Ráðunautur Leslistans: Bergur Ebbi

 

bergurebbi_7

 

Bergur Ebbi er rithöfundur og uppistandari. Meðal umfjöllunarefna í verkum hans eru tæknisaga og áhrif hennar á sjálfsmynd fólks, stjórnmál, breytt heimsmynd, tíska og tíðarandi. Bergur Ebbi er menntaður í lögfræði hjá Háskóla Íslands og er jafnframt með MDes gráðu í Strategic Foresight and Innovation frá OCAD Háskólanum í Toronto í Kanada. Þá hefur hann lagt stund á lögfræði og listasögu við Université de Cergy Pontoise í París.

 

Hvaða bók eða bækur ertu að lesa þessa dagana?

Er að lesa ævisögu Balzacs, eftir Stefan Zweig, sem kom nýlega út í íslenskri þýðingu. Balzac er einn af stóru höfundum 19. aldar – og hér er öll klisjan. Baráttan við borgaraöflin (foreldrar hans vildu að hann yrði lögfræðingur eða læknir), upprisa skáldsögunnar sem listforms, bóhemadjöflarnir en fyrst og fremst metnaðurinn. Þeir voru allir að springa úr metnaði þessir skáldsagnahöfundar, sem er náttúrulega jafn fráhrindandi og það er heillandi. Ég vissi lítið um Balzac, og hef aldrei lesið neitt eftir hann, en hef alltaf vitað hver hann er – ekki síst vegna þess að hann er erkitýpa. Einn af þessum stóru höfundum.

Stefan Zweig er mér meira kunnur, enda er varla til það heimili sem á ekki bók eftir hann. Ég las allt eftir hann sem ég fann í bókaskápnum hjá ömmu og afa: Veröld sem var (fall evrópskrar menningar og upprisu fasisma), Lögreglustjóri Napóleons (ævisaga Joseph Fouché sem sýnir frönsku byltinguna frá mjög upplýsandi sjónarhorni) og svo nóvelluna Manntafl, sem var mjög vinsæl bók á Íslandi. Stefan Zweig er höfundur sem er mér að skapi, hann útskýrir hluti vel en hefur sjónarhorn á hlutina sem er oftast frumlegt og er leyndardómsfullur að því leyti.

Hvaða netsíður, vefmiðla, tímarit?

Ég hef lesið bandaríska tímaritið Wired mjög lengi. Bróðir minn var áskrifandi að því þegar ég var krakki og mér þótti það afar spennandi á sínum tíma, og þykir enn. Þetta er tímarit sem hóf göngu sína 1993, í árdaga internetmenningar, og hefur skráð þá sögu samviskusamlega síðan. Það sem er sérstaklega áhugavert við Wired, er að það fjallar um áhrif tækni á menninguna og pólitíkina. Það er því ekki hreint tækninördablað heldur blað fyrir fólk sem hefur áhuga á hinu stóra samhengi.

En ástæðan fyrir því að ég nefni Wired nú, er vegna þess að forsíðugrein síðasta tölublaðs, er með þeim áhugaverðari sem ég hef séð lengi. Greinin nefnist: Inside the Two Years That Shook Facebok – and the World og fjallar um það sem titilinn ber með sér: frásögn af innanhúsátökum hjá Facebook í tengslum við upprisu fasisma í Bandaríkjunum. Þetta er mögnuð lesning. Samkvæmt greininni þá er Mark Zuckerberg sjálfur búinn að vera algjörlega stjarfur af áhyggjum yfir þessum málum frá því um mitt ár 2016, en verið negldur milli steins og sleggju, því ef Facebook byrjar að fikta of mikið í fréttaveitunni sinni byrjar það að taka ábyrgð á því sem deilt er á Facebook og það er spilaborg sem gæti endað með því að fyrirtækið þurfi að taka ábyrgð á öllu efni sem birtist á Facebook og hugsanlegum skaðlegum eiginleikum þessu. Þess vegna var Facebook svo svifaseint í viðbrögðum sínum við falsfréttum.

Auk Wired hef ég öll mín fullorðinsár verið dyggur lesandi The Economist. Þar er um að ræða frjálslyndu íhaldssemina ómengaða. Það fylgir því einhver stöðugleiki að fá vikulegar fréttir af heimsmálunum í gegnum gleraugu hagfræðilegs optimisma. Mantran er: frjáls markaður sigrar allt, tölfræði sigrar allt. Sjálfur er ég ekki alveg þessarar skoðunar, ég álít heiminn örlítið gruggugri í eðli sínu, en ég hef gott af því að máta eigin skoðanir við þennan staðfestu-vegg, og hef gert það vikulega í meira en fimmtán ár.


Hvaða hlaðvörp/útvarpsþætti hlustarðu mest á?

Ég er smá lúði þegar kemur að þessu. Ég hlusta eiginlega bara á Gullbylgjuna og “þessi gömlu góðu”. Ég elska músík en leiðist að heyra útvarpsmenn tala um músík eða taka viðtöl við tónlistarfólk.

