Hlekkir, 18. maí 2018

Hér skrifar Michael Chabon um föðurhlutverkið og það vandasama verk að samtvinna það starfi rithöfundarins. Þetta er nokkuð sem mér, tiltölulega nýbökuðum föður, hefur verið hugleikið að undanförnu. Eru helstu kanónuverk mannkynssögunnar bara einhverjar hástemmdar heimsendayfirlýsingar barnlausra karlmanna? Er hinn samviskusami, norræni nútímafaðir – alltaf til í bleyjurnar og pelann með bros á vör – dæmdur til að engjast um í búri meðalmennskunnar? Ef við hins vegar víkjum okkur að málinu úr hinni áttinni, þá fjallar Mary Beard, góðvinkona Leslistans, fornfræðingur og rithöfundur, hér um mæðrahandbækur í aldanna rás. Ráðleggingarnar þar – sem koma auðvitað oftar en ekki frá karlmönnum – eru sumar hverjar æði einkennilegar. (SN.)

Nýlega ræddi ég um bók eftir bandaríska hagfræðinginn Bryan Caplan þar sem hann færði rök fyrir því að menntakerfið eins og það leggur sig væri lítið annað en sjónarspil og til lítils gagns í núverandi mynd. Hérna er höfundurinn í stórskemmtilegu viðtali við Tyler Cowen, sem er annar bandarískur hagfræðingur sem heldur úti einu vinsælasta hagfræðibloggi heims, Marginal Revolution. Þeir tala að sjálfsögðu um bókina en fara vítt og breitt í spjalli sínu. T.d. víkur Caplan að vinnuferli sínu, sem er hárnákvæmt og öfundsvert. Eftir að hann hefur lokið við að skrifa bækurnar sínar þá hefur hann samband við alla (lifandi) höfunda sem hann vitnar í og gefur þeim færi á að svara eða bæta við því sem hann hefur lagt til málanna. Helvíti vel gert.

Þessi grein eftir Andrew Sullivan fannst mér vel skrifuð og umhugsunarverð. Í henni fjallar hann um umdeildar skoðanir sem Kanye West, vinur okkar, hefur opinberað á Twitter síðastliðnar vikur. Greinin er nokkurs konar andsvar við annarri grein eftir rithöfundinn vinsæla Ta-Nehisi Coates sem gagnrýnir West harðlega. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg gagnrýni hins síðarnefnda og þótt yfirgnæfandi meirihluti þess sem West hefur að segja sé stefnulaust þvaður þá finnst mér hressandi og um leið mikilvægt að hafa fræga listamenn sem hafa sjálfstæðar skoðanir – hversu ruglaðar sem þær kunna að vera. Þetta er hot topic í Bandaríkjunum í dag og flott að lesa báðar þessar greinar til að meta stöðuna.

Talandi um listamenn með sjálfstæðar skoðanir. Ég las í gær viðtal við bandaríska rithöfundinn Bret Easton Ellis sem er kannski þekktastur fyrir að hafa skrifað bókina American Psycho. Hann er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum, sem eru áhugaverðar, hvort sem maður er sammála honum eða ekki. Í viðtalinu talar hann t.d. um nýja bók sem hann er að skrifa, #MeToo byltinguna, „aumingjakynslóðina“ (sem við Sverrir tilheyrum) og framtíð skáldsagna, sem hann telur ekki bjarta. (KF.)

Björn Halldórsson, rithöfundur, velgjörðarmaður Leslistans og samborgari SN í New York, sendir okkur þessa fínu ábendingu: „Jen Hodgson, vinkona mín úr BA-náminu mínu í Norwich í denn, var að ritstýra og gefa út bók með áður óútkomnum verkum 60’s breska avant garde höfundarins Ann Quin, sem alltof fáir þekkja. Er að lesa hana núna og hún er svakaleg. Bókadómur hér. Svo fjallaði um daginn frábær þáttur af Backlisted-hljóðvarpinu um Berg — sem er fyrsta og líklega frægasta bók Quin — en þar kom Jen í viðtal um safnið, Berg og almennt um Ann Quin, sem var alger spaði. Ég mæli líka almennt séð með Backlisted. Þar fjalla tveir höfundar/ritstjórar um allskyns klassískar bækur sem hafa gleymst eða eru ,out of print’ eða fengu aldrei það hól sem þeim bar á sínum tíma. Næstnýjasti þátturinn þeirra um Corregidora eftir Gayl Jones var t.d. mjög flottur. Þar töluðu þeir við fyrrverandi kennara minn í UEA, sem kenndi einmitt þá bók þegar ég var þar á sínum tíma, ca. 2005.“
(Takk fyrir þetta, Björn!)

Hvað er skammtafræði, eiginlega? Ég er mjög áhugasamur um eðlisfræði – en þú gætir ekki einu sinni borgað mér fyrir að reyna að útskýra skammtafræði. Svo virðist sem eðlisfræðingar eigi sjálfir í miklum erfiðleikum með hana ef marka má þennan skemmtilega bókadóm um hina nýútkomnu What is Real?eftir Adam Becker. Bókin fjallar einmitt um skammtafræðina og hvað hún hefur reynst eðlisfræðingum erfið viðureignar. Þrátt fyrir að hún hafi lagt grunninn að nær allri framþróun eðlisfræðinnar síðastliðna áratugi þá virðist sem enginn eðlisfræðingur geti sýnt fram á að kenningin eigi einhverja stoð í raunveruleikanum. Það er kannski það sem gerir hana síðan svona áhugaverða – falleg samblanda af vísindum og vísindaskáldskap.

Stundum les ég tónlistarsnobbmiðilinn Pitchfork þegar ég er á höttunum eftir nýrri tónlist til að hlusta á. Þar er hægt að finna skemmtilega viðtalaröð sem nefnist 5+10+15+20 þar sem tónlistarmenn eru inntir eftir því hvaða tónlist hafði mest áhrif á þá þegar þeir voru 5 ára, 10 ára, 15 ára og svo framvegis. Yfirleitt eru þetta ungir tónlistarmenn sem hafa frá litlu að segja en ég staldraði við þegar ég sá að franska söngkonan Francoise Hardy var tekin fyrir. Hún hefur lifað tímana tvenna þannig að bæði viðtalið og lagavalið var skemmtilegt. (KF.)

Ég nota hið æðislega Libby-lestrarapp talsvert í símanum mínum, en með því get ég tengst við öll bókasöfn í New York þar sem ég er skráður notandi. Ef þú átt Kyndil – sem gildir reyndar ekki um mig – þá er svo víst einnig hægt að tengja hann beint við Libby. Heil fjársjóðskista af fríum bókum. Ég held að Libby nái til ótal bókasafna vítt og breitt um veröldina … kannaðu málið.

Ég notaði Libby meðal annars til að hlaða niður nýrri ævisögu um um líf og störf Paul Simon, hins ástsæla – og umdeilda – söngvaskálds. Hlekkurinn vísar á grein sem rituð er í tilefni af útkomu bókarinnar. Greinarhöfundur stiklar á stóru um feril Simons og tæpir meðal annars á stormasömu sambandi hans við æskuvininn og samstarfsmanninn Art Garfunkel. Artie, eins og hann er jafnan kallaður, er svo aftur áhugaverður gaur og tilefni í frekari hugleiðingar og skrif. Á heimasíðu hans má meðal annars skoða lista yfir allar bækur sem hann hefur lesið frá árinu 1968! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s