Ráðunautur Leslistans: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

IMG_20180530_190500_078

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason hlaut nýlega nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta til útgáfu ljóðabókarinnar Gangverk. Hann stundar nám í ritlist við Háskóla Íslands og því virðist ýmislegt benda til þess að hann hiki ekki við að lesa bækur. Sverrir tók hann tali fyrir hönd Leslistans.

Hæ, Þorvaldur! Og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Segðu mér, er það satt og rétt að þú lesir, auk þess að skrifa, bækur? Og ef svo skemmtilega vill til, hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Sæll, og takk fyrir að bjóða mér að vera með í þessu skemmtilega framtaki! Það vill einmitt svo til að ég les nokkuð mikið af bókum auk þess sem ég skrifa eitt og annað þess á milli. Ég er með mjög mikinn athyglisbrest hvað lestur varðar og er yfirleitt að lesa nokkrar bækur í einu. Þessa stundina er ég að reyna að klára Lincoln in the Bardo eftir George Saunders auk þess sem ég er að endurlesa allar Tinnabækurnar í útgáfuröð. Markmiðið mitt á þessu ári er að lesa 10 bækur á mánuði, eða 120 bækur samtals, en ég svindla kannski aðeins með því að lesa mjög mikið af stuttum bókum, svo sem ljóðabókum. Þá finnst mér mjög þægilegt að fylgjast með lestrinum mínum með því að nota síðuna Goodreads auk þess sem hún er mjög góð til að uppgötva nýjar og spennandi bækur.

Gott markmið! En hentu Lincoln in the Bardo út í sjó og lestu frekar smásögurnar eftir Saunders (sem þú hefur kannski þegar gert?), einkumTenth of December, hún er frábær. En nóg um það: Maður eins og þú, með svona rosalegt 120 bóka-ársmarkmið, nær hann einnig að lesa netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Ég fylgist mest með breskum og bandarískum netmiðlum og þá aðallega The GuardianVoxAJ+ og The New Yorker. Einnig hef ég gaman af nördasíðum eins og The A.V. Club og Atlas Obscura.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les helst á íslensku og ensku en hef einnig verið að reyna að læra frönsku síðan í menntaskóla (með misgóðum árangri) og hef spreytt mig á því að lesa myndasögur og ljóð á því tungumáli.

Heyrðu, þá mæli ég með Joann Sfar (einkum Les carnets, sem eru meðal uppáhaldsbókanna minna) og Camille Jourdy (sérstaklega Rosalie Blum) ef þú vilt lesa frábærar, franskar myndasögur! Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Áhugaverðustu þættirnir sem ég hef hlustað á nýlega eru Tinnaþættirnir hans Gísla Marteins á RÚV og hlaðvarpið Dissect eftir Bandaríkjamanninn Cole Cuchna. Hver sería þáttaraðarinnar er tileinkuð einni hip-hop plötu og í hverjum þætti er eitt lag tekið fyrir. Ég kláraði nýlega fyrstu seríuna þar sem plata Kendrick Lamar, To Pimp a Butterfly er tekin fyrir og var að byrja að hlusta á aðra seríu sem er tileinkuð My Beautiful Dark Twisted Fantasy eftir Kanye West. Lögin eru greind út frá bæði textunum og tónlistinni, með hliðsjón af tónlistarlegu, menningarsögulegu og pólitísku samhengi, ég hef sjaldan heyrt jafn vandaða og ítarlega tónlistarumfjöllun. Þá hef ég líka verið að fylgjast með nýju hlaðvarpsstöðinni RÚV Núll en ég verð sjálfur með bókmenntaþátt þar í sumar.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Mér líður stundum eins og allar þær bækur sem höfðu hvað mest áhrif á mig hafi ég lesið á milli sextán og tvítugs en það er kannski bara sá aldur sem maður er hvað mest móttækilegur fyrir utanaðkomandi áhrifum. Pólska ljóðskáldið Adam Zagajewski hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér undanfarin ár frá því ég uppgötvaði skrif hans í ljóðasafninu Undir vernd stjarna sem Jón Kalman tók saman og þýddi. Prósahöfundar sem eru í uppáhaldi hjá mér eru m.a. Jorge Luis Borges, H.P. Lovecraft, Halldór Laxness og Andri Snær Magnason.

