Ráðunautur Leslistans: Kristín Svava Tómasdóttir

damn it feels good

Kristín Svava Tómasdóttir er sagnfræðingur og rithöfundur. Hún hefur gefið út fjórar ljóðabækur, nú síðast Stormviðvörun (2015). Nýlega heiðraði hún höfuðstöðvar Leslistans með nærveru sinni og spjallaði við Sverri.

Hæ, Kristín Svava! Takk fyrir að ganga í hið ört stækkandi ráðuneyti Leslistans.

Takk fyrir að bjóða mér!

Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Af lestri mínum á bókabloggsíðum veit ég að það er enginn menningarmaður með mönnum sem er ekki að glugga í einhverjar spennandi óútkomnar bækur. Ég er því ánægð með að geta sagst vera nýbúin með eina slíka bók, sem er eftir vinkonu mína og kemur út í haust. Hún fjallar um svefnleysi, kjarnorkuslys og beinagrindur í skápum og er stórskemmtileg. Samhliða henni hef ég verið að lesa fína ljóðabók frá 2016 eftir kanadíska skáldið Suzanne Buffam, A Pillow Book (en bókin vísar mjög til frægrar koddabókar japönsku 10. aldar hirðmeyjarinnar Shei Shonagon), sem ég komst að því að fjallar líka um svefnleysi. Hún inniheldur meðal annars mörg ljóð sem eru sett upp sem einhvers konar listar, en það er form sem ég hef mjög gaman af. Það er skemmst frá því að segja að þau kvöld sem ég hef legið í þessum tveimur bókum hef ég undantekningalaust bylt mér andvaka í kjölfarið, sem er annars ólíkt mér.

Ég er síðan að byrja á skáldsögunni The Tremor of Forgery eftir Patriciu Higshmith, sem fjallar um bandarískan rithöfund sem fer til Túnis til að skrifa kvikmyndahandrit. Ég las (frekar slappa) ævisögu Highsmith í byrjun árs og hef haft það á dagskránni að lesa fleiri bækur eftir hana. Ég er svo veik fyrir þessum úrkynjuðu amerísku expattasamfélögum við Miðjarðarhafið að lýsingin á The Tremor of Forgery kveikti strax í mér. Heimurinn hefur aftur á móti staðið í vegi fyrir lestri mínum á henni. Ég hafði háleit plön um það um helgina, að loknum löngum vinnudegi og lýjandi samskiptum við túrista með víkingaþráhyggju sem halda að Íslendingar noti enn rúnastafróf, að leggjast í freyðibað með Patriciu Higshmith og rauðvínsglas, eins og rómantísk klisja um hina lesandi konu. Þar sem ég hjólaði heim úr vinnunni í ausandi rigningu varð ég hins vegar fyrir því skelfilega áfalli að uppgötva að rauðvínsflaskan hafði brotnað í töskunni í hjólakörfunni og á eftir mér lá slóð af rauðvíni gegnum miðbæ Reykjavíkur, eins og sérlega dekadent útgáfa af Hans og Grétu. Ég neyddist til að fiska bókina upp úr töskunni og stinga ofan í bakpoka hjá vinkonu minni sem varð mér samferða, svo ég kom heim bókar- og rauðvínslaus. Þegar mér tókst loksins að byrja á bókinni rauðvínsblettóttri daginn eftir leist mér hins vegar mjög vel á hana og ég hlakka til að halda áfram með hana.

Þetta er nú meiri raunasagan! Kannski er ljótt af mér að viðurkenna það, í þessu samhengi, en ég fullnægði einmitt hinni rómantísku klisju um hina lesandi konu – eða öllu heldur hinn lesandi karl – og lá eins og úrvinda selur með rauðvínsglas í baðkari fyrir tæpri viku og lauk við bók. En áfram með smjörið: Lestu öðruvísi þegar þú ert sjálf að vinna að bók? Ertu kannski alltaf að vinna að bók?

