Bækur, 1. júní 2018

Kristín Ómarsdóttir hlaut maístjörnuna fyrir ljóðabók sína Köngulær í sýningargluggum. Þar er ómóstæðileg leikgleði við völd: tungumálið er í senn dótakassi og vopnabúr. Kristín gekk einmitt í ráðuneyti Leslistans fyrir ekki svo ýkja löngu.

Það er varla að ég þori að lesa bækur Þorsteins frá Hamri. Mér líður eins og viðbrögð mín við þeim feli í sér einhvers konar stóradóm yfir sjálfum mér, bæði sem manneskju og Íslendingi. Bara þetta mikla, hljómfagra nafn skýtur óyggjandi stoðum undir að hér fari stórskáld. Í áranna rás hef ég svo sem án þess að slasa mig alvarlega lesið allmörg ljóð eftir Þorstein frá Hamri, bæði eitt og eitt á stangli og jafnvel heilu bækurnar (Hvert orð er atvik finnst mér frábær) og jafnan hrifist af þessu öllu saman – en ég hef hrifist á sama hátt og maður hrífst af skýjakljúfi eða skriðdreka. Hrifningin er blandin lotningu og ótta, jafnvel skelfingu. Fyrir nokkrum árum kom út hnausþykkur, tuttugu kílóa doðrantur með safni ljóða Þorsteins frá Hamri og geymdi einnig skáldsögurnar hans. Ég gerði nokkrar atlögur að skáldsögunum þar en gafst jafnan upp í örvæntingu eftir nokkrar síður. Þvílíkt torf! Mér fannst einhvern veginn augljóst að hér væri ljóðskáld að glíma við skáldsagnaskrif – textinn var ofhlaðinn eins og skemmtiferðaskip sem leggur úr höfn með alltof mikið af mat og víni sekkur á miðri leið undan þyngslunum. Nýlega var skáldsagan Haust í Skírisskógieftir Þorstein frá Hamri endurútgefin af Forlaginu, undir hatti „íslenskrar klassíkur“, og þegar ég var síðast staddur á Íslandi ákvað ég að stela þessari bók frá föður mínum og bæta fyrir syndir mínar með því að lesa verkið. Hermann Stefánsson ritar skemmtilegan formála að þessari íslensku klassík Þorsteins og fer stórum orðum um hversu ógnarlegt meistaraverk bíði lesandans á næstu síðum. Lofgjörð Hermanns var raunar svo skefjalaus að ég neyddist til að leggja bókina frá mér. Sú uppgjöf átti sér stað í Reykjavík og næstu vikur fylgdi bókin mér í bakpokanum mínum vítt og breitt um Kaliforníu. Ég seildist oft eftir henni og hugðist manna mig upp í að tækla verkið í einum hetjurykk, en guggnaði alltaf í suðrænu sólskininu. Eftir að ég sneri heim til New York hefur bókin – sem er raunar örþunn og ætti eftir því að vera fljótlesin – starað ásakandi til mín af skrifborðinu. Og nú sit ég á kaffihúsi að loknum vinnudegi og hef tekið Haust í Skírisskógi hingað með mér; ég hafði hugsað mér að lesa skrif einhvers annars í von um hvíld frá eigin höfði. En ég bara get það ekki. Ég get ekki lesið skáldsögur Þorsteins frá Hamri. Samt myndi ég sjálfsagt, ef ég væri inntur eftir því hver væru mestu skáld Íslands á tuttugustu öld, meðal annars segja: Jah, Þorsteinn frá Hamri. Ég blaða hér og þar í bókinni („Hurðin grenjar á hjörunum,“ „gott er nú að sitja í góðum bíl,“ „Hark mikið og bjástur, stunur og stimpingar“) en virðist hvorki geta skafið upp í mér greind né eirð til að nálgast þetta verkefni systematískt. Á bókarkápu er vitnað til gamallar umsagnar Rannveigar Ágústsdóttur í Dagblaðinu: „Hvílík undur að koma inn í þennan kynjaskóg Þorsteins …“ Bókin hlaut Menningarverðlaun DV á sínum tíma. Hér er hlekkur á hana á síðu Forlagsins. (SN.)

