Ráðunautur Leslistans: Soffía Auður Birgisdóttir

SoffiaOkt15-2152

Soffía Auður Birgisdóttir virðist vera kappsamur lesandi. Vísbendingarnar leynast víða: Hún hefur um árabil kafað í verk Þórbergs Þórðarsonar, þýðing hennar á Orlandó eftir Virginiu Woolf kom út fyrir skemmstu, hún hefur lengi starfað sem bókmenntagagnrýnandi  – og svo er hún meira að segja bókmenntafræðingur að mennt – og gott ef hún ritstýrði ekki einu sinni stórbók með verkum íslenskra kvenna sem mig minnir að leynist uppi í hillu hjá mér. Í fljótu bragði mætti ætla að hún eigi alltaf bók eða annað lesefni innan seilingar.

 

Komdu nú sæl og blessuð, Soffía Auður Birgisdóttir. Er það satt, lestu bækur?

Satt að segja geri ég fátt annað en að lesa bækur og skrifa um þær, enda er ég svo stálheppin að starfa við það: er fræðimaður í fullu starfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Það starf er draumur lesóðrar manneskju á borð við mig og féll mér í skaut eftir áralanga kennslu sem lausráðinn stundakennari, fastráðinn stundakennari og síðan aðjúnkt í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

 

Já, ljónheppin ertu. Og kærar þakkir fyrir að ganga í hið ört stækkandi ráðuneyti Leslistans! Mætti ég gerast svo nærgöngull að inna þig eftir því hvaða bók/bækur þú ert helst að glugga í þessa dagana?

Undanfarið hef ég verið á kafi í bókum Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, sem er einn vanmetnasti rithöfundur á Íslandi, þótt reyndar megi merkja breytingu á því síðastliðin ár. Þannig hafa Fjöruverðlaunin fallið henni 2svar í skaut (fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins 2008 og ljóðabókina Enginn dans við Ufsaklett 2015. Sú fyrrnefnda er algjört dúndur (ég vorkenni þeim sem lesa hana ekki). Sú síðarnefnda var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og fyrir síðustu ljóðabók sína Dauðinn í veiðarfæraskúrnum hlaut hún tilnefningu til Maístjörnunnar. Ég stóð fyrir málþingi um skrif Elísabetar í tilefni af sextugsafmæli hennar í apríl og flutti þar fyrirlestur sem ég er að vinna upp í fræðigrein um þessar mundir. Í tengslum við þau fræðiskrif hef ég einnig verið að lesa og endurlesa ýmis femínísk fræði því Elísabet er einn mesti femínisti íslenskra samtímabókmennta.

Í tengslum við bók mína og doktorsritgerð um skrif Þórbergs Þórðarsonar var ég á kafi í æviskrifafræðum, íslenskri sögu og bókmenntasögu svo það var kominn tími á endurmenntun í femínískum fræðum (þótt ég beiti þeim reyndar líka dálítið á Þórberg). Ég fór allt aftur til fyrstu Skírnisgreina Helgu Kress, sem ollu miklu fjaðrafoki á sínum tíma, las mér til mikillar ánægju greinar úr bók hennar Óþarfar unnustur. Um samband fjölkynngi, kvennafars og karlmennsku í Íslendingasögum (2009), las einnig greinar eftir Dagnýju Kristjánsdóttur og kafla úr frábærri doktorsritgerð hennar Kona verður til (1996), sem og greinar eftir Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking o.fl. Þá rifjaði ég upp kynni við Hitt kynið (Annað kynið væri betri þýðing því kynin eru fleiri en tvö (ekki bara „þetta og hitt“)) eftir Simone de Beauvoir, þríleikinn Madwoman in the Attic, No Mans Land: The War of the Words og Sexchanges eftir bandarísku fræðikonurnar Sandra M. Gubar og Susan Gilbert, Sexual Politics eftir Kate Millett og gluggaði í ýmis fleiri fræðirit. Þetta hafði ég allt lesið áður, fyrir margt löngu. Mínar lestrarvenjur eru yfirleitt þannig að það sem ég er að skrifa leiðir mig í allskyns áttir og af þeim leiðist sé út í fleiri skrif og enn aðrar áttir. Í pælingunum um skrif Elísabetar hef ég t.d. einnig lesið heilmikið um bókmenntir og ást, bókmenntir og geðveiki o.fl. Þetta fæðir svo af sér fleiri greinar.

