Ráðunautur Leslistans: Auður Ava Ólafsdóttir

audur-ava-olafsdottir-1_4891685

Auður Ava Ólafsdóttir er meðal þekktari höfunda þjóðarinnar um þessar mundir. Hún hefur sent frá sér nokkrar skáldsögur, nú síðast Ör (2016), en einnig leikverk og eina ljóðabók. Bækur hennar hafa verið þýddar á ýmis tungumál og notið alþjóðlegrar hylli á síðustu árum. (Ef þú hefur enn ekkert lesið eftir Auði Övu, þá mælir Leslistinn sérstaklega með Rigningu í nóvember.) En nóg af kynningu og yfir í mál málanna.

Hvað les Auður Ava? Já, nú leikur nefnilega enginn vafi á því að þú skrifar bækur … en lestu þær einnig? Og ef svo vill til, hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Já, já, ég les bækur… Ég var að koma af bókmenntahátíð í Hay-on Wey í Wales og þar hitti ég pólska skáldkonu Olgu Tokarczuk sem fáeinum dögum áður hafði fengið Man Booker International bókmenntaverðlaunin fyrir bók sem heitir á ensku Flights. Heimferðin frá þessum næstu nágrönnum okkar tók 18 klukkustundir eða fjórar lestar, tvær rútur og eina flugvél og ég náði að klára 410 blaðsíðna bók Olgu á leiðinni. Verðlaunin eru algjörlega verðskulduð og ég mæli eindregið með þessari frábæru bók sem kallast á við Kafka og Bruno Schulz og er barmafull af ímyndunarafli. Viðfangsefnið er ferðalög en í raun fjallar bókin um vitundina og inntak mennskunnar og hefur risastóra innri tímavídd. Um leið er hún auðveld lestrar. Byggingin er ekki línuleg, heldur er bókin byggð upp á myndum og sjálf talar höfundurinn um ,,constellation order’’ og tekur líkingu af stjörnuþyrpingu. Það var dálítið kostulegt að heyra höfund lýsa því þegar hún var að raða köflunum saman og var með blöðin dreifð yfir allt gólfið og klifraði síðan upp á borð og stóla og upp um allt til að ná yfirsýn yfir sköpunarverkið.

Lestu öðruvísi þegar þú ert sjálf að vinna að bók? Ertu kannski alltaf að vinna að bók?

Þegar ég er að ljúka við bók, síðustu tvo, þrjá mánuðina, þá skrifa ég meira en ég les. Eða öllu heldur, þá breytist ég í lesanda eigin texta. Þegar ég lýk við bók tek ég lestrarsyrpur. Þá les ég stundum margar bækur eftir sama höfund. Ég ætla kannski að lesa eina bók eftir höfundinn og enda á að lesa margar. Þannig kynnist maður honum betur. Mér getur alveg þótt mjög vænt um höfund fyrir bara eina setningu. Þannig að mér þykir vænt um marga höfunda! Ég les bæði markvisst og óskipulega. Ég dett kannski niður á bók og það verður keðjuverkan. Eins og þegar ég keypti Lífsjátningu Guðmundu Elíasdóttur eftir Ingólf Margeirsson á bókamarkaði í febrúar. Bókin kom fyrst út 1981 og fékk frábæra dóma en ég var of ung til að lesa ævisögur þá og missti af henni. Ég mæli með þessari mögnuðu lífssögu sem fjallar um löngun til sköpunar og drauma um fegurð, líka í ómögulegum aðstæðum. Og hvernig samfélagið og hversdagsleikinn vængstífir skapandi fólk. Eftir Guðmundu datt ég niður í fleiri ævisögur og las m.a. ævisögu hins fallega Harðar Torfasonar, Tabú sem er mikilvæg bók sem allir ættu að lesa. Sem varð til þess að ég ákvað að lesa æviminningar Gylfa Ægissonar, Sjúddírarírei, til að reyna að komast að því hvers vegna í veröldinni honum væri svona illa við hinsegin fólk? Þá fannst mér ég hafa lifað allmörgum lífum á rúmri viku, verið fátæk söngdífa, hommi og sjómaður. Og drukkið illa um hríð.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð?

