Bækur, 11. maí 2018

Í vikunni rambaði ég fyrir algjöra tilviljun á bók sem nefnist The Way of Jesusog er eftir Jay Parini. Ég seildist eftir gripnum (ég var staddur á bókasafninu) af tveimur ástæðum. Í fyrra lagi hafði ég áður lesið tvær fínar bækur eftir höfundinn; annars vegar ævisögu um John Steinbeck; hins vegar The Last Station, skáldsögu um síðustu daga Tolstojs, sem til er í fínni þýðingu Gyrðis Elíassonar (sem Endastöðin). Ekki hafði ég hugmynd um að Parini væri trúaður maður. Í sem stystu máli, þá fannst mér bókin frábær. Stíll Parinis er skýr, einlægur, þægilegur aflestrar. Hann leitar víða fanga og styðst við ýmsar bókmenntir (einkum er honum T.S. Eliot hugleikin). Titill bókarinnar er lýsandi; hvernig getum við hagað lífi okkur á sama hátt og Jesús? Ég er ekki trúaður, því miður – en mig langar oft til þess, einkum þegar ég þreytist á mannhverfunni sem er orðin svo óumflýjanleg, alltumlykjandi tækninni og tilheyrandi yfirborðsmennsku og materíalisma. Stundum horfir maður í kringum sig og hugsar; hlýtur ekki að vera til eitthvað stærra, æðra, dýpra, merkilegra, en þetta? Auk þess er hollt að lesa reglulega út fyrir eigin þægindaramma.

Hin bókin sem ég las í vikunni nefnist Letters to a Young Farmer. Þetta er safn stuttra esseyja eftir fjölda fólks: bændur, aktívista, kokka, rithöfunda, fleiri. Meðal höfunda er Bill McKibben (nafn hans hefur áður borið á góma hér á þessum miðli), Wendell Berry (sem er ljóðskáld og ritgerðasmiður sem ég held upp á) og Barbara Kingsolver. Ég hef svo sem ekkert í hyggju að gerast bóndi – ekki enn allavega – en þetta er virkilega fróðleg lesning fyrir hvern þann sem hefur áhuga á akuryrkju, matvælum og framtíð matarræktunar á jörðinni. Bréfin til bóndans unga hefjast með tilvitnun í Bréf til skáldsins unga eftir þýska skáldið Rainer Maria Rilke og tekur bygging bókarinnar að nokkru mið af því verki. Það er sjálfsagt viðeigandi, enda virðist starf bóndans og skáldsins eiga það sammerkt að vera eins konar lífsköllun, og sjálfsagt ekki auðveldasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér.

Loks hef ég verið að lesa aftur og aftur fyrir dóttur mína frábæra barnabók sem nefnist Sparky! og er eftir Jenny Offil. Myndskreytingarnar (sem eru yndislegar) gerir Chris Appelhans. Satt best að segja les ég Sparky! eiginlega meira fyrir mig en Ölmu litlu, sem er bara eins árs og kannski fullung fyrir annað eins meistaraverk. Fyrir nokkrum árum las ég aðra bók eftir sama höfund, Dept. of Speculation, og mæli einnig með henni. Söguhetjan þar er frústrerað skáld, móðir sem hefur stóra drauma en nær ekkert að skrifa fyrir amstri eftir að hún eignaðist barnið. Viðfangsefnið rímar vel við frásagnaraðferðina; það er eins og höfundur hripi niður hugmyndir sínar í flýti, en stutt kaflabrotin líkjast oft minnispunktum. Hér er ein eftirminnileg klausa: „My plan was to never get married. I was going to be an art monster instead. Women almost never become art monsters because art monsters only concern themselves with art, never mundane things. Nabokov didn’t even fold his umbrella. Véra licked his stamps for him.“ (SN.)

Ég þaut í gegnum eina bók í vikunni sem ég bjóst ekki við að yrði neitt sérstök en endaði síðan á því að vera æðisleg aflestrar. Ég heyrði fyrst minnst á hana í bók eftir heimspekinginn og twitter-dónann Nassim Taleb þar sem hann sagði hana vera einu fjármálabókina sem eitthvert vit væri í. Bókin heitir What I Learned Losing a Million Dollars og segir sögu verðbréfamiðlarans Jim Pauls, hvernig hann reis til metorða og hvernig honum tókst að tapa rúmri milljón bandaríkjadala á skömmum tíma. Þetta er ekki saga af einhvers konar Wall Street-sukki (eins og t.d. í kvikmyndinni Wolf of Wall Street) heldur er þetta eins konar leiðarvísir um hvernig maður á að takast á við ósigra í lífinu og tapa með reisn. Bókin er skrifuð með fjárfesta í huga og það gæti fælt burt þá sem hafa ofnæmi fyrir öllu peningarausi – en mér fannst hún þegar öllu var á botninn hvolft heimspekileg. Allir þurfa að fjárfesta í einhverju á lífsleiðinni, allir þurfa að taka áhættu og allir þurfa að takast á við ósigra. Ég myndi segja að hún væri skyldulestur fyrir fólk sem starfar í fjármálageiranum en líka vel lestursins virði fyrir þá sem starfa utan hans. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s