Hlekkir, 11. maí 2018

Hér skrifar hinn lipri David Graeber um „búllsjittdjobbin“ sem svo stór hluti mannkyns sinnir víst núorðið. Bolaskítsdjobb er starf sem í raun er engin þörf á að sinna. Starfsmaðurinn sjálfur hefur jafnvel á tilfinningunni að engu skipti fyrir heiminn hvort hann sinni skyldum sínum eða ekki; gott dæmi væri safnvörðurinn sem fékk það verðuga verkefni að gæta tóms herbergis. Það er varla góð tilfinning. David Graeber er sjálfsagt þekktastur fyrir doðrantinn Debt; the first 5000 years (sem ég hef ekki lesið nema í brotum) en hann sendi einnig fyrir nokkrum árum frá sér hina bráðfínu The Utopia of Rules, miklu aðgengilegri og styttri bók sem kafar í hina einkennilegu fýsn mannkyns til að hneppa hvert svið jarðneskrar tilveru í flókið og þykkt regluvirki. Hvers vegna þurfum við stöðugt að fylla út eyðublöð og reyna að muna lykilorð á netinu? Nú er svo væntanleg spáný bók eftir Graber, Bullshit Jobs; a theory, sem ég hlakka til að lesa. (SN.)

Fyrst lýðræðið getur gefið af sér leiðtoga eins og Trump, af hverju skiptum við því ekki út fyrir eitthvað skilvirkara fyrirkomulag? Af hverju rekum við ekki þjóðríki eins og fyrirtæki þar sem sérfræðingar eru við stjórnvölinn í staðinn fyrir vitlausa stjórnmálamenn? Fólk virðist í vaxandi mæli vera farið að spyrja þessara spurninga en í þessari flottu grein á Guardian kafar stjórnmálaskýrandinn glöggi David Runciman í mikilvægi lýðræðis og af hverju óskilvirkni þess er ekki galli heldur nauðsynlegt einkenni. (KF.)

Í þessum greinarstúfi brjóta slyngir algóritmar til mergjar hina óþolandi “rödd skáldsins”. Viðfangsefnið hefur oft sótt á huga minn og valdið mér kvíða, óþægindum og – ekki síst – nístandi samviskubiti yfir hversu leiðinlegt mér hefur stundum fundist á bókmenntaupplestrum.

Hér er svo bráðfyndin grein um skyndibitastaðaráðgjöf, mjög vel skrifuð og skýrlega fram sett. Absúrd heimur! (SN.)

Einu sinni fleygði vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn öskubakka í Errol Morris sem var þá heimspekinemi en er í dag þekktur kvikmyndagerðarmaður. Kuhn þessi er frægastur fyrir bók sína Vísindabyltingar (e. The Structure of Scientific Revolutions) sem hefur verið þýdd á íslensku. Morris er þekktastur fyrir heimildarmyndir sínar en hann fékk Óskarsverðlaunin fyrir heimildarmynd sem hann gerði um Robert McNamara, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann er líka mjög skemmtilegur rithöfundur en hann hefur m.a. skrifað frábæra bók um heimspeki ljósmynda. Nýlega skrifaði hann æðislega grein þar sem hann hakkar heimspeki Kuhn í sig. Greinin er úr nýrri bók eftir Morris sem fjallar um heimspeki Thomas Kuhn og hefur að geyma stutt viðtal við fræga gáfumennið Noam Chomsky. Hvort skoðanir Morris séu of litaðar af öskubakkaævintýrinu veit ég ekki, en þær eru í hið minnsta vel orðaðar og rökstuddar. Hér er ein klausa: “The Structure of Scientific Revolutions itself feasts on the offal of innuendo and vagueness. It is, at best, an inchoate, unholy mixture of the work of others—Ludwig Wittgenstein, Charles Darwin, Rudolf Carnap, Norwood Russell Hanson, Alexandre Koyré, Jerome Bruner, and more. At worst, it is an assault on truth and progress.

