Ráðunautur Leslistans: Kristján Guðjónsson

SLUG: FO/SAPEUR DATE: Downloaded E-mail 2/26/2010 CREDIT: Miguel

Kristján er heimspekingur að mennt. Hann hefur getið sér gott orð sem menningarblaðamaður, þykir kafa af meira innsæi en almennt tíðkast í viðfangsefni sín og rita næm viðtöl og greinar þar sem í gegn skína bæði áhugi og víðsýni, og breytir þá engu hvort viðfangsefnið er bókmenntir, tónlist, framandi menningarkimar, fræðaheimurinn, heimspeki, dægurmál, tískubylgjur, tæknin. Kristján lét nýlega af störfum hjá DV og gekk til liðs við menningarþáttinn Lestin á Rás 1. Síðastliðinn vetur hefur hann verið búsettur í Belgíu.

Hvaða bók eða bækur ertu að lesa þessa dagana, Kristján?

Ég myndi eiginlega frekar vilja nefna bókina sem ég var að klára. Má það? Ég var semsagt að ljúka við Congo: Een geschiedenis eftir belgíska rithöfundinn David van Reybrouck. Það er eins og enska þýðandanum hafi þótt hollenski titillin eitthvað of lágstemmdur og því nefnir hann ensku útgáfuna Congo: The Epic History of a People. Og þetta er vissulega epísk saga og tók mig nokkra mánuði að komast í gegnum hana meðfram öðru.

Það sem gerir bókina svo magnaða er að hún er ekki hefðbundin sagnfræði. Reybrouck er meðvitaður um vandkvæði þess að hann, hvítur Belgi, skrifi bók um gömlu nýlenduna byggða á sömu gömlu heimildunum. Hann vill að raddir Kongóbúa heyrist og þeir fái að segja sína nútímasögu. Vandamálið er hins vegar að það eru bara örfáar skrifaðar heimildir eftir Kongóbúa um nýlendutímann (og hvað þá um árin áður).

Hann vinnur því bókina meira eins og blaðamaður, ferðast um landið og leitar uppi sjónarvotta og fólk sem getur varpað ljósi á sögu landsins. Fyrst er þetta gamalt fólk sem getur sagt persónulega sögu forfeðra, foreldra sinna og sína eigin — minningar og frásagnir sem varpa allt öðru ljósi á það sem stendur í belgískum sögubókum. Smám saman færumst við nær nútímanum og sjónarvottarnir verða fleiri. Það sem er kannski áhugaverðast er að Reybrouck nálgast reynsluþekkingu og upplifanir þessa fólks ekki sem ómerkilegri en hinar stóru sögulegu staðreyndir — og jafnvel þegar þetta stangast augljóslega á sýnir hann upplifunum fólks virðingu og leitar að táknrænum sannleika í sögum og minningum þess.

Ég gæti talað endalaust um þessa sögu sem er auðvitað stórkostlega tragísk. Þegar maður les þetta er svo augljóst hvernig samtímavandamál Kongó eru bara eðlileg afleiðing og eftirköst þess að Evrópumenn sáu Afríkubúa sem vanþróaða og nánast réttdræpa og heimsálfuna sem svæði sem þeir gætu blóðmjólkað af auðlindum að vild. Á örfáum áratugum var svæði á stærð við Vestur-Evrópu sem hýsti ótal ólíka etníska hópa og ættflokka með mismunandi tungumál, trúarbrögð, samfélagsgerðir, menningu, hefðir og venjur troðið inn í hugmyndir Belga um hvernig nútímalegt kristið kapítalískt þjóðríki ætti að vera. Það þurfti semsagt að kristna íbúa þessa ristastóra svæðis, peninga- og markaðsvæða samskipti þeirra og telja þeim trú um að þeir væru allir af sömu þjóð. Og af ótal samverkandi ástæðum tókst aldrei að láta þetta ríki virka — það var dæmt til að mistakast.

Ég get allavega eindregið mælt með þessari bók. Hún er, eins og við er að búast, blóðug, hryllileg, ógurlega harmræn en á sama tíma mannleg og falleg og (ótrúlegt en satt) skemmtileg.

Ertu að lesa eitthvað annað í bókarformi þessa dagana?