Ég er alltaf eitthvað að skrifa, þótt það sé ekki endilega ljóst hver útkoman verður, og ég held að velflest sem ég les hafi einhver áhrif á mig, meðvituð eða ómeðvituð. Ég hef hins vegar orðið eftirtektarsamari og íhugulli lesandi eftir að ég byrjaði að halda lestrardagbók á síðasta ári. Ég skrifa niður allar bækur sem ég les og einhverja svolitla hugleiðingu um þær. Það auðveldar manni að henda reiður á hugsunum sínum um tilteknar bækur og það er hægt að leita í það seinna, læra af því, taka aftur upp þráðinn í öðru samhengi. Svo hleypir það líka í mig kappi við lesturinn. Ég mæli eindregið með þessu!

Já, hljómar stórvel: Leslistinn er einmitt byggður á svipaðri hugmynd! Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð?

Ég les Starafugl og menningarsíður RÚV reglulega og svo hitt og þetta sem fólk deilir á samfélagsmiðlum. Annars er ég ekki nógu dugleg að lesa menningarumræðuna, sérstaklega þá erlendu, og veit upp á mig skömmina.

Nei, nei, hunsa bara allt þetta þvaður. Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les langmest á íslensku og ensku. Ef bækur eru á annað borð til á íslensku vil ég helst lesa þær á íslensku. Annars er enskan þægileg og ég er þakklát fyrir að hafa aðgang að slíku alþjóðamáli. Ég les líka spænsku og portúgölsku og reyni að lesa reglulega bækur á þeim málum til að halda kunnáttunni við og kynnast einhverju nýju.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Ég er einkum og aðallega dyggur hlustandi Ríkisútvarpsins. Ég á ekki snjallsíma og hlusta þess vegna ekki á útvarpið á götum úti, en þegar ég er heima hjá mér að elda eða þrífa eða púsla eða brjóta saman þvott er ég iðulega með eitthvað gott stöff á Rás 1 í gangi. Ég er ákafur aðdáandi Veru Illugadóttur og þátta hennar Í ljósi sögunnar, en svo hlusta ég líka á Víðsjá og Lestina og alls konar menningar- og sögutengda þætti. Það langbesta við þetta yfirþyrmandi fullveldisafmæli eru til dæmis R1918-þættirnir sem eru því miður að renna sitt skeið – algjörlega frábært konsept.

Púslarðu mikið?

Nei, reyndar ekki, en það er eitthvað við púsl sem eru jafnframt landakort sem höfðar til mín. Ég er að klára eitt risastórt af Íslandi, er að vinna í hálendinu og uppgötva ýmsa nýja staði.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Ég veigra mér við að nefna eftirlætishöfunda, sérstaklega útlenda, af því að mér finnst alltaf eins og ég þurfi að hafa svo yfirgripsmikla þekkingu á massívum höfundaverkum þeirra. Ég gæti nefnt ljóðskáld eins og Fernando Pessoa og Carlos Drummond de Andrade. Þetta er auðveldara í íslensku samhengi – þar myndi ég nefna til dæmis Braga Ólafsson, Ísak Harðarson, Kristínu Ómarsdóttur … og miklu fleiri. Ég á mér hins vegar heilan helling af eftirlætisbókum og sá listi er sífellt í endurnýjun. Uppáhaldsbókin mín sem ég las í fyrra var til dæmis Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur, en ég er líka nýbúin að vera að fletta í uppáhaldsbókunum Tómasi Jónssyni, metsölubók eftir Guðberg Bergsson og Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Mér finnst mjög gott að lesa liggjandi uppi í sófa, hvort sem það er heima hjá öðrum eða heima hjá mér. Ég er tiltölulega nýbúin að eignast sófa og er enn að furða mig á því hvað hann er þægilegur. Mér finnst samt líka gott að lesa og vinna á kaffihúsum, innan um fólk og skvaldur. Það er eitthvað svo notalegt við að hafa iðandi mannlíf innan seilingar, án þess að það sé að kássast upp á mann.

Það er mikill lúxus að eiga góðan sófa. En áttu náttborð?

Já, ég á afar glæsilegt gamalt rúm með áföstum náttborðum og hillu undir hvoru náttborði. Ég er yfirleitt með eina eða tvær bækur á náttborðinu. Gangi lesturinn hægt hafa þær tilhneigingu til að færast niður í hilluna fyrir neðan og þar safnast upp bækur sem ég á erfitt með að klára. Einhvern daginn þarf ég til dæmis að drífa í að ljúka við Bluets eftir Maggie Nelson, sem er búin að bíða á náttborðshillunni síðan einhvern tímann í fyrra. Ég var orðin eitthvað hálfþreytt á þessum stefnulausu ljóðrænu vangaveltum um bláan.

