Bækur, 8. júní 2018

Lokahnykkurinn í skáldsagnaþríleik hinnar eitursnjöllu Rachel Cusk, Kudos, er kominn út. (Fyrri bækurnar tvær eru Outline og Transit; ég hef áður minnst á þær hér á Leslistanum í umfjöllun um enn aðra bók Cusk, A Life’s Work, sem fjallar um móðurhlutverkið.) Ég keypti Kudos strax og færi gafst og brenndi í gegnum hana af áfergju og ofsa; hún olli mér ekki vonbrigðum. Þessar bækur ætti að þýða yfir á íslensku og kannski geri ég það einn daginn, í hárri elli. Rachel Cusk er meðal áhugaverðari höfunda samtímans og nefndur þríleikur ólíkur öllu öðru sem ég hef lesið. Mæli mikið með þessum. (SN.)

Einhvern tímann hafði ég heyrt minnst á hugtakið Lateral Thinking sem er fínn enskur frasi yfir það að hugsa í skapandi lausnum. Þessi hugsunarháttur er í sjálfu sér frekar augljós öllum þeim sem hafa fengið áhugaverða hugdettu. Slíkar hugdettur verða ekki til þegar maður er búinn að þjösnast í sama hugarfarinu tímunum saman heldur koma þær þegar maður stígur út fyrir kassann og nálgast vandamálið frá nýju sjónarhorni. Mér finnst skemmtilegt að fá nýjar hugdettur og hef gaman af því að lesa mér til um skapandi leiðir til að nálgast vandamál. Þess vegna las ég nýlega bókina Lateral Thinking – An Introduction eftir frægan rithöfund sem heitir Edward de Bono, en hann er sá sem fitjaði upp á þessum frasa. Ég mun ekki leggja það í vana minn að fjalla hér um bækur sem mér finnast slæmar, en ég má til með að minnast aðeins á þessa. Ástæðan er sú að bókin er lýsandi fyrir þorra þeirra bóka sem prýða metsölulista bókabúða og þá á ég sérstaklega við viðskiptabækur. Bókin er nefnilega ekkert meira en langdregin og teygð tímaritsgrein og hefði komist mun betur til skila á því formi. Í mínum huga ætti aðeins að gefa út bækur sem ekki rúmast á öðru formi; annað á betur heima sem tímaritsgreinar eða jafnvel Twitter-færslur. Sífellt streyma hins vegar í bókaverslanir verk á borð við þessa bók sem bæta litlu sem engu við margfalt styttri Wikipedia-grein um sama málefni. Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að maður ætti aldrei að lesa bækur sem maður myndi ekki lesa tvisvar. Ég held að það sé býsna góð þumalputtaregla. (KF.)

Í vikunni las ég endursögn Edward st. Aubyn, í skáldsöguformi, á einu þekktasta leikriti Shakespeare, King Lear. Þekkirðu St. Aubyn? Ef ekki, þá leyfi ég mér að fullyrða að þú munt tryllast af gleði þegar þú uppgötvar hann, en hann hlýtur að vera einn alliprasti og stílfimasti höfundur sem nú skrifar á enska tungu. Dunbar nefnist bókin og mér fannst hún stórvel heppnuð, og er ekki er ég einn um það. (Þessi skáldsaga er innslag í Hogarth Shakespeare-röðina þar sem þekktir skáldsagnahöfundar eru fengnir til að matreiða verk Shakespeares upp á nýtt.) Ef þú þekkir ekki st. Aubyn, þá komu fimm stuttar skáldsögur eftir hann út á safnriti árið 2015, undir regnhlífinni The Patrick Melrose Novels, og þær eru geggjaðar. (Ásamt bókum Cusk, sem ég nefni hér að ofan, með betri skáldsögum sem ég hef lesið síðustu ár.) Stíll st. Aubyn er torlýsanleg blanda af ótrúlegri stílkúnst, teiknimyndalegu sprelli, beittu háði og djúpri innsýn í stéttaskiptingu og hugi fólks af ólíkum toga. (SN.)

