Bækur, 18. maí 2018

Margir lestrarbræður mínir nefna reglulega að þeir séu í átaki um að lesa fleiri bækur eftir konur. Hjá mér er þessu alveg þveröfugt farið: Ég er að reyna að lesa fleiri bækur eftir karlmenn – einkum eftir kvenlega karlmenn. Min kamp-sextettinn, eftir Karl Ove Knausgaard, fjallar um frústreraðan föður. Var þess virði að lesa þá langloku? Já, já, mér fannst það bara skemmtilegt. Knausgård situr enn ótrauður við skriftir og nýlega kom út í enskri þýðingu Autumn og svo fljótlega á eftir Winter … og heyrðu: stutt ráp um Amazon sýnir mér fram á að Spring er einnig komin út. Og þá má væntanlega næst búast við Summer? Ég hef þegar lesið þær tvær fyrstu. Þetta eru stuttar esseyjur um allt milli himins og jarðar (bókstaflega – handahófskennd dæmi um kaflaheiti eru „niðursuðudósir“, „fingur“, „flöskur“, „hnappar“), skrifaðar til ófæddrar dóttur höfundarins, og þær eru ansi misjafnar, satt að segja. Haustið, þá skrjáfar í laufunum. Veturinn, hann er dimmur og kaldur. Að því sögðu, þá finnst mér eitthvað frelsandi við stíl Knausgård – hann skrifar bara og er ekkert að flækja málin. Ef þú hefur lesið Min kamp-syrpuna og hreinlega getur ekki fengið nóg af Karl Ove Knausgård líkt og virðist gilda um mig – ég álpaðist meira að segja út í að lesa þessa hér – þá er ágætt að grípa í þessi litlu, hversdagslegu smákver. (SN.)

It’s an act of demolition,” segir rithöfundurinn Ian McEwan um ferlið við að kvikmynda bækur. Ég vék að því í síðasta Leslista að út er komin kvikmynd byggð á bókinni On Chesil Beach eftir hann. Hann lætur þessi orð falla í viðtali við New York Times þar sem kemur fram að hann hefur haft virkan þátt í því að koma verkum sínum á hvíta tjaldið. Ég minntist á að ég hugsaði til þess þegar ég las þessa bók hvað ég ætti erfitt með að ímynda mér kvikmyndaða útgáfu af henni. Hún er eitthvað svo hæg og vandræðaleg, en samt góð – bara virðist henta kvikmyndaforminu illa. En þegar kvikmyndun bóka heppnast vel þá verður yfirleitt úr þeim algjörlega nýtt listaverk sem þarf ekki endilega að lifa í skugga bókarinnar. Það rifjast t.d. upp fyrir mér að margar kvikmyndir Stanley Kubrick eru byggðar á bókum og eru nær allar meistaraverk að mínu mati. Ég fékk að láni (frá mömmu að sjálfsögðu) bókina Nutshell sem er nýjasta bók McEwan. Eins og ég sagði fyrir viku síðan þá gerist hún frá sjónarhóli fósturs og því þarf greinilega einhvern sérstakan listamann til að kvikmynda þá bók vandlega (ef það stendur til á annað borð). “So here I am, upside down in a woman,” segir fóstrið í upphafið bókarinnar og byrjar að rekja söguna af því þegar þessi kona leggur á ráðin um að ráða barnsföður sinn af dögum. Þetta er skemmtilegri saga en ég bjóst við, full af gríni og spennu en líka djúpri tilvísun í Hamlet eftir Shakespeare. (KF.)

H Is for Hawk nefnist frumraun Helen McDonald. Sú hefur víst selst afar vel og farið víða. Ég er hálfnaður í gegnum hana og finnst hún virkilega vel skrifuð, áhugaverð og skemmtilega uppbyggð. En Helen tekur sem sagt að sér að ala upp og þjálfa gáshauk. Hér má lesa sér til um bókina.

Önnur – og algjörlega mögnuð – bók sem ég er einnig hálfnaður í gegnum er On the Natural History of Destruction eftir W.G. Sebald. (Á frummálinu: Luftkrieg und Literatur.) Ég hef áður lesið nokkrar bækur eftir Sebald og hrifist af þeim upp að nokkru marki – hvernig hann ber saman með ljósmyndum auglit tveggja þekktra heimspekinga og tveggja apa í Austerlitz – en hann hefur aldrei gripið mig neinum heljartökum. Fyrr en nú. Ég las hálfa bókina í tveimur strætóferðum; í fyrra skiptið með ofvirkt smábarn spriklandi og veifandi og spjallandi linnulaust við alla aðra farþega strætósins í þeirri von að kikkstarta góðu partíi; í seinna skiptið regnvotur og lúinn með stórborgarskán í augum og þá blessunarlega sofandi smábarn á bringunni meðan strætóinn skoppaði yfir óboðlegt malbik New York-borgar. Hvernig lýsir maður svona bók? Sebald kannar hvers vegna ritaðar þýskar heimildir, sem lýsa tráma fólks eftir að 131 þýsk borg var sprengd í tætlur í síðari heimsstyrjaldinni, eru af svo skornum skammti sem raun ber vitni. Sex hundruð þúsund þýskir borgarar létu lífið. Sjö og hálf milljón manns lenti á vergangi. Hvers vegna er hvergi um þetta skrifað af neinu viti? Sebald spyr hvort hér sé um einhver konar kollektífa (vísvitandi/nauðbeygða) amnesíu eða minnisleysi að ræða; hörmungarnar séu ógnvænlegri en við fáum skilið og melt og því stuggar fólk þeim frá sér í eins konar sjálfsbjargarviðleitni og lætur sem ekkert hafi gerst. Margar sögurnar eru algjörlega lygilegar. Ekki spillir að Sebald er í senn óhemju ritfær og virkilega vitsmunagreindur og glöggskyggn – sem er nokkuð sem ekki fer alltaf saman hvað rithöfunda snertir. Þetta er erfið, en nauðsynleg og falleg – og raunar oft mjög fyndin – bók. Ég gæti skrifað heila ritgerð um hana en læt það bíða betri tíma; gott væri að setjast niður þegar ég kemst loks á ellilífeyri og fæ um frjálst höfuð strokið. (Þá ætti mér líka að hafa gefist tími til að klára bókina.) Að jafnaði óttast ég skrifráðleggingar annarra rithöfunda en Sebald hafði margvíslegt gott fram að færa hvað það snertir.

Að lokum: Dostojevskí er auðvitað einn þessara stóru höfunda sem ekki er hægt að hunsa. Og þó … sjálfsagt er ekkert mál að hunsa hann. En það heyrir þó til stórtíðinda að út er komin ný íslensk þýðing á verki eftir hann, í þýðingu Ingibjargar heitinnar Haraldsdóttur og Gunnars Þorra Péturssonar. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s