Bækur, 15. júní 2018

Ég hef verið býsna heppinn í vali mínu á bókum undanfarið, einkum hvað varðar skáldsögur. Í vikunni las ég bók sem snart mig djúpt: T. Singer eftir norska höfundinn Dag Solstad. Aðalpersóna bókarinnar er ósköp venjulegur og raunar fremur látlaus norskur bókasafnsfræðingur sem fer nokkuð hljóðlega í gegnum lífið. Á tímum veltir maður því fyrir sér hvort Singer sé nógu áhugaverður til að verðskulda heila bók um sig –– en einmitt þar liggur svo, þegar upp er staðið, styrkur bókarinnar. Hversu margir menn eins og Singer eru ekki til í heiminum? Menn sem lifa lífi sínu í kyrrlátum einmanaleika. Solstad fer meistaralega með söguefnið og tekst á afar sannfærandi hátt að draga af þolinmæði upp mynd af ævi venjulegs manns yfir heilu áratugina. Slíkt er að mínu viti ein stærsta áskorun sem skáldsagnahöfundur getur tekist á við: að fylgja persónu hægt og bítandi í gegnum árin, eitt af öðru, og veita þar með tilfinningu fyrir framgangi, og miskunnarleysi, tímans. Ég hafði áður lesið Professor Anderson’s Night eftir sama höfund –– um 55 ára prófessor sem verður vitni að morði en vanrækir að hafa samband við lögregluna –– og fannst sú góð en ekki jafn hrífandi og þessi. Mun án vafa lesa fleiri bækur eftir Solstad á næstunni. (SN.)

Í síðustu viku minntist ég á ágætis þumalputtareglu við lestur – að lesa aldrei bækur sem maður myndi ekki lesa tvisvar. Ég las eina bók í vikunni sem ég er alveg handviss um að ég mun lesa aftur. Það er bókin Scale – The Universal Laws of Growth, Innovation, Sustainability, and the Pace of Life in Organisms, Cities, Economies, and Companies eftir eðlisfræðinginn Geoffrey West. Sú kom út fyrir rétt rúmu ári síðan, en ég hef heyrt mikið mælt með henni frá því að hún kom út. Bókin fjallar í örstuttu máli um lögmál skölunar, sem snúast í mjög einfaldaðri mynd um hvernig kerfi bregðast við þegar þau stækka. West útskýrir hvernig þessi lögmál tengja saman ólík viðfangsefni á borð við eðlisfræði, líffræði, borgarskipulag, fyrirtækjarekstur og margt fleira. Ég lærði heilmikið af þessari bók, enda nær hún að útskýra flókin fyrirbæri á mannamáli og höfundurinn tekur skemmtileg dæmi um allt milli himins og jarðar til að skýra mál sitt. Hún minnir mig að mörgu leyti á tvær bækur sem ég hef áður haft hér til umfjöllunar: New Science eftir Stephen Wolfram og Why Information Grows eftir Cesar Hidalgo. Allt eru þetta höfundar sem notfæra sér tungumál eðlisfræðinnar til að gera flókna hluti skýra og aðgengilega. Bókin er þó ekki gallalaus. Mér fannst hann á köflum ganga of langt í að nota lögmál skölunar til að útskýra flókin fyrirbæri eins og skipulag og þróun borga. Þessi bókadómur í New York Review of Books fer aðeins dýpra í þá gagnrýni og greinir efni bókarinnar líka töluvert betur en ég gæti nokkurn tímann gert. Áhugasamir geta byrjað á að kíkja á þennan fína TED fyrirlestur eftir höfundinn þar sem hann fjallar um efni nokkurra kafla í bókinni og svo þennan lengri fyrirlestur hjá Google þar sem hann fjallar um bókina í heild sinni. En ekkert er betra en bókin sjálf að sjálfsögðu. (KF.)

Plís, vertu tilgerðarleg/ur! Gerðu eitthvað öðruvísi. Það er háskalegra að lesa þykka bók en góna bara á skjáinn. Sýndu dug, djörfung og þor – klæddu þig til dæmis í óreimaða leðurklossa. Sveiflaðu spjátrungslegri regnhlíf í hringi! Notaðu orð á borð við einkanlega, fàgætis, trauðla og et cetera. Allt nema vera dæmigerður kraftkapítalisma-konformisti! Bókin Pretentiousness: Why It Matters eftir Dan Fox fannst mér skemmtileg, og tímabær. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s