Á náttborðinu eru hins vegar aðrar bækur en þær sem ég er að „vinna með“. Ég reyni markvisst að fylgjast með nýjum íslenskum skáldskap, ævisögum, fræðibókum og þýðingum og af lestrardagbókinni má sjá að á undanförnum vikum hef ég t.d. lokið við að lesa eftirfarandi bækur: Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur, Bleikrými eftir Solveigu Thoroddsen, Velkomin til Ameríku eftir Lindu Borström Knausgaard, Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur, Dóru Bruder eftir Patrick Modiano og Dagar höfnunar eftir Elenu Ferrante. Nokkrar af þessum bókum voru á dagskrá í leshring sem ég er meðlimur í og hefur verið starfandi frá vori 1981, eða í 37 ár, og hittist að jafnaði einu sinni í mánuði.

Á náttborðinu hefur líka lengi staðið bókin The Bedside Book of Birds. An Avian Miscellany eftir Graeme Gibson sem ég keypti að því hún er svo falleg blanda af texta og myndlist sem maður getur notið í litlum skömmtum. Fuglar eru líka í uppáhaldi hjá mér og gaman að fylgjast með þeim á vorin hér út um flennistóru gluggana á stofunni minni sem vísa út að hafi, jöklum og fjöru sem er mikið kjörlendi fugla.

Svo er ég byrjuð að dútla við að þýða Sjö furðusögur eftir Karen Blixen. Þetta er hennar fyrsta bók, með sjö löngum, stórkostlegum smásögum og má telja furðulegt að þær hafi ekki komið út á íslensku enn. Ég þýði bara það sem mig langar til og án þess að hafa neinn útgáfusamning tilbúinn enda þýði ég bara um helgar og í fríum, sjálfri mér til ánægju. Ég verð reyndar í Danmörku í sumarfríinu núna og ætla að dunda mér við þetta verkefni þar, í danskri sveitasælu.

Ég vona að að þú klárir þýðinguna og hún komi út! En lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð?

Íslensk dagblöð les ég sjaldan, helst að maður rambi inn á greinar á netinu sem aðrir mæla með…  en ég les fjölda tímarita: Tímarit Máls og menningar, Skírni, Sögu, Stínu, Són, Ritið. Ég kíki oft á The New Yorker, Times Literary Supplement, The Paris Review og fleiri slík á netinu. Ég er á facebook en áhuginn á þeim miðli fer þverrandi. Ég fylgist með vefmiðlum á borð við skald.is og starafugl.is (og mun núna í framhaldinu fylgjast með leslistinn.com) og reglulega skoða ég TED fyrirlestra og ugla (þýðing Þórunnar Jörlu á gúgla) alls konar efni sem tengist bókmenntum og fræðum, tek þá gjarna syrpur og hlusta á fyrirlestraraðir á youtube, gamlar og nýjar, nefna má viðtöl Brians Magee við samtímaheimspekinga sem er gaman að hlusta á.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les auðveldlega á íslensku, ensku, færeysku, dönsku, norsku og sænsku, get líka lesið spænsku, frönsku og þýsku með orðabók að vopni, hef lært þau mál og búið á Spáni í tæpt ár. Mest les ég þó á íslensku, ensku og dönsku.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Ég hlusta næstum einvörðungu á RUV, rás 1, enda er það frábært útvarp þar sem þar er boðið upp á úrvalsþætti. Ég missi aldrei af þáttunum Orð um bækur, Bók vikunnar, Víðsjá og Lestin. Þá eru ýmsir samtalsþættir sem ég hef gaman af, t.a.m. þáttaraðirnar sem Ævar Kjartansson hefur stýrt með ýmsum aðstoðarmönnum og staka bókmenntaþætti og þáttaraðir reyni ég hlusta á. Ég er ein af þeim sem hef ekkert á móti endurflutningi gamals efnis af þessu tagi. Ég hef ekki tileinkað mér hlaðvarpstæknina en spái oft í að gera það, sérstaklega þegar spennandi þættir hafa verið kynntir í Lestinni, en ég hef ekki tíma, þarf að lesa…