Ég hef hvílt mig á vefmiðlum í ár. Það er tilraunaverkefni. Eftir að kunningi minn, bóksali í smábæ í suður-Frakklandi sagði mér hvernig hann fer að því að lesa eina bók á dag þrátt fyrir langan vinnudag, hætti ég að lesa netmiðla og dagblöð (sem mér finnst reyndar sturluð sóun á pappír). Hans aðferð felst að vísu í því að vakna fyrr (sem ég geri ekki!) og lesa frá klukkan sex til átta, áður en hann fer til vinnu. Hann segist lesa 2 síður á mínútu og nái þannig að lesa að minnsta kosti eina bók á dag. Það magnaða er að hann er búinn að smita allt þorpið af lestrarástríðu sinni og maður mætir beinlínis fólki lesandi úti á götu. Allir eru með bók í vasanum og eru stöðugt að ræða bækur. Bókabúðin er því líka samfélagsmiðstöð þorpsins og rithöfundar koma reglulega í heimsókn. Paul Auster var í gestabókinni á undan mér, von var á skáldkonunni Amélie Nothomb í vikunni á eftir.

Ég kíki á netmiðla svona einu sinni í viku, nota 5 mínútur í að skanna fréttir vikunnar og það merkilega er að maður missir ekki af neinu. Uppáhaldssíðurnar mínar eru vedur.is og síða Egils Helgasonar sem súmmerar allt íslenskt samfélag upp ; mannlíf, borgarskipulag, pólitík, jólaskreytingar, ferðamenn og bækur.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Á íslensku, frönsku og ensku. Ég fór að lesa bókmenntir þegar ég bjó í Frakklandi og það kemur fyrir að ég lesi enskar bækur í frönskum þýðingum sem er auðvitað ekki til fyrirmyndar.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Ég hlusta stundum á síðdegismenningarþættina á Gufunni þegar ég er að ,,skutla’’. Þegar ég um nokkurra mánaða skeið þurfti að aka yfir í nágrannasveitarfélag snemma á morgnana hlustaði ég á þátt Sigurlaugar Jónasdóttur; Segðu mér. Sigurlaug er dásamlegur útvarpsmaður og í þættinum kemst maður inn í líf alls kyns fólks sem er að gera merkilega hluti út um allt land.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Ég gæti talið upp talsvert margar bækur sem ég held mikið upp á en nefni hér ljóðabókina Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur (ég held ekki minna upp á höfundinn sjálfan), bókin er undanlegur galdur og heldur manni á tánum allan tímann.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Þetta er athyglisverð spurning. Þegar ég velti því fyrir mér, þá les ég annað hvort standandi eða liggjandi. Annað hvort lóðrétt eða lárétt. Ég les aldrei sitjandi nema í flugvél. Ég les talsvert standandi í bókabúðum til að vita hvort ég eigi að kaupa bók. Ég les byrjunina, endinn og tek stikkprufur hér og þar. Ég hef einu sinni verið sex klukkutíma samfellt inni í bókabúð í París sem ég ætlaði rétt að kíkja inn í. Ég réttlæti þennan ókeypis lestur í bókabúðum með því að ég sé líka góður kúnni sem kaupi margar bækur (Ég opna bækur varlega). Eftir sex klukkutíma gekk ég út úr búðinni með tvo fulla poka af bókum. Auk þess var ég búin að kynna mér vel haustbókamarkaðinn í Frakklandi það árið. Ef bók er góð þá langar mig að eiga hana. Þess vegna kaupi ég líka bækur sem ég hef fengið lánaðar og þegar lesið ef þær eru góðar. Það er mín klikkaða efnishyggja að þurfa að vita af bók í hillu.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Eftir á að hyggja þá voru fæstar barnabókanna sem ég las pólitíkallí korrekt. Flestar voru barmafullar af staðalímyndum um kynjahlutverk og í sumum var að finna rasisma. Maður var ekki lengi að lesa sig í gegnum hillurnar á Sólheimabókasafninu og ég man að ég beið nokkuð lengi eftir að þroskast upp í bókaskáp foreldra minna. Ævisaga Frans frá Assisi var fyrsta atrennan, ég var líklega um sjö ára þegar ég las hana. Hreiðar Stefánsson og Jenna Jensdóttir kenndu mér í Langholtsskóla og ég las Öddubækurnar sem hefur nú komið á daginn að Jenna skrifaði ein þótt hún skrifaði Hreiðar líka fyrir þeim! Á tímum þegar allur gjaldeyrir fór í olíu á fiskiskipaflotann var Enid Blyton mikilvæg vegna matarins; á síðum bóka hennar var að finna flesk og límonaði, skorpusteik og fjölda niðursuðudósa. Svo undarlegt sem það kann að virðast var ég heilluð af orðabókum og las enska orðabók áður en ég lærði ensku. Byrjaði á A-inu. Maður reyndi hvað maður gat til að stækka heiminn.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ég kaupi oft mörg eintök af hverri bók. Sérstaklega ljóðabókum.Vandamálið er að ég þekki ekki alltaf nógu marga til að gefa bókina. Þannig að það hefur alveg komið fyrir að ég sit uppi með þrjú eintök af sömu bók. Síðasta bók sem ég keypti meir en fjögur eintök af (og átti ekki í vandræðum með að koma út!) var ljóðabók Bubba Mortens, Hreistur sem kom út í fyrra. Ég er hrifin af bókum þar sem höfundur á brýnt erindi við lesanda sinn eins og Bubbi og mér fannst þetta flott bók. Mér fannst ég hafa verið heila vertíð fyrir vestan eftir að hafa lesið bókina.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Ja, sko, eins og ég segi þá kaupi ég ekki bók nema ég sé nokkuð viss um að klára hana. En ég skoða talsvert margar bækur og legg þær svo frá mér.