Eitt af markmiðum ársins var að lesa fleiri bækur eftir konur og það byrjaði ágætlega með nýju Virginu Woolf þýðingunum tveimur. [Hér á Kristján annars vegar við Orlandó, í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, og hins vegar Mrs. Dalloway í þýðingu Atla Magnússonar -innsk. Leslistans]. En þegar ég rifja upp þær bækur sem eru á náttborðinu þessa dagana fatta ég að ég er aftur sokkinn í algjöran karlaliteratúr — sjitt! — um fótbolta, stríð og ævisögur karla.

Það sem ég er að glugga í núna til skiptis er heimspekileg vangavelta um eðli fótbolta, What We Talk About When We Talk About Football eftir Simon Critchley, War and Turpentine eftir flæmska rithöfundinn Stefan Hartmans þar sem hann fer í gegnum stríðdagbækur afa síns úr fyrri heimsstyrjöldinni og svo sú sem ég er komin lengst inn í eru æviminningar jamaísk-breska menningafræðingsins Stuart Hall, Familiar Stranger — A Life Between Two Islands.

Þar er hann að lýsa æsku sinni á efri-miðstéttarheimili á Jamaíka um miðja 20. öldina með það að markmiði að greina hvernig nýlendukerfið mótaði alla tilvist hans, lífsviðhorf og persónuleika. Allt líf hans hefur því verið tilraun til að vinna gegn og út frá mótun nýlendunnar. Ég var reyndar að fatta að ég gleymdi eintakinu mínu á bar í Belgíu fyrir helgi. Of margir munkabjórar það kvöldið, geri ég ráð fyrir.

Hvaða netsíður, vefmiðla, tímarit?

Ég eyði langmestum tíma í að skrolla niður Facebook-feedið mitt, opna í nýjum glugga áhugaverðar greinar af einhverjum af þeim hundruð vefmiðla sem ég er búinn að læka, lesa fyrstu línuna og hugsa: „þetta ætti ég að lesa“ en fara svo aftur á Facebook og skrolla áfram niður og finna eitthvað annað. Þannig enda ég oftast á því að lesa ekki neitt.

Til þess að vinna gegn þess gerðist ég í fyrra áskrifandi af tveimur tímaritum, breska menningartímaritið London Review of Books og bandaríska hipstera-sósíalistatímaritinu Jacobin. Það er frábært og ég hugsa að ég haldi því áfram, en það verður samt að viðurkennast að það kemur alveg fyrir að blöðin hrúgist ólesin upp.

Hvaða hlaðvörp/útvarpsþætti hlustarðu mest á?

Miðað við marga jafnaldra mína hlusta ég furðulítið á podköst, undanfarna mánuði hefur það yfirleitt bara verið fréttatími BBC Global News og Lestin á Rás 1. Svo hef ég verið að fikta við hljóðbækur, en ég held eiginlega ekki nógu góðri einbeitingu fyrir þér — nema þegar ég er að vaska upp.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra? Lestu stundum upphátt, fyrir sjálfan þig eða jafnvel aðra?

Það fer algjörlega eftir bókinni. Yfirleitt er ég að glugga í einhverjar fjórar fimm bækur í einu — klára auðvitað fæstar — og það fer algjörlega eftir skapinu hvað ég vil lesa og hvernig, sem getur verið þungt spaug ef maður er á ferðalagi og þarf að taka allar bækurnar með til öryggis. Fræði get ég varla lesið nema við skrifborð og nenni því þar af leiðandi allt of sjaldan, en annað vil ég helst lesa liggjandi í sófa eða góðum stól, áreiti er truflandi en róleg nærvera er þægileg. Nei, ég les eiginlega aldrei upphátt — nema þegar ég reyni að lesa ljóð (sem ég geri mjög sjaldan og kann illa).

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku? Verður maður einhvern tímann fullorðinn?

Bróðir minn Ljónshjarta og Benjamín Dúfa voru sérstaklega eftirminnilegar. Svo las ég Sjö ár í Tíbet seint á barnsaldri og hvarf algjörlega inn í endurminningar austurríska fjallagarpsins Heinrich Harrer sem flúði úr herbúðum Breta í Indlandi í Seinni heimsstyrjöldinni og komst við illan leik til Tíbets. Eftir lesturinn var ég algjörlega heillaður af tíbetskri menningu og æfur yfir hernámi Kínverja á landinu. Þarna varð líka til fræ að ferðaþrá sem ég hef aldrei losnað almennilega við síðan.