Já, tíminn vill fljúga frá manni. En áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Eftirlætisbækurnar eru margar og erfitt að taka einhverjar út, þó get ég nefnt Orlandó sem er náttúrlega bara dásemd, svo blæbrigðarík og skemmtileg. Alltaf uppgötva ég eitthvað nýtt við hvern lestur á bókum Þórbergs Þórðarsonar. Þá nýt ég þess að lesa klassísk verk á borð við Þúsund og eina nótt, Gargantúa og Pantagrúl, Don Kíkóta, Tídægru, Ummyndanir Óvíðs og Shakespeare einsoghannleggursig – svo ég nefni heimsbókmenntir sem við eigum í frábærum þýðingum. Af uppáhaldshöfundum get ég nefnt Virginiu Woolf, George Eliot, Karen Blixen, William Heinesen, William Faulkner, Flannery O’Connor, Walt Whitman, Emily Dickinson, Zora Neal Hurston, Toni Morrison, Margret Atwood, … ég veit þetta er ósköp gamaldags, en aftur á móti á ég góðan vin í New York sem bendir mér á áhugaverða samtímahöfunda þarlendis, síðast þegar ég heimsótti hann lét hann mig kaupa verk eftir Mary Gaitskill, Laura Van Den Berg, Lydia Davis og Deborah Eisenberg, ég hafði gaman af þeim. Hin breska Zadie Smith er í uppáhaldi (frábær sjónvarpsþáttaröð var gerð eftir skáldsögu hennar White Teeth). Af norrænum höfundum nær okkur í tíma er ég mjög hrifin af Carl Johan Jensen (Færeyjar – Ó-sögur um djöfulskap er djöfullega góð, til í frábærri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur), Naja Marie Aidt (Danmörk), Sara Stridsberg (Svíþjóð) og Karl Ove Knausgaard (sérstaklega er ég hrifin af bókunum sem hann skrifaði áður en hann hóf að skrifa bálkinn mikla Min kamp, ég er hrifin að sumu í þeim bálki en ekki öllu). Hér nefni ég einn höfund frá hverju landi en ég les mikið af skandinavískum bókmenntum, komst á lag með það þegar ég var í lýðháskóla í Danmörku, tók dönsku sem aukagrein í háskólanámi, fór á sumarnámskeið í færeysku og sat um árabil í dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Svo gæti ég að sjálfsögðu romsað upp úr mér nöfnum á mörgum íslenskum samtímahöfundum sem ég hef miklar mætur á: Vigdís Grímsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Gyrðir Elíasson, Ísak Harðarson, Elísabet (já ég var búin að nefna hana), Linda Vilhjálmsdóttir, Þórunn Valdimarsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Sjón, Bjarni Bjarnason, Hermann Stefánsson og margir margir fleiri… Úps, ég var ekki búin að nefna Þórberg og Laxness, var það? og Málfríður Einars frá Munaðarnesi er náttúrlega einn allra skemmtilegasti höfundur Íslands.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Við lestur á skáldskap er best að liggja, við lestur á fræðibókum er best að sitja í góðum stól… kannski kemst ég upp á lagið með að lesa standandi bráðum því ég hef hugsað mér að fá mér upphækkanlegt skrifborð sem hægt er að standa við því ég er farin að þjást af atvinnusjúkdómnum axlar- og bakverkir… Ég get lesið hvar sem er, þó ekki krefjandi fræðitexta, þá þarf ég að vera í friði fyrir áreiti annarra.

Það eru góðar minningar tengdar því að liggja og lesa. Þegar ég var barn fann ég mér oft blett þar sem sólin skein inn um gluggann og lá þar og las þangað til hitinn varð of mikill. Þegar við heimsóttum ömmu og afa lá ég gjarnan fyrir framan lágu bókaskápana þeirra, skoðaði kili og tók út þær bækur sem vöktu áhuga minn.

Hefurðu gleymt þér við lestur í strætó og rankað við þér á rangri stoppistöð, komin alltof langt út í buskann, jafnvel lengst út í sveit? Eða í flugvél og hafnað í rangri heimsálfu?

Ekki man ég eftir að slíkt hafi hent mig, en hins vegar ruglaðist ég oft á íslenskutímum í Menntaskólanum í Hamrahlíð á síðustu önnunum mínum, ég var í svo mörgum því ég tók alla valkúrsa í íslensku og bókmenntum sem í boði voru. Ég átti það til að elta einhvern íslenskukennarann inn í skólastofu þar sem stundum var sagt : „Þú átt ekki að vera í þessum tíma en mátt það gjarnan ef þú vilt.“

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Gagn og gaman, þegar ég var að berjast í gegnum hana fann ég bláan stein sem mamma sagði að væri óskasteinn og óskin mín var: „Ég vildi að ég gæti lesið án þess að þurfa að stafa.“ Óskin rættist. Fyrsta bókin sem ég tók á bókasafni var Dagfinnur dýralæknir, ég nefni hana því það voru mikil tímamót að eignast bókasafnskort. Ég man eftir bók sem hét Dísa siglir um Suðurhöf sem fjallaði um skipreika stelpu sem lendir í miklum ævintýrum. Fyrsta bókin sem ég keypti fyrir eigin peninga hét Stelpurnar sem struku (það er ákveðið mynstur í þessu …). Bóklesturinn var og er náttúrlega ákveðin tegund af stroki úr hversdagslífinu, um leið og hann er skemmtilegasta núvitundarástand sem hægt er að komast í. Þegar ég var tíu ára lá ég í flensu þegar Einar Andrésson (oft kenndur við Mál og menningu og var giftur ömmusystur minni) færði mér fyrsta bindið af Þúsund og einni nótt. Bókina las ég í vímu sem veit ekki hvort stafaði af hitasóttinni eða lestrarreynslunni, hallast þó að því síðarnefnda.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Líklega er það Orlandó eftir Virginiu Woolf. Annars reyni ég að taka mið af þeim sem gjöfina á að fá…