Þetta er skemmtileg yfirlitsgrein þar sem fjallað er um hin svokölluðu „skuggagáfumenni internetsins“ (hræðileg þýðing mín á “Intellectual Dark Web”). Meðlimir þessa hóps eiga það sammerkt að vera sérstaklega áhugasamir um opin og hreinskilin skoðanaskipti. Greinarhöfundi finnst þeir ganga of langt en mér finnst persónulega gaman að hlusta á marga þeirra. Meðal þeirra er t.d. kanadíski sálfræðingurinn Jordan Peterson sem fólk ýmist hatar eða elskar og er væntanlegur til landsins í næsta mánuði.

Eins og flestir áskrifendur Leslistans hafa heyrt þá hefur útnefningu Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum verið frestað vegna hneykslismáls. Hneysklið er í sjálfu sér ekkert áhugavert en frestunin fær mann til að hugsa hvort þessi þekktu verðlaun hafi einhverju hlutverki að gegna yfirhöfuð. Þessi ágæti pistill hjá New York Times fer aðeins í saumana á þessum verðlaunum og veltir pistlahöfundurinn fyrir sér hvort það sé eitthvert vit í þessum verðlaunum fyrir bókelskandi fólk. Hér er svo önnur grein sem fjallar um það sama í tímaritinu Atlantic. (KF.)

Þessa beinskeyttu grein um loftslagsbreytingar las ég fyrir rúmu ári og eftir einhverjum krókaleiðum skolaði hana aftur á fjörur mínar nú í vikunni sem leið. Ekki beint auðveld lesning. Titillinn er frískandi: „Hin óbyggilega jörð“. Og ekki er undirtitillinn síðri: „Hungursneyð, efnahagshrun, sól sem grillar okkur: Það sem hlotist gæti af loftslagsbreytingum – og það fyrr en þig grunar.“ (SN.)

Hér greinir fulltrúi New Yorker það sem virðist vera tónlistarmyndband ársins eftir rapptónlistarmanninn Childish Gambino. Ef þú hefur ekki séð myndbandið þá býrð þú augljóslega í helli en það er gott að vita til þess að þú lest Leslistann þrátt fyrir það. Hér er myndbandið góða, sem ég er enn að melta og mun eflaust gera það út árið.

Almennt er ég lítið spenntur fyrir skyldulestri í skóla og er efins um hvort hægt sé að „kenna“ lestur bókmennta almennt. Þess vegna fannst mér skemmtilegt að lesa þessa stuttu frétt um breska rithöfundinn Ian McEwan. Í henni kemur fram að sonur hans fékk það skemmtilega verkefni að skrifa ritgerð um bók eftir hann, sem hann hjálpaði honum með, en svo endaði verkefnið bara með C+ í einkunn. Í öðrum ótengdum fréttum sé ég að það er búið að kvikmynda ágæta bók eftir McEwan – On Chesil Beach. Ég man eftir að hafa hugsað þegar ég las hana að þetta væri einhver ókvikmyndavænasta bók sem ég gæti ímyndað mér. Ég á reyndar eftir að lesa bókina hans þar sem aðalsögupersónan er fóstur. Ég get ímyndað mér að hún passi jafnvel verr á kvikmyndatjald. (KF.)

Ef þú átt leið um New York á næstunni, þá rennur mér blóðið til skyldunnar og langar að benda þér stuttlega á tvær frábærar myndlistarsýningar. Önnur er Like Life: Sculpture, Color, and the Body (1300–Now) í Met Brauer-safninu. Hin sýningin, í Guggenheim-safninu, er ekki síðri, og nefnist Take My Breath Away. Það er yfirlit um feril Danh Vo, dansks listamanns af víetnömskum ættum. Ég bendi áhugasömum á að Calvin Tompkins, einn listgagnrýnenda The New Yorker, skrifaði ágætlega um verk hans, í tilefni af Guggenheim-sýningunni og birti í janúar síðastliðnum.

„Er það ekki hugurburður einn að hún sé ástfangin af mér?“ Ofvitinn, sú yndislega bók eftir Þórberg Þórðarson, er kvöldsagan á RÚV um þessar mundir. Lesari er Þorsteinn Hannesson les, hljóðritun frá 1973. Bókin kom fyrst út í tveimur bindum á árunum 1940-1941. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s