Hlekkir, 1. júní 2018

Í The London Review of Books birtist þessi feykiflotta umfjöllun um eldsvoðann í Grenfell-turninum í Lundúnum. Vel að verki staðið – og endurspeglar möguleikana sem útgáfa á netinu samhliða prenti býður upp á. Í netútgáfunni er til dæmis hægt að horfa á ýmis myndskeið (viðtöl, svipmyndir frá kröfugöngum og fundarhöldum) og enn fremur heimildarmyndina Grenfell: The End of an Experiment?, sem framleidd var á sama tíma og greinin var rituð. Svona á að gera þetta. (SN.)

Ég hef farið á býsna margar listamessur í gegnum ævina. Þetta eru eins konar kaupstefnur fyrir myndlist og hafa í áranna rás orðið ómissandi þáttur í starfi listgallería. Í þessari fínu grein kallar bandaríski listgagnrýnandinn Jerry Saltzeftir róttækri uppstokkun á þessu fyrirkomulagi og telur það beinlínis skaðlegt fyrir alla nema stærstu galleríin. Ég tek að mörgu leyti undir þessa skoðun Saltz – þetta eru stórfurðulegar samkomur sem gefa mér alltaf hausverk. Það gæti samt verið kampavíninu að kenna. (KF.)

Jóhann Helgi Heiðdal sendi okkur þessa fínu ábendingu:
„Vildi gauka að ykkur þessari grein eftir Eric Schlosser í The New Yorker. Segir sig í rauninni sjálft afhverju. Hann skrifaði einnig bókina Command and Control fyrir nokkrum árum sem á skilið að fá meiri athygli. Fyrst ég er að þessu væri reyndar kannski hægt að benda á The Making of the Atomic Bomb eftir Richard Rhodes, sem er auðvitað klassík og grundvallarrit til að skilja þetta efni, fékk Pulitzer. Síðast en ekki síst nýrri bók eftir Daniel Ellsberg, The Doomsday Machine. Ég myndi segja að sú bók sé afrek sem er mun mikilvægara en The Pentagon Papers. Alveg augljóslega.“
Takk fyrir þetta, Jóhann Helgi! Í Open Source var einmitt fjallað um The Doomsday Machine nokkuð nýlega. (SN.)

Þegar ég var 14 ára var ég í sumarvinnu sem aðstoðarmaður Guðmundar Ingólfssonar ljósmyndara. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi ekki gert honum mikið gagn en hann kenndi mér hins vegar heilmikið. Ég þakka honum einna helst fyrir að hafa kveikt áhuga minn á myndlist og kynnt mig fyrir meisturum á borð við Mark Rothko og Ólaf Elíasson (sem leit einmitt stundum inn í stúdíóið hans til að fá lánaðar myndavélar). Þess vegna fannst mér gaman að hlusta á þetta viðtal við hann á RÚV þar sem hann fer stuttlega yfir eigin feril.

Halldór Armand, vinur okkar Sverris, er með vikulega pistla í Lestinni sem ég mæli eindregið með. Nýlegur pistill hans um Guernica eftir Picasso vakti sérstaka athygli mína. Í honum fjallar hann um nýja kenningu um málverkið sem gefur í skyn að það fjalli einmitt ekki um sprengjuárásina í Guernicu, heldur listamanninn sjálfan. Svo kom nýr pistill frá honum í vikunni um Louis Karius sem er líka mjög góður. (KF.)

Vissirðu að Charlie Parker var svona klikkaðslega hamslaus náungi? (SN.)

Mér fannst frábært að ramba á þessa grein hjá Times Literary Suppliment, einu virtasta bókmenntatímariti hins enskumælandi heims, eftir íslenska skáldið Fríðu Ísberg. Í greininni skrifar hún um frændasamfélagið í hinum íslenska bókmenntaheimi og hvað það aftri íslenskum rithöfundum að einhverju leyti að starfa í jafn litlu samfélagi og Ísland er. Í greininni nefnir hún t.d. að líklega mun enginn íslenskur rithöfundur skrifa jafn ítarlega um eigin ævi og norski rithöfundurinn Karl Ove Knausgaard gerði í sínum bókum, enda nær ómögulegt þegar allir eru skyldir öllum!

