Hlekkir, 8. júní 2018

Ég rakst á grein í Village Voice nýlega þar sem eigendur margra skemmtilegustu bókaverslana í New York mæla með góðum bókum í sumarfríið. Margar af mínum bestu stundum hafa verið í búðum eins og Strand og McNally & Jackson í New York og ef þú átt leið þar hjá, lesandi góður, er tíma þínum mun betur varið þar heldur en að mæna á háhýsi og frelsisstyttur.

Nýlega minntist ég á árlegan lista Bill Gates yfir bækur sem hann mælir með í sumarfríið. Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að einhver hafði tekið saman öll bókameðmæli sem hann hefur veitt í gegnum ævina í einni færslu. Þetta er mjög skemmtilegur og fróðlegur leslisti. (KF.)

Hér er skrifað um það vandasama verk að ala upp fjöltyngd börn. Þetta er mér hugleikið þar sem dóttir mín elst upp í ensku málumhverfi, en á franska móður og íslenskan föður. Líkt og endranær virðist besta nálgunin í þessum efnum vera gamla, íslenska leiðarljósið „þetta reddast bara“. (SN.)

Það eru ekki margir sem kunna að skrifa af viti um fjármál og enn færri sem kunna að gera það skemmtilega. Morgan Housel kann hvoru tveggja og ég les yfirleitt allt sem hann birtir á netinu. Þessi nýlegi pistill eftir hann um sálfræðina á bak við fjárfestingar er algjör skyldulesning fyrir þá sem hafa áhuga á fjármálum og virkilega fróðleg og skemmtileg lesning fyrir alla aðra. (KF.)

Fyrir þá sem skilja frönsku: Remedíur við melankólíunni (Remède à la mélancolie), í umsjón Evu Bester, er mjög vandað og skemmtilegt hlaðvarp. Í hverjum þætti fær Eva til sín einn góðan gest og innir hann eftir því hvernig sambandi viðkomandi við sorgina er háttað. Svo biður hún gestinn um að deila með sér og hlustendum fimm mótefnum gegn treganum, svo sem tónlist, bókum, bíómyndum, ferðalögum, mat, vinum, hverju sem er. Þetta er mjög skemmtileg umgjörð fyrir útvarpsþátt. (SN.)

Misnotkun ópíóða virðist vera vaxandi vandamál bæði vestanhafs og hér heima. Í þessari ítarlegu og vönduðu bloggfærslu er vandamálið útskýrt á mannamáli. (KF.)

Í Studs Terkel Radio Archive er aðgengilegt gríðarmikið safn af viðtölum Studs Terkel, goðsagnar í bandarísku útvarpi og eins þekktasta sonar Chicago-borgar. Um er að ræða einstaka fjársjóðskistu og við liggur að hver og einn einasti þjóðþekktur einstaklingur Bandaríkjanna – og eins nafntogað fólk frá fleiri stöðum – hafi rabbað við Terkel á sínum tíma. Örfá dæmi: Hér er yndislegt viðtal við stórleikarann Sidney Poitier. Hér er kornungur Woody Allen í viðtali. Hér rabbar sjálf Simone de Beauvoir við Terkel í íbúð sinni í Parísarborg, með sterkum og sjarmerandi frönskum hreim. Hér er James Baldwin, einn mesti rithöfundur Bandaríkjanna á tuttustu öld. Og svo leynast þarna pólitíkusar og margs kyns töffarar – það vantar bara Al Capone. Þetta er magnaður brunnur og stórmerkilegur sögulega séð, og fer safnið sífellt stækkandi. Enn á eftir að setja þar inn margvíslegt efni, til að mynda hljóðupptöku sem mögulega geymir fyrsta útvarpsviðtal Bobs Dylan, sem þá var 23 ára gamall. (Hlusta má á það á YouTube, samanber hlekkinn.) Mjög auðvelt að festast þarna með Terkel!

Hér er svo bandaríski höfundurinn David Foster Wallace (blessuð sé minning hans) í gömlu viðtali sem rak á fjörur mínar nýlega og birtist fyrst árið 2003 í The Believer. Sá sem rabbar við Wallace er Íslandsvinurinn og kollegi hans, Dave Eggers. Wallace veitir frábært svar um stöðu stjórnmála í dag og mikilvægri (empatískra) skrifa skáldsagnahöfunda um þau. Hann veltir upp nokkru sem ég tel einmitt að geri skáldsögur svo mikilvægar: á síðum þeirra er mögulegt að setja fram tvö (eða fleiri) sjónarhorn og láta þau vegast á, og engin nauðsyn að taka afdráttarlausa afstöðu ólíkt því sem gerist í dálkum dagblaða/vefmiðla og á öllum krúttlegu samfélagsmiðlasíðunum okkar. Þessi orð féllu fyrir daga samfélagsmiðlanna en Wallace gæti þó allt eins verið að lýsa okkar tímum (og sjálfsagt bara öllum tímum?): “As of 2003, the rhetoric of the enterprise is fucked. 95 percent of political commentary, whether spoken or written, is now polluted by the very politics it’s supposed to be about. Meaning it’s become totally ideological and reductive: The writer/speaker has certain political convictions or affiliations, and proceeds to filter all reality and spin all assertion according to those convictions and loyalties. Everybody’s pissed off and exasperated and impervious to argument from any other side. Opposing viewpoints are not just incorrect but contemptible, corrupt, evil. […] There’s no more complex, messy, community-wide argument (or “dialogue”); political discourse is now a formulaic matter of preaching to one’s own choir and demonizing the opposition. Everything’s relentlessly black-and-whitened.” (SN.)

Fann þessa stuttu og áhugaverðu grein um lestrarvenjur Theodore Roosevelt, fyrrum bandaríkjaforseta. Í henni kemur fram að hann hafi jafnan lesið eina bók fyrir morgunmat og svolgrað í sig tvær eða þrjár til viðbótar um kvöldmatarleytið. Einnig er þar birtur listi af bókum sem hann mælir með í bréfi til vinar síns. Það vakti sérstaka athygli mína að á listanum var að finna Heimskringlu Snorra Sturlusonar, Brennu-Njáls sögu og Gísla sögu Súrssonar! (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s