Sammála, þýðingar Kalmans voru flottar, hann ætti að gefa út heila bók með þýðingum á Zagajewski. En hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra? Hefurðu sofnað yfir bók í baðkari eða öðrum viðlíka lífshættulegum aðstæðum?

Mér finnst best að halla mér aftur í sófa eða rúminu mínu þegar ég les. Ég get auðveldlega skrifað á háværum kaffihúsum innan um fjölda fólks en þegar ég les vil ég helst vera einn í fullkomnu næði. Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tíman sofnað yfir bók nema þá kannski í æsku minni þegar mamma las fyrir mig fyrir svefninn.

Nei, þú ert kannski meira fyrir að sofna yfir bíómyndum eða jafnvel í leikhúsinu? En hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Ætli það séu ekki Harry Potter bækurnar eins og hjá svo mörgum af minni kynslóð og Hringadróttinssaga Tolkiens þar fast á eftir. Ég las einnig mjög mikið af myndasögum sem unglingur sem höfðu mikil áhrif á mig, má þar helst nefna Fables eftir Bill Willingham, The Sandman eftir Neil Gaiman og Hellboy eftir Mike Mignola.

Vildirðu stundum óska þess að manneskjur væru eins og bækur: hægt að opna þær eftir vild og hentisemi og svo loka þeim aftur þegar þær byrja að fara í taugarnar á manni?

Nei, eiginlega ekki, því ég á mjög erfitt með að hætta að lesa bækur jafnvel þó þær fari í taugarnar á mér og ef fólk væri eins og bækur þá myndi ég sennilega aldrei losna við leiðinlegt fólk.

Sumir segja að það sé þroskandi að umgangast leiðinlegt fólk, en sjálfur er ég ekki sannfærður. Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Síðustu mánuði hef ég ítrekað mælt með ljóðabókinni Slitförin eftir Fríðu Ísberg. Ég er kannski ekki alveg hlutlægur enda er Fríða góð vinkona mín en mér þykir bókin alveg frábær og hef bæði gefið hana í gjafir og mælt með henni við ýmsa aðila.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Já, og það er mikið vandamál. Ef ég byrja á bók þá finnst mér ég hreinlega vera skuldbundinn að klára hana sem veldur því að bækur sem ég er ekkert sérstaklega hrifinn af eða finnst hreinlega leiðinlegar eiga það til að hanga yfir mér svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir. Ein slík bók var hið svokallaða meistaraverk Moby Dick. Mér fannst byrjunin á bókinni alveg frábær og enn þann dag í dag er hún ein eftirminnilegasta byrjun á bók sem ég hef lesið, en með hverjum kafla varð hún sífellt leiðinlegri og langdregnari. Það tók mig tæpt ár að klára bókina og síðustu mánuðina var mér farin að þykja hún svo drepleiðinleg að ég nánast haturlas hana.

Hvers konar bók langar þig að skrifa næst? Lastu eitthvað sérstakt nýlega sem ýtti þér í þá átt?

Mig langar til að skrifa skáldsögu fyrir fullorðna byggða á tímabili í lífi mínu þegar ég dvaldi í Berlín um nokkurra mánaða skeið. Mér finnst mjög áhugavert að vinna með mörkin á milli skáldskapar og raunveruleika og hvernig þau skarast sífellt meir í lífi fólks nú þegar samfélagsmiðlar eru orðnir að alltumlykjandi hlut í lífi okkar. Síðasta stóra verkefnið mitt var líka skáldsaga fyrir unglinga og því finnst mér næsta lógíska skref vera að reyna að skrifa eina fyrir fullorðna. Á eftir því langar mig svo að skrifa post-apocalyptic fantasíuþríleik fyrir ungt fólk. Ég fékk mikinn áhuga á heimsendabókmenntum eftir að hafa tekið áfanga hjá Guðna Elíssyni sem kallaðist Endalokanámskeiðið þar sem slíkar bækur voru skoðaðar í samhengi við pólitíska umræðu samtímans.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Sú sem er næst í röðinni á náttborðinu mínu er bókin Hljóð Bók sem gefin var út af samnemendum mínum í ritlist. Bókin er safnrit með efni eftir tólf höfunda og þemað í bókinni eru textar sem eru innblásnir af eða tengjast á einhvern hátt hljóði.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s