Talandi um TLS. Hér er stórskemmtilegur prófíll um nýjan ristjóra tímaritsins, Stig Abel, í New York Times. Þetta lítur út fyrir að vera algjör töffari og svo virðist sem hann sé að lóðsa þetta forna tímarit inn í nútímann með glæsibrag.  

Kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson er væntanlegur til landsins á næstu dögum og heldur tvo fyrirlestra í Hörpu í byrjun næstu viku sem nú þegar er uppselt á. Ég hef áður fjallað um bók hans, 12 lífsreglur, í Leslistanum og minntist þá á að ég hafði gaman af henni. Síðan ég las hana hef ég fylgst með þvílíku fjölmiðlafári í kringum þennan forvitnilega mann og svo virðist sem fólk skiptist í fylkingar með hann. Ýmist er hann hataður eða elskaður, hann er eins konar dýrlingur fyrir sumum og djöfullinn í mannsmynd í augum annarra. Ég er þeirrar skoðunar að margt í hugmyndafræði hans sé umhugsunarvert og eigi brýnt erindi við samtímann. Mér finnst t.d. kjarninn í speki hans vera að heimurinn sé í eðli sínu grimmur en að það sé ákveðið frumskilyrði mannsins að takast á við slíkt hlutskipti með sæmd og reyna að gera heiminn að betri stað. Þessi grein eftir Russ Roberts, stjórnanda Econtalk hlaðvarpsins, kristallar að mörgu leyti mínar skoðanir á hugmyndum Peterson. Svo las ég nýlega aðra grein sem birtir öllu dekkri mynd af honum, en ég tek að mörgu leyti undir hana líka. Þetta er maður sem hefur margt til síns máls, fjölmiðlar hafa sumir hverjir málað óvægna mynd af honum, en hann er enginn dýrlingur og hefur tilhneigingu til að varpa fram skoðunum sínum líkt og þær séu staðreyndir. Sama hvaða manni finnst, þá lítur út fyrir að hann sé einn áhrifamesti hugsuður okkar tíma. Það er forvitnilegt út af fyrir sig. (KF.)

Ég las nýlega um þessa stórskrítnu bókabúð sem er staðsett í aðeins korters-göngufjarlægð frá heimili mínu. Búðin er rekin af Richard Kostelanetz, rithöfundi og bókafíkli, og er einungis opin síðasta sunnudag hvers mánaðar, á milli 12-17. Svona á að gera þetta! Í stað þess að murka töfrana markvisst úr tilverunni með því að gera „allt“ aðgengilegt hverjum sem er öllum stundum (sbr. Grapevine-greinina mína sem hlekkjað er á hér að ofan), þá á einmitt að torvelda fólki aðgengi að lífsins lystisemdum. Já, þessi Kostelanetz veit hvað hann syngur. Hið frábæra bókaforlag Tunglið – sem lesendur þekkja sjálfsagt – aðhyllist einmitt svipaða heimspeki, sem kristallast í því starfi að gefa bækur út á fullu tungli og hafa þær einungis til sölu meðan tunglið hangir fullt – og svo aldrei meir. Ótrúlega takmarkað aðgengi frekar en skefjalaust aðgengi, það er framtíðin! Nóg um það. Til að gera langa sögu stutta, þá reyndi ég að kíkja í bókabúð Kostelanetz síðasta sunnudag – ég var í sveitinni yfir helgina og tók strikið rakleiðis þangað þegar ég sneri heim, alveg á síðustu stundu – og viti menn, ég kom of seint. Í þrjósku minni hringdi ég samt dyrabjöllunni. „Hver er þetta?!“ spurði hvöss, geðvonskuleg rödd. „Ehm, þetta er Sverrir. Er búðin opin?” „Nei, opið til fimm! Komdu aftur næsta síðasta sunnudag mánaðarins.” „Ehm, ókei þá. Sjáumst.“ „Já, bæ.“ Ég reyni því aftur eftir mánuð. Kannski tek ég viðtal við kauða. To be cont. (SN.)

Hér er ágætur Twitter þráður frá fjárfestinum og hugsuðinum Naval Ravikantum hvernig maður verður ríkur. Mæli með því að fylgja honum á Twitter ef þú ert að vafra þar á annað borð, lesandi góður. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s