Það var svo helst í kringum tvítugt sem bókmenntaverk komu almennilegu róti á tilfinningalíf mitt — ég er ekki viss um að þessar bækur myndu snerta við mér á sama hátt í dag. En þær sem ég man helst eftir voru Heimsljós eftir Halldór Laxness og On the Road eftir Jack Keroauc. Á tímapunkti þegar framtíðin blasti við mér sem algjörlega óskrifað blað sögðu þær mér eitthvað mikilvægt um hvað ég vildi upplifa, hvernig ég vildi lifa lífinu — og hvernig ekki.

Kannski er það að verða fullorðinn að hætta að hrífast með og láta hluti hafa áhrif á sig — það eru þá mjög sorgleg örlög að verða fullorðinn.

Hver er ofmetnasta bók sem þú hefur lesið? Hver er vanmetnasta bók sem þú hefur lesið?

Ég er ekki viss um að ég geti svarað þessu. Lengi framan af held ég að ég hafi ekki alveg treyst mér til að meta gæði bóka út frá eigin upplifun. Ef ég tengdi ekki við mikils metna bók hlaut að vera eitthvað meira á bak við sem ég skyldi ekki. Ég held að það sé fyrst núna sem ég er farinn að treysta eigin dómgreind að einhverju marki.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Sú fyrsta sem mér dettur í hug er, Celine Dion’s Let’s Talk about Love: A Journey to the End of Taste eftir Carl Wilson, lítil bók úr seríunni 33&⅓ sem fjalla allar um tilteknar popp eða rokkplötur. Þessi tiltekna bók er einlæg vangavelta tónlistargagnrýnanda um af hverju fólk elskar Celine Dion og hann hatar hana svona heitt. Það er eitthvað við þessa bók og það ljós sem hún varpar á efnahags- og félagslegar ástæður fagurfræðilegs smekks sem gerir það að verkum að ég nefni hana ítrekað í samtölum við fólk.

Hvaða bók viltu lesa næst?

Svo margar… en samt verða þær óhjákvæmilega svo fáar. Að undanförnu hef ég svolítið verið að velta fyrir mér sögu, eðli og framtíð vinnunnar í mannlegu samfélagi. Þess vegna keypti ég um daginn bókina Work: The last 1000 Years eftir Andreu Komlosy, sem er nýkomin út í enskri þýðingu, og ætla að lesa hana þegar tími gefst. Svo eru fangelsisbækur ítalska heimspekingsins, marxistans og menningarspekúlantsins Antonio Gramsci alltaf á dagskránni.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í menntaskóla? En í leikskóla?

Ég veit ekki hvort að skyldulesning sé eitthvað sem ég styðji — það ætti frekar að leitast við að hjálpa fólki að finna lesefni og form sem hentar því persónulega. En ég gæti kannski mælt með einhverju heimspekilegu fyrir börnin: Múmínálfar í leikskóla og Svo mælti Zaraþústra eftir Nietzsche í menntaskóla.

Hvernig færðu hugmyndir að greinaskrifum? Lumarðu á einhverjum góðum ábendingum hvað þetta snertir? Leiðarvísum, fjársjóðskortum?

Í grunninn þá reyni ég nú bara að skrifa um hluti sem mér finnst persónulega áhugaverðir. Ef ég fæ áhuga á einhverju viðfangsefni þá er líklegt að aðrir geti líka fengið áhuga á því — ef það er sett fram á réttan hátt og manni tekst að sannfæra fólk um að það skipti máli. Það sem kveikir líklega mest í mér er þegar ég skynja að verið sé að vinna með einhverjar nýjar og spennandi hugmyndir, hugmyndir sem hafa mátt til að breyta lífi fólks og ríkjandi ástandi.

Það sem er alltaf áhugaverðast er þegar ólík gildi og lífsafstöður skella saman, þegar nýtt viðhorf dregur huluna af einhverju ómeðvituðu gildismati og hugmyndafræði hins ráðandi meirhluta. Þar sem eru einhverskonar átök eða andspyrna (sama hversu lítil hún virðist) er yfirleitt hægt að greina þetta.

Önnur aðferð sem ég nota stundum sem byrjunarpunkt er að reyna að greina mynstur eða endurtekningar — í umræðunni, í tísku, fagurfræði og listum — og spyrja síðan, „af hverju birtist þetta ítrekað í dag?“ og „hvað segir þetta okkur um þann stað sem við erum á núna?“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s