetta er þannig bók að maður hlær oft upphátt. Ég nenni ekki að lýsa efnisinnihaldi hennar en þemað er að stórum þræði hvernig við höslum okkur völl í ólíkum tungumálum, ólíkum menningarsvæðum, og vandræðagangurinn sem af því getur hlotist. (Sjálfsagt nokkuð sem mér er hugleikið, þar sem ég tala ensku og frönsku dagsdaglega og nota íslensku stundum svo að vikum skiptir einungis í rituðu máli og símtölum við vini, fjölskyldu og ómálga smábarn). Þetta er þroskasaga; samt veit ég ekki hvort nokkur persónanna þroskist eitthvað sérstaklega. Kannski er þetta andþroskasaga? Fyrri bók BatumanThe Possessed: Adventures with Russian Books and the People who Read Them er líka (eins og titillinn bendir til) skemmtileg – einkum hlutinn sem fjallar um Isaac Babel-ráðstefnu – en ég mæli þó frekar með The Idiot sem inngangspunkti. (SN.)

Ég tók upp á því um daginn að hlaða niður Biblíuappinu á íslensku og eyddi samhliða öllum samfélagsmiðlum úr símanum mínum. Tilraunin gekk út á að draga úr símahangsi – í hvert skipti sem mig langaði til að hanga í símanum til að kíkja t.d. á Twitter þá þurfti ég að lesa eina klausu úr Biblíunni í staðinn. Ég semsagt hélt að hún væri svo leiðinleg að ég myndi alfarið leggja símann á hilluna og eyða frekar tíma í að vinna vinnuna mína eða sinna börnunum mínum. Raunin varð hins vegar allt önnur og mánuði síðar endaði ég á því að lesa allar fimm Mósebækurnar! Þetta var enginn skemmtilestur en mér fannst þetta engu að síður góð lesning. Lesturinn minnir mig á þegar ég sá Sódómu Reykjavík í fyrsta skipti, þá 24 ára gamall, og fattaði allt í einu allar þær óendanlegu tilvísanir í íslensku dægurmál sem úr þeirri mynd spretta. Biblían er líklega sú bók sem hefur átt stærstan þátt í að móta menningarheim okkar og hugmyndir (hvort sem okkur líkar það betur eða verr) og þess vegna í hið minnsta forvitnilegt að skilja til fulls þessar tilvísanir sem móta okkar daglega líf enn þann dag í dag. Ég er allavega hvergi nærri hættur að lesa hana. (KF.)

Talandi um fyndið fólk: Roz Chast er einn fyndasti myndasöguhöfundur sem ég veit um. Hún er í algjöru uppáhaldi hjá mér, á öruggt sæti í úrvaldsdeildinni. Ólíkt Elif Batuman (sem ég hef hitt) veit ég samt ekki hvort ég myndi vilja/þora að hitta hana; ég óttast að henni myndi einhvern veginn takast að drepa mig úr hlátri og það yrði háðulegur dauðdagi. Í vikunni las ég Proof of Life on Earth, úrval af sögum sem að langmestu leyti eru teknar úr The New Yorker. Þetta safn kom út á löngu liðnu tímaskeiði mannkynssögunnar, aftur í fornöld árið 1991, og ég rambaði á fyrir tilviljun á eintakið mitt í bókabúðinni í hverfinu mínu, sem einnig er kaffihús og minnir stundum á sit-com þátt með öllum sínum fastakúnnum. Frábært dót, bæði bókin og kaffihúsið. Besti inngangsreiturinn að verkum Roz Chast væri þó kannski Can’t We Talk About Something More Pleasantgrátbrosleg minningasaga um foreldra hennar, sem voru vægast sagt kynlegir kvistir. Sú skaut Roz Chast upp á stjörnuhimininn í hjarta mér og ég get ekki mælt nógsamlega með henni. Chast birtir vikulega stuttar sögur í The New Yorker. Teiknistíllinn hennar er mjög einkennandi og spes: í senn taugatrekkjandi og notalegur. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s