Hefurðu gleymt þér við lestur í strætó og rankað við þér á rangri stoppistöð, komin alltof langt út í buskann, jafnvel lengst út í sveit?

Nei, ég er alltof þjökuð af borgaralegri samviskusemi til að missa af stoppistöðvum.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Líklega Andrabækur Péturs Gunnarssonar. Punktur, punktur, komma, strik, Ég um mig frá mér til mín og Persónur og leikendur voru uppáhaldsbækurnar mínar frá því ég var svona tólf ára og þar til ég var komin í menntaskóla. Ég las þær svo oft að ég held djóklaust að ég hefði getað þulið þær frá upphafi til enda.

Stundum finnst mér Andrabækurnar vera bókmenntaleg hliðstæða The Simpsons í lífi mínu – það er svo margt í menningarsögunni sem ég kynntist gegnum þær og mun eilíflega sjá í því ljósi. Rétt eins og það er Ned Flanders en ekki Marlon Brando sem er andlit aðalkarlpersónunnar í A Streetcar Named Desire fyrir mér mun ég alltaf sjá Halldór Laxness – hlaupandi upp landganginn á Gullfossi í jarðeplagulu sokkunum – gegnum spegil menntaskólapiltsins Andra, með hlýlega íronísku sjónarhorni rithöfundarins Péturs Gunnarssonar.

Já, mér finnst satt að segja að þjóðin ætti að sæma Pétur Gunnarsson einhvers konar riddaratign. Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ég er alltaf að mæla með einhverjum bókum – kannski oftast íslenskum klassíkerum eins og Hvunndagshetjunni eftir Auði Haralds og 90 sýni úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen. Ég gef yfirleitt ekki sömu bækurnar oftar en einu sinni heldur gef ég þær bækur sem eru mér efst í huga, annaðhvort af því að ég er nýbúin að lesa þær sjálf eða af því að ég held að viðkomandi þiggjandi myndi hafa sérstaka ánægju af þeim. Síðustu tvær bækur sem ég gaf fékk til dæmis litla systir mín og þær tilheyrðu flokknum „F-in tvö“, sem allar bækur sem ég gef henni tilheyra: „femínismi“ og „fornöldin“ (af því að hún er nýútskrifuð af fornmálabraut í MR). Sú fyrri var Women and Power. A Manifesto eftir snillinginn Mary Beard og sú seinni The Power eftir Naomi Alderman, sem ég var sjálf nýbúin að lesa og fannst skemmtileg.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Ég gef bókum yfirleitt svona fimmtíu síður í fyrstu atrennu (ég vil helst ekki að bækur séu lengri en tvö- eða þrjúhundruð síður, ég er svo löt týpa). Ef ég hef ekki kveikt á þeim þá legg ég þær frá mér. Þannig fór til dæmis um fyrstu Napólíbókina eftir Elenu Ferrante, og ég hef ekki nennt að lesa neitt eftir hana síðan. En ef ég held áfram og les fram yfir þessar fimmtíu síður eða svo, þá finnst mér ég hafa skuldbundið mig til að klára bókina.

Áttu þér eitthvert ljóðskáld – eða annan listamann – sem gefur þér alltaf orku og innblástur til að skrifa?

Sérlega góðir og sérlega vondir höfundar hafa jafnan, hvor hópurinn á sinn hátt, reynst mér hvetjandi fyrirmyndir.  

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Ég er með góðan bunka af bókum sem ég keypti mér í Bandaríkjunum í vor – ó, hvað útlenskar bókabúðir eru stórkostlegar! Þar eru ljóðabækur sem ég er spennt fyrir, eins og Night Sky with Exit Wounds eftir Ocean Vuong sem bókmenntalega sinnað fólk segir mér að sé all the rage, og Zong! eftir M. NourbeSe Philip, sem er ljóðræn úrvinnsla á sögulegri heimild um skelfilegan glæp og mér finnst mjög áhugaverð.  Svo var ég að fá nýjustu bókina í hinum frábæra þýðingaklúbbi Angústúru inn um lúguna, Sæluvímu eftir Lily King