Skáldsögurnar þínar eru nokkuð ólíkar því sem gengur og gerist í íslenskum bókmenntum. Ég greini að minnsta kosti enga augljósa íslenska áhrifavalda. Segðu mér nú — og vonandi má ég gerast svo frakkur að inna þig eftir öðru eins — hvernig rambaðirðu á þína frásagnaraðferð, einkum hvað varðar tón en líka strúktúr? Kom þetta af sjálfu sér? Eða var einhver annar höfundur — eða jafnvel listamaður á öðru sviði — sem studdi við þig á ferðalaginu?

Ég held að minn stíll hafi orðið til af vanþekkingu og barnaskap. Mig langaði til að segja sögu en ég hafði ekki lært neina aðferð og vissi ekki hvað mátti og hvað ekki. Kannski var ég ekki nógu vel lesin. Ég vann lengi við að ,,þýða’’ myndir yfir á tungumál og held að það sjáist í bókunum mínum. Það er músík inni í mér sem tekur á sig ólíka mynd í hverri bók og síðan er afgangurinn ímyndunarafl og húmanísk lífssýn, undirstaða persónusköpunar er líklega sú skoðun að það séu þversagnirnar sem geri okkur mannleg. Með því að gefa þeim rödd sem hefur ekki rödd tel ég svo sjálfri mér trú um að ég sé að leiðrétta einhverja ímyndaða skekkju í heiminum. Sem er auðvitað sjálfsblekking í æðra veldi. Ég er tiltölulega nýlega, eiginlega fyrir skemmstu farin að velta fyrir mér hvernig aðrir höfundar fari að, t.d. varðandi byggingu. Mér finnst ég hafa komist að því að það sem einkenni góð skáldverk sé að þau séu gölluð á persónulegan hátt og það hjálpar mér að halda dampi.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Ég er spennt að lesa Stormfugla eftir Einar Kárason. Um leið og ég er búin að skila af mér handriti.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s