Hlekkir, 25. maí 2018

Sverrir minntist á hið ágæta Libby, lestrarapp, í síðasta Leslista. Við fengum ábendingu frá glöggum áskrifanda Leslistans um að Libby er einnig tengt íslenska rafbókasafninu www.rafbokasafnid.is sem allir sem eiga íslensk bókasafnskort hafa aðgang að. Við þökkum ábendinguna og hvetjum lesendur til að skoða appið og rafbókasafnið nánar.

Ég fann í fyrradag tvö viðtöl sem voru mér himnasending og gleðja þig örugglega líka, lesandi góður. Ég minntist í síðasta lista á viðtal sem hagfræðingurinn Tyler Cowen tók við kollega sinn, Bryan Caplan, sem skrifaði nýlega bók um æðri menntun og gildi hennar. Fyrir stuttu sendi heimspekingurinn og miðlarinn Nassim Taleb frá sér tíst um þá bók og í kjölfarið ákváðu þeir tveir að hittast til að ræða hana opinberlega. Cowen, sem heldur úti skemmtilegri viðtalaröð sem nefnist Conversations With Tyler, ákvað að troða sér að líka og úr urðu tvö virkilega áhugaverð viðtöl. Fyrra viðtalið, sem Cowen tekur við Taleb, fer t.d. mjög djúpt inn í sögu Líbanon (upprunaland Talebs) og seinna viðtalið, sem Caplan tekur við Taleb, fjallar um menntun. Hljóðgæðin eru ekki nógu góð, þannig að ég mæli með því að lesa viðtölin í stað þess að hlusta á þau, eða gera hvorttveggja í einu.

DV spurði oddvita framboðanna í Reykjavík hvaða bókum þeir mæla með. Þetta eru að sjálfsögðu misáhugaverðar bækur sem þeir velja, en listinn er aðeins öðruvísi en ég hefði búist við fyrirfram. Ef ég væri Reykvíkingur þá myndi ég örugglega styðjast við þessar upplýsingar á kjördag. (KF.)

Hér er viðtal við Elenu Ferrante, ítalska höfundinn knáa sem sigrað hefur hjörtu heimsbyggðarinnar. Hún lýsir meðal annars skrifum Napólí-fjórleiksins, sem kominn er út í heild sinni á íslensku, í þýðingu Brynju Cortes. (SN.)

Bill Gates er mikill lestrarhestur og mælir árlega með fimm bókum sem henta einkar vel í sumarlestur. Listarnir eru yfirleitt skemmtilegir og vel útpældir hjá honum og hef ég persónulega uppgötvað nokkrar bækur í gegnum þá. Nýjasti listinn kom út í vikunni og virkar áhugaverður. (KF.)

Hér bendir Atli Bollason, í vel ígrundaðri og góðri grein, á að íslensk tónlistargagnrýni hefur svo gott sem lognast út af. Sama gildir auðvitað um íslenska bókagagnrýni, sem er nær einnig horfin af sögusviðinu, ef frá er talin stjörnuvædd neytendaráðgjöf í mýflugumynd og umfjöllun á Starafugli, ásamt handahófskenndum smágreinum hér og þar á netinu og örfáum síðum í Tímariti Máls & Menningar. Góðir höfundar þarfnast góðra lesenda – og einnig góðra gagnrýnenda og skríbenta um bókmenntir. Svo einfalt er það nú. Koma nú, krakkar! (SN.)

Sá nýlega frábært viðtal við bandaríska leikstjórann Christopher Nolan sem tekið var í kringum Cannes kvikmyndahátíðina. Hann var sjálfur ekki að sýna mynd eftir sig á kvikmyndahátíðinni heldur sýndi hann upprunalega filmuútgáfu af 2001: Space Oddysey eftir Stanley Kubrick. Viðtalið er svolítið stílað á kvikmyndanörda en í því er að finna mjög áhugaverðar pælingar um stafræna og hliðræna miðlun á kvikmyndum. Hér er t.d. ein góð athugasemd frá Nolan: “In the art world it’s understood—Picasso painted a painting, you can’t make a print of it, put it on a wall and tell people this is the original. Stanley Kubrick shot the film in 65mm to be printed on 70mm for this movie, photochemically. You can’t show a DCP. I mean, you can, but you have to tell people it’s a DCP, as it’s a different experience and translation of the work.”

Hefur þú einhvern tímann hugleitt af hverju flest eldhús eru í opnu rými í dag en ekki í afmörkuðum herbergjum eins og í gamla daga? Þessi flotta grein í Atlantic kryfur málið til mergjar og setur það í áhugavert samhengi við jafnrétti kynjanna. Hér er ein góð lína úr greininni: “the open plan might represent the most distinctly American home design possible: to labor in vain against ever-rising demands, imposed mostly by our own choices, all the while insisting that, actually, we love it. It’s a prison, but at least it’s one without walls.” (KF.)

John Stuart Mill var iðinn við kolann sem barn. Hér má lesa nokkrar síður úr Sjálfsævisögu hans. Áskrifendur Leslistans eru flestir annálaðir lestrarhestar, frægir í sinni sveit, en fáir standa Mill sjálfsagt á sporði. (SN.)

Fann þessa þrusugóðu grein á Guardian sem ég hélt að væri bara dómur um nýjan þátt með Benedict Cumberbatch í aðalhlutverki en fjallar um reynslu höfundar af því að vera háður heróíni.

Manstu eftir Jay Leno? Ég var lika búinn að gleyma honum. Hérna er stutt viðtal við spjallþáttakónginn hökulanga í tímaritinu Money (biblían mín) þar sem hann deilir góðum sparnaðarráðum.

Rambaði á áhugavert viðtal sem bandaríski (og íslensk-ættaði) hagfræðingurinn Erik Brynjolfsson tók við sálfræðinginn heimsþekkta Daniel Kahneman. Brynjolfsson er þekktur fyrir að hafa skrifað mikið um fjórðu iðnbyltinguna ásamt Andrew McAffee (sem kom einmitt til Íslands um daginn). Ég mæli sérstaklega með bók sem þeir skrifuðu um þetta mál sem nefnist The Second Machine Age. Í viðtalinu kom m.a. fram að ný bók er væntanleg eftir Kahneman. Ég bíð auðvitað æsipenntur eftir henni. En fyrri bók hans, Thinking Fast and Slow, er með bestu bókum sem ég hef lesið.

Þeir sem hafa áhuga á bókaútgáfu og framtíð hennar hafa eflaust gaman af þessari skýrslu sem ég rambaði á frá bandarísku gagnaveitunni Author’s Earnings. Skýrslan tekur saman gögn um alla bóksölu í Bandaríkjunum og hefur sérstaklega gott safn af gögnum um útgáfu rafbóka og sjálfstæða bókaútgáfu. Í stuttu máli sagt þá hefur dauði sjálfstæðrar bókaútgáfu og rafbóka verið stórlega ýktur ef marka má þessa samantekt. (KF.)

Í þessari grein úr tímaritinu Atlantic skrifar Henry A. Kissinger, fyrrum ráðgjafi í öryggismálum Bandaríkjanna í bæði valdatíð Nixons og Geralds Ford, um gervigreind. Býsna áleitnar pælingar hér á ferð og skýrt framsettar. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s