Heimspekingurinn Isaiah Berlin hefði orðið 109 ára síðastliðinn miðvikudag. Ég hef áður minnst á þennan merka mann á þessum vettvangi, en mér þótti tilvalið af þessu tilefni að minnast á nokkrar bækur eftir hann sem mér finnst að allir ættu að gefa gaum. Hér er ágæt grein í gyðingablaðinu Tablet Magazine sem kjarnar nokkuð vel af hverju Berlin á erindi við samtímann og er ágætis inngangur að hugmyndafræði hans. Hann er einna þekktastur fyrir ritgerðina The Hedgehog and the Fox sem gáfumenni vísa reglulega til í pistlaskrifum (oftast án þess að hafa lesið hana). Í ritgerðinni flokkar hann hugsuði í tvo flokka, broddgelti og refi; fólk sem sér heiminn í gegnum eina stóra og ákveðna hugmyndafræði (broddgelti) og fólk sem sér heiminn út frá mörgum mismunandi sjónarhornum (refir). Þetta er flott ritgerð en mér finnst leiðinlegt að þetta sé það sem hann er þekktastur fyrir, bæði vegna þess að hann notaði þessa líkingu í einskonar hálfkæringi við að lýsa rússneskum bókmenntum og einnig vegna þess að önnur höfundaverk hans rista enn dýpra og hafa haft umtalsverð áhrif á mig. Ég mæli sérstaklega með tveimur bókum sem hafa að geyma ritgerðir eftir hann – annars vegar Russian Thinkers, sem fjallar um rússneska hugsuði, bæði heimspekinga og rithöfunda, og þar er t.d. að finna áðurnefnda ritgerð. Hins vegar mæli ég eindregið með ritgerðarsafninu The Proper Study of Mankind, sem mætti réttilega kalla Best of Berlin, og hefur að geyma úrval bestu og áhrifamestu ritgerða hans. Eins og minnst er á í greininni í Tablet, sem ég vísa til hér að ofan, þá er í dag mikið talað um harðræðisstjórnarfar og í því ljósi eru dregnir fram í dagsljósið höfundar og hugsuðir á borð við Hönnuh Arendt og George Orwell, sem bæði eru vel til þess fallin að greina slíkt stjórnarfar – en komast ekki með tærnar þar sem Berlin hefur hælana að mínu mati. Ég læt vera að útlista hugmyndafræði hans hér, enda orðar hana enginn betur en Berlin sjálfur. Skil þess vegna eftir hér í lokin grein sem The New York Review of Books birti fyrir fjórum árum úr ræðu sem hann hélt árið 1994 og bar titilinn A Message to the 21st Century. Þetta eru skilaboð sem eiga erindi til okkar allra og ég mæli með því að kafa í hana með síðdegiskaffinu í dag. (KF.)

Ég skaust í árlegt hóf hjá New Directions-bókaútgáfunni á Manhattan nýlega og þar máttu gestir grípa með sér einn „minjagrip“ úr nokkrum bókahillum. Bókahillurnar stóðu á þröngum gangi og löðuðu vitanlega að sér skara, enda hver maður í þessu samkvæmi óhemju bókhneigður, sem er bæði sjaldgæft og yndislegt, og skapar oft svolítið steikta dýnamík í partíum. Ég vék mér inn á ganginn þrönga til að fínkema hillurnar og fljótlega skapaðist þar algjört stöppuástand, sett saman úr heillandi, innleitnu fólki. Kannski er rétt að taka fram að þrengslin á ganginum fólu ekki í sér stílbrot hvað rúmmál bækistöðva New Directions snerti: hvert rými var níðþröngt og erfitt viðureignar og ég lenti ítrekað í því að hópur þriggja til fjögurra manna á spjalli króaði mig af í óþægilegum stellingum svo að ég festist í prísund bak við blómapott eða varð innlyksa milli veggs og svalahurðar. Líkt og einatt á mannamótum drakk ég hraðar en ég myndi gera ef ég lægi heima í freyðibaði, við kertaljós, og því lyktaði samkvæminu auðvitað með því að ég tók miklu fleiri minjagripi en ætlast var til. (New Directions er nær að gefa út svona margar góðar bækur; ég sá að fjöldamargir aðrir væfluðust einnig um gólf með fangið flengifullt af bókum og áttu í sárustu vandræðum með að pikka út eina. Sjálfsagt jóx hugrekkið með fjölda vínglasa: ég drakk fjögur og tók því fjórar bækur, en hefði betur drukkið átta.) Mig langar að tæpa hér stuttlega á tveimur bókanna sem ég hafði á brott með mér. Aðra hafði ég áður lesið; sú nefnist Written Lives og er ensk þýðing sénísins Margaret Jull Costa á æviágripum ýmissa þekktra rithöfunda, rituðum af Javier Marías. Mig langaði að eignast þessa bók því hún er æðisleg (og mér hefur oft orðið hugsað til hennar síðan ég las hana fyrir mörgum árum): Marías leggur áherslu á skemmtilega skrítna útúrdúra og tiktúrur í ævi og skapgerð viðfangsefna sinna og útkoman er slík að hver höfundur orkar á mann sem grátbrosleg fígúra, ekki síst hinir þekktari, svo sem Hemingway, Nabokov og einkum Kipling. Hinn minjagripinn las ég nú í vikunni: sú bók nefnist Bartleby & Co og er eftir Enrique Vila-Matas, annan spænskan höfund. Fyrir einskæra tilviljun kallast sú bók skemmtilega á við skrásettu lífshlaupin hans Marías: hún fjallar einnig um hina og þessa rithöfunda, nema hvað þemað hér er þögn í bókmenntum, nánar tiltekið ástæða þess að höfundar leggja pennann á hilluna. Titillinn vísar að sjálfsögðu til nóvellu Hermans Melville, Bartleby skrifara, sem kom nýlega út í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, sem ég á eftir að lesa en hyggst tryggja mér eintak þegar ég sæki fósturjörðina heim nú í júlímánuði. Ég gæti svo sem fjallað miklu ýtarlega um allar þessar bækur hér, en „ég kýs það síður,“ og eftirlæt nú þögninni sviðið. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s