Ég hef aldrei náð að detta almennilega inn í hlaðvörp eða hljóðbækur. Hef samt hlaðið niður Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur og þykir það frábær þáttur. Af hefðbundnum hlaðvörpum er helst að nefna Tæknivarpið sem ég hef stundum hlustað á og Hismið. Hef líka hlustað á Freakonomics og eitthvað útlenskt dót – en er eiginlega hættur að nenna að vera alltaf með einhverja snilld í eyrunum.


Veit að ég er hræsnari að segja þetta því ég er sjálfur með hlaðvarpsþátt og hann er basically tveir menn að tala um músík í klukkutíma. En hræsnin er víða. Steve Jobs sagði til dæmis í einhverju viðtali að hann væri mjög skeptísur á að leyfa krökkunum sínum að leika sér í iPad.


Hver er uppáhaldsbókin/-bækurnar þínar?

Hafblik er önnur bók Einars Benediktssonar, og fyrsta bók hans sem innihélt aðeins ljóð. Hún kom út 1906 og gerði hann afar frægan á Íslandi – jafnvel á slíku kalíberi að líklega mun enginn verða jafn frægur aftur. Það er ekki neitt sérstaklega spennandi að fíla Einar Benediktsson. Aðdáun á honum hefur í seinni tíð kannski aðallega verið spyrt við íhaldssemi og lúðaskap. Verk hans eru ekkert sérstaklega mikið til umræðu innan bókmennta, og þannig hefur það verið í nokkurn tíma. Það er mjög skiljanlegt. Einar var einskonar gíslatökumaður – verk hans eru hvorki hófsöm né frjósöm. Einar virtist sjálfur slökkva flesta þá elda sem hann kveikti og sem ljóðskáld lifði hann og dó án þess að vera hluti af neinni senu eða umræðu. Ég kynntist hins vegar þessari bók mjög ungur, löngu áður en ég þurfti að taka afstöðu til þess hvort það væri í lagi að fíla hana eða ekki, og hef leyft mér að halda því þannig.

Allt við þessa bók er þversögn. Höfundurinn var íslenskur imperíalisti, draughræddur tæknifrömuður, einbeittur og fókuseraður óreiðumaður en fyrst og fremst óargadýr symbolismans. Hafblik er stórkostleg bók – stórkostlega gölluð líka – oft er farin rosalega löng leið til að lýsa einföldum hlutum og strúktúr og nánast ofbeldisfull notkun á tungumálinu ber fegurðina ofurliði. En það er innri stöðugleiki í þessu öllu saman. Ég lít aldrei hafið augum án þess að hugsa um þennan titil: hafblik, sem er lýsing á svæðinu við enda sjóndeildarhringsins, þar sem himin mætir hafi og sólin glampar, svæðinu sem er okkur alltaf jafn fjarlægt. Amma mín kunni ljóðin í bókinni utan að og þuldi þau upphátt, löngu áður en ég vissi hvaðan þau voru fengin. Norðurljós, Sumarmorgun í Ásbyrgi, Lágnættissól við Grímseyjarsund. Þetta voru hittarar á sínum tíma, eitthvað sem fólk lærði og greypti í vitund sína.

Meginuppistaðan í bókinni er ferðalag Einars um tvo staði. Annars vegar Norð-Austurland og hins vegar Ítalíu. Flest ljóðin byrja sem sakleysisleg lýsing á stöðum en enda á lýsingu á hinstu rökum tilverunnar, samanber til dæmis ljóðið Kvöld í Róm sem endar á línunum „Tími er svipstund ein sem aldrei líður / algeims rúm, ein sjón einn dýrðar bjarmi”. Allt er spennt upp. Einar er eins og alkóhólisti sem ætlar bara að fá sér einn drykk á barnum og horfa á fótboltaleik en endar alltaf ofan í baði með strippurum í eftirpartí. Alltaf. Hvert einasta ljóð leggur allt undir. Átökin eru oftast tilgangslaus og orkusóandi, en alltaf jafn gríðarleg.

Einar Ben tilheyrði kynslóð sem nefnd var aldamótakynslóðin,  sem reis upp í kringum aldamótin 1900 og hafði ofurtrú á tækni, vísindum en fyrst og fremst fegurð. Þetta var fólk sem trúði því að hægt væri að beisla guðlegan anda með rafmagni, lækna alla sjúkdóma og lifa neðansjávar eða byggja turna alla leið út í geim. Þessi kynslóð trúði þessu af einlægni og sá ekki fyrir að tæknin sem það dásamaði yrði notuð til tortímingar og stríðsrekstur í þeim mæli sem 20. öldin átti eftir að bera í skauti sér. Að lesa ljóð eftir þetta fólk – sérstaklega af eina fulltrúa hennar í bændasamfélaginu Íslandi – er svo stórkostlega skrítið í dag. Barnaskapurinn og ofurnæmnin er yfirgengileg. Það má segja að ljóðin í Hafbliki Einars séu eins og ort af ljóðaskrímsli, forritaðri jákvæðnismaskínu, táknþyrstri vélasamstæðu. Og já, ég sé hliðstæður hjá því og aldamótakynslóðinni hinni nýju, sem telur sig hafa fangað siðgæðið í algóriþma og ryður úr sér hverri siðferðislega rétt kveðnu spekinni á eftir þeirri næstu, í glórulausri bjartsýni, á meðan skugginn vomir yfir.

Hafblik er umfram allt rosalega hlaðin bók. Hún er óþægileg, því hún er bara nákvæmlega það sem maður getur mest orðið: oflátungsfullur krampi, en þó í átt að himni.


Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Hugsa að ég lesi mest liggjandi. Alveg örugglega ekki standandi. Ég geri ekkert standandi. Ég þoli ekki að standa. Sem er soldið fyndið því ég vinn meðal annars fyrir mér sem uppistandari – og ég lýg því ekki að það hefur oft verið freistandi að byrja að koma fram sitjandi á stól. Mér finnst bara ég þurfi að bíða í nokkur ár eða áratugi þar til ég hef innistæðu fyrir því.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Nokkrar barnabækur sitja rosalega í mér. Ein fjallaði um litla stelpu í Kína sem þurfti að flytja úr þorpinu sínu vegna þess að það stóð til að sökkva það í sæ vegna virkjunarframkvæmda. Ég man ekkert hvað þessi bók heitir, og vil kannski ekki einu sinni vita það, man bara að hún var mjög áhrifamikil. Önnur bók situr í sama hólfi í heila mínum, en það er bók sem fjallaði um tvo stráka í Færeyjum sem þurftu að passa sig þegar þeir léku sér á túnunum því það er svo mikil þoka í Færeyjum að maður sér ekki bjargbrúnirnar fyrr en maður er kominn alveg upp við þær. Mig minnir að þessi bók heiti Risafiskurinn.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ég hef oftast gefið Astrid Lindgren bækur. Það er vegna þess að ég hef farið í ófá barnaafmæli og Lindgren er oftast til í bókabúðum og útgáfurnar eru glæsilegar og verkin vel þýdd. Ég hef aldrei heyrt neinn sem hefur verið svikinn af hennar skrifum! Mínar uppáhalds eru Elsku Míó minn og Bróðir minn ljónshjarta.

Hvaða bók viltu lesa næst? En þarnæst?

Ég er búinn að vera með bók á náttborðinu í fjögur ár. Hún nefnist „Making the Modern World” og er eftir tékknesk-kanadískan hagfræðing sem heitir Vaclav Smil. Bókin er nokkuð hardcore greining á stöðu hráefnisbúskapar jarðarinnar, einskonar birgðarstaða fyrir heimsbúskapinn. Þessi bók er alls ekki neitt flugvallarrit sem er skrifað á léttan og aðgengilegan hátt, heldur einn alvarlegasti og þurrasti texti sem ég hef komist í. Bróðir minn, sem gaf mér bókina, fullyrðir hins vegar að ef maður klári þessa bók, þá sé maður eiginlega með lokaorðið í öllum pólitískum og siðferðislegum rökræðum. Ég held að það sé soldið til í því hjá honum – en hann er ekki heldur alveg búinn með bókina.

Eftir Vaclav Smil þá klára ég Paradísarmissi eftir John Milton (náttborð í tíu ár) og þá er ég bara tilbúinn að mæta skapara mínum.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í menntaskóla? En í leikskóla?

Ég sé varla fyrir mér að skylda kennara að lesa ákveðnar bækur fyrir krakka í leikskólum. Það er soldið totalíterísk hugmynd, smá Maó formaður þar á ferð! En í menntaskóla tel ég sjálfsagt að leggja almennan grunn. Mér finnst að enginn eigi að teljast menntaður á Íslandi nema að þekkja verk Halldórs Laxness og helst Þórbergs líka. Auk þess þarf að kynna alla fyrir íslenskri ljóðagerð, ekki síst 20. aldar ljóðskáldum. En mín vegna þarf ekki að ákveða nein skyldurit heldur rótera þessu reglulega.


Hvaða rithöfund myndir þú vilja fá til að skrifa ævisögu þína? Viltu yfirhöfuð að ævisaga þín verði fest á blað?

Ég, ásamt flestum meðborgurum mínum, skrái ævisögu mína samviskusamlega fyrir allra augum, dag hvern á samfélagsmiðlum. Eftir nokkur ár ætti tölvuforrit sem kostar einn dollara nokkuð auðveldlega að geta spýtt út ævisögu í 1-3 bindum upp úr því.

 

Fórstu að lesa öðruvísi eftir að þú hafðir lokið við að skrifa bók?

Já. Ég les öðruvísi nú heldur en þegar ég var yngri. Ég er næmari fyrir áferð og afstöðu í texta. Ég spái til dæmis í því hvort Guð sé nálægur eða hvort höfundur sé elskaður. Það fyrsta sem ég hugsa þegar ég les bók, jafnvel á fyrstu blaðsíðunni, er hvort höfundur sé að krefja mig um að elska sig eða gefa mér ást. Það sama á við um músík. Ég set allt í gegnum þessa síu, og ég get svarað um leið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s