Ég minntist um daginn á eina gagnlegustu bók sem ég hef lesið, Effective Executive eftir austurríska stjórnunarspekinginn Peter Drucker. Nýlega rambaði ég á aðra stutta bók eftir hann sem heitir Managing Oneself og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um hvernig maður stjórnar tíma sínum og starfsferli eins vel og kostur er á. Ég held að báðar þessar bækur eigi sérstaklega mikið erindi í dag þar sem einyrkjum og starfsfólki í þekkingariðnaðinum svokallaða fer ört fjölgandi. Þetta eru kannski engin tímamótavísindi og alls ekki flóknar pælingar, en þetta eru helvíti gagnlegar bækur og hafa hjálpað mér við að forgangsraða betur tíma mínum og vinnu. (KF.)

Ég lá veikur heima einn dag í vikunni, þjakaður af samviskubiti yfir að geta engu komið í verk, og las þá til að dreifa huganum glænýtt smásagnasafn eftir Curtis Sittenfield, You Think It, I’ll Say It. Sittenfield er sjálfsagt þekktust fyrir fyrstu skáldsögu sína, Prep, og enn fremur Eligible, þar sem hún færði Hroka og hleypidóma eftir Jane Austen í nútímalegan búning. Í sem stystu máli fundust mér smásögurnar hennar mjög skemmtilegar. Sittenfield er afar lunkinn sögumaður og flink í að bæði skapa persónur og spinna óvæntar og sniðugar fléttur. Fyrsta sagan, sem fjallar um óvænt skyndikynni prófessors í kynjafræðum við leigubílstjóra sem styður Donald Trump, er frábær, mjög eftirminnileg. (Ég hafði reyndar áður lesið hana í The New Yorker – sem var sjálfsagt ástæða þess að ég svo seildist eftir bókinni.) Önnur virkilega vel heppnuð saga er „Plausible Deniability,“ með afar sniðugri fléttu. Hér er Sittenfield í spjalli um ritstörf sín og lífssýn, á vefsíðu sem ég átta mig ekki alveg á (er þetta búð? tímarit? lífsstíls-eitthvað?). Curtis virðist hafa átt nokkuð náðuga daga ef marka má tóninn í viðtalinu, þar er ekki mikið um tryllingslega angist. Og þó, maður veit auðvitað aldrei! Eflaust er hún mikið kvíðabúnt. (SN.)

Ég hef heyrt nokkuð marga mæla með bókinni Lessons of History eftir hjónin Will og Ariel Durant og ákvað þess vegna að renna í gegnum hana í vikunni. Þetta er stutt bók sem er unnin í tengslum við bókaraðir þeirra um sögu hins vestræna heims. Bókinni er skipt í þrettán ritgerðir sem allar fjalla um hvað mannkynssagan getur kennt okkur. Hver og ein ritgerð hefur visst þema eins og „líffræði“, „kynþáttur“, „stríð“, og reyna höfundar að kanna í hverri og einni þeirra hvaða lærdóm draga megi af sögunni í ljósi þessara viðfangsefna. Þetta er alveg fantavel skrifuð bók og lærdómsrík þó ég sé ekki endilega sammála öllum þeim lærdómi sem þau draga af sögunni. Síðasti kafli bókarinnar ber titilinn „Is Progress Real?“ og í honum rökstyðja hjónin þá skoðun sína að mannkynið sé að þróast til batnaðar þótt mannsandinn hafi alltaf verið hinn sami í aldanna rás. Þau fara klókindalega leið í rökstuðningi sínum og skilgreina framfarir sem færni mannsins í að stjórna umhverfi sínu. Hér er ágætis greining á ritgerð þeirra sem útskýrir rökstuðning þeirra ágætlega. Án þess að fara alltof ítarlega í þá sálma hér þá er ég ósammála þessari nálgun þeirra. Ég þeirrar skoðunar að flestar framfarir mannsins séu afturkræfar og að mannkynið stefni hvorki fram á við né aftur í heild sinni. En bókin er samt góð og ég er vís til að lesa aðrar bækur eftir þessi kláru hjón. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s