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Já þeim kvilla er ég haldin. Það varð mér nokkur raun þegar ég las Stalín: ævi og aldurtili eftir Edward Radinskij fyrir nokkrum mánuðum, hún er 708 síður og ekki mjög skemmtileg. Ég er þó að reyna að venja mig af þessu, að vera ekki að sóa tímanum í lélegar bækur.

Nei, út um gluggann með þær! Áttu þér einhvern höfund – eða listamann af annarri grein fegurðarinnar – sem gefur þér alltaf orku og innblástur til að skrifa?

Marie Bonie, samísk tónlistarkona, er í uppáhaldi sem undirleikur skrifa.

Á skrifstofunni minni í Nýheimum á Höfn hanga myndlistarverk eftir íslenska rithöfunda: Sjón, Þórunni Valdimarsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Vigdísi Grímsdóttur, Bjarna Bjarnason, Hermann Stefánsson (bráðum verður hengd þar líka upp mynd eftir Elísabetu Jökuls) og William Heinesen. Gott er að horfa á þau í vinnunni.

Seturðu þig í sérstakar stellingar þegar þú lest bækur sem fræðimaður? Ertu alvörugefnari á svip en þegar þú lest þér til ánægju? Eða fylgir því kannski heilmikil ánægja og nautn að vera fræðimaður?

Því fylgir ótvírætt ánægja og nautn að vera fræðimaður, sjaldan hlæ ég meira en þegar ég les greinar eftir Helgu Kress, þær eru svo fyndnar um leið og þær eru vandaðar og góðar. Svo fylgir því mikil nautn að lesa fræðitexta sem opna fyrir nýjan skilning og inspírera. Vissulega er ég í ákveðnum stellingum þegar ég les fræðibækur, ég t.d. glósa óspart út á spássíur fræðibóka, reyni að átta mig á því sem skiptir (mig) helst máli og skrifa allskyns athugasemdir.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Ég er hálfnuð með Ráðuneyti æðstu hamingju eftir Arundhati Roy í þýðingu Árna Óskarssonar. Sá lestur tekur meiri tíma en venjulega því mikið er um orð og atburði sem ég kann lítil skil á, svo ég er á fullu að ugla meðfram lestrinum.

Svo mun ég á næstu kvöldum meðal annars glugga í þær bækur sem ég keypti í síðustu Reykjavíkurferð : Í bókabúð keypti ég ofannefnda Ráðuneyti æðstu hamingu og Villimaður í París eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur og í Góða hirðinum keypti ég heilan helling, m.a. 3ja binda ritsafn dagbóka og bréfa Harolds Nicolson (sem var eiginmaður Vitu Sackville-West sem var ástkona Virginu Woolf og ein af fyrirmyndum persónunnar Orlandós).

Síðan er ég á leið til Danmerkur til fræðistarfa og í sumarfrí. Þar mun ég dvelja í Digterhjemmet á Fanø og í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og sökkva mér niður í innviði Syv fantastiske fortællinger eftir Karen Blixen, skoða ritdóma í dönskum, norskum og þýskum blöðum um Undervejs til min elskede (Íslenskan aðal) sem kom út á dönsku 1955, Islandsk adel sem kom út á norsku 1975, Unterwegs zu meinen Geliebten sem kom út á þýsku 1960 og ný þýðing, Islands Adel, 2011. Ég er sem sagt að rannsaka viðtökur við þýðingum á Íslenskum aðli á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Einnig ætla ég að kanna hvort það kunni að leynast bréf á Hinu konunglega bókasafni í Kaupmannahöfn sem varða rannsóknarefni sem ég er líka að fást við um þessar mundir, um líf og örlög dætra Sveinbjarnar Egilssonar. Um eina þeirra, Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, birti ég nýverið grein í Ritinu, „Hið ,sanna kyn’ eða veruleiki líkamans“ (hana má lesa hér.). Næst birti ég grein um Þuríði Sveinbjarnardóttur Kúld. Þessar systur eiga sér, hvor um sig, ótrúlega magnaða og merkilega sögu.

 

Því trúi ég. Og kærar þakkir fyrir spjallið, Soffía! Þetta var mjög hressandi og skemmtilegt.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s