Bækur, 25. maí 2018

Philip Roth, sá merki – og umdeildi – höfundur lést í vikunni, áttatíu og fimm ára að aldri. Blessuð sé minning hans. Þrjár bóka hans hafa komið út á íslensku. Ein er Hin feiga skepna, í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Mig minnir að það hafi reyndar verið fyrsta bókin eftir Roth sem ég las. Fríða Björk Ingvarsdóttir hefur einnig lesið hana og fjallaði á sínum tíma um þá reynslu sína á síðum Morgunblaðsins. Rúnar Helgi hefur enn fremur þýtt fyrstu bók Roths, Vertu sæll Kólumbus. Þá hefur Samsærið gegn Ameríku komið út í þýðingu Helga Más Barðasonar. Sú bók, sem skaut Roth upp á stjörnuhimininn, var þó Portnoy’s Complaint, sem þótti allsjokkerandi á sínum tíma (hún kom fyrst út árið 1969); þetta er yndislega kraftmikil bók, textinn svo lipur og leikandi að það er næstum hægt að syngja hana eins og popplag, og ég býð mig hér með fram til að snara henni yfir á íslensku, ef einhver er fús til að sponsora það. (Auðvitað ætti þó fremur að fjármagna Rúnar Helga til þess.) Bækur Roths eru býsna margar, og þegar ég renni yfir listann á Wikipedia kemur flatt upp á mig hvað ég hef, í angistarfullri leit minni að lífsfyllingu, lesið margar þeirra. The Breast fjallar um bókmenntafræðiprófessor sem breytist – já – í kvenmannsbrjóst. (Gott stöff.) The Ghost Writer (sem er yndisleg – og kannski góður upphafsreitur fyrir þá sem þekkja lítið til verka Roths) fjallar um ungan og upprennandi höfund sem heimsækir hetjuna sína, virtan, eldri höfund (sem hugsanlega er byggður á Bernard Malamud). Everyman, ein af nóvellunum sem Roth sendi frá sér undir lok ferilsins, segir sögu manns út frá þeim sjúkdómskvillum sem herjuðu á hann yfir ævina. Og svo er það þríleikurinn stóri frá tíunda áratugnum: The Human StainAmerican Pastoral, og Sabbath’s Theater. Og svo allar hinar – mér dettur ekki í hug að telja þetta allt upp. Annar góður upphafsreitur að verkum Roths væri Roth Unbound eftir Claudiu Roth Pierpont (og nei – þrátt fyrir nafngiftina er Claudia ekki skyld umfjöllunarefni sínu). Ég las þessa um það leyti þegar hún kom út (2014) og líkaði vel. Pierpont rekur sig í gegnum höfundarverk Roths bók fyrir bók, á líflegan hátt, og fjallar þar með í leiðinni um ævi höfundarins, helstu hugðarefni hans og efnistök. (SN.)

Ég tók með mér nokkrar bækur í sumarbústað um Hvítasunnuhelgina en endaði bara á að sökkva mér í eina þeirra. Ég hafði keypt mér á afslætti í Bóksölu stúdenta um daginn Játningar Jean-Jacques Rousseau án þess þó að vita í raun og veru hvað ég var að kaupa. Þetta er sjálfsævisaga svissneska heimspekingsins fræga og eins konar brautryðjendarit í þeim bókmenntastíl. Ég vissi ekkert um Rousseu fyrirfram annað en einhverjar nokkrar setningar um hann og hugmyndafræði hans frá því í menntaskólaheimspeki þannig að ég kom að bókinni algjörlega án væntinga. Ég er reyndar enn að lesa hana en má samt til með að mæla með henni. Þetta er ótrúlega áhugaverð og berskjölduð frásögn af stormasamri ævi þessa merka manns. Hún er líka mjög læsileg og ekki jafn þung og mig grunaði í fyrstu. Það er líka mikill misskilningur að svona gamlar bækur séu ekki jafn grófar og opinskáar og nútímabókmenntir geta verið. Ef einhver er haldinn þeirri kreddu þá er þessi bók góð lækning við henni. Ég ætla ekki að rekja ævi hans hér en mæli með því að fólk kynni sér hana hérna á Stanford alfræðiorðabókinni um heimspeki sem er ein af mínum uppáhalds uppflettiritum og algjör go-to síða ef maður er eitthvað að stúdera heimspeki á annað borð. (KF.)

Ég var að klára Higher Loyalty; truth, lies, and leadership, eftir fyrrverandi FBI-framkvæmdastjórann James Comey, sem var rekinn úr starfi, með eftirminnilegum hætti, af einni lykilpersónu síðasta hluta bókarinnar, sjálfum Donald Trump (einnig þekktur sem „vondi karlinn“). Bókin kom mér á óvart, satt að segja. Hún er rennileg og léttleikandi, Comey er í senn snjall, fyndinn og geðþekkur, og saga hans býsna viðburðarík. Ekki vissi ég að hann hefði, ásamt konu sinni Patrice, misst eitt barna sinna í dauðann, skömmu eftir fæðingu þess. Slík ör marka vitaskuld lífssýn hans stórlega upp frá því. Þá er reynsla hans frá New York-borg, þar sem starfaði um árabil, af því að kljást og eiga við mafíósa, sett í skemmtilegt – og sláandi – samhengi við kynni hans af Trump. Ýmsar aðrar þekktar persónur koma við sögu – Hilary Clinton auðvitað, Martha Stewart, Donald Rumsfield, George W. Bush, Barack Obama – og Comey virðist vera einstaklega lunkinn að bæði rata upp metorðastigann og ramba í vandræði. Það er auðvitað klisja, en hér svífur svolítill Forest Gump-bragur yfir vötnum. Ef þú hefur áhuga á bandarískum stjórnmálum, lögfræði, því hvernig FBI operar í raun og veru, heimspekilegum vangaveltum sem snerta leiðtogafærni og siðferði – eða bara áhugaverðum æviskeiðum fólks sem hafnar, óvart eða ekki, í sviðsljósinu – þá er hægt að villast á verri slóðir en milli spjaldanna á þessari bók.

Ólíkt mörgum, þá get ég ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi Zadie Smith. Mér finnst hún töff týpa, áhugaverður karakter, og gott að vita af henni í veröldinni. En hún skipar svoldið svipaðan sess hjá mér og Jonathan Franzen. Höfundur sem hlýtur mikla athygli, mikið lof – og sumpart fatta ég hvers vegna – en orkar svipað á mig og koffínlaust kaffi. Skárra en ekkert kaffi auðvitað, en samt ekki alveg málið. Ég hef held ég byrjað að lesa allar skáldsögurnar hennar – og gefist upp á þeim öllum. (Sama gildir reyndar um Franzen.) (Ég veit samt ekki alveg af hverju ég byrjaði að þvæla Jonathan Franzen inn í þetta; sorrí.) Ritgerðasafn Zadie Smith, Changing My Mind, sem kom út fyrir nokkrum árum, las ég hins vegar spjaldanna á milli og nú er komið út nýtt safn af ritgerðum eftir hana, Feel Free. Hún er auðvitað ljóngáfuð og það sem ég hef lesið – ég byrjaði bara á bókinni í gær – er steinfínt. Svona hipstersleg gáfnaljósaheimspeki um poppmenningu, t.d. ritgerð sem fléttar saman verkum Justins Bieber og Martins Buber, og svo ýmsir bókadómar úr Harper’s, sem mér fannst gaman að brenna í gegnum, þar sem við Zadie virðumst oft hafa álpast til að lesa sömu bækurnar síðustu árin. Mér finnst hún stundum svolítið tilgerðarleg (setja sig í stellingar) – en það er auðvitað ekkert að því. Allt gott og áhugavert fólk er stundum svolítið tilgerðarlegt. Ég vildi annars óska að fleiri svona bækur kæmu út á íslensku: greindarleg ritgerðasöfn um allt milli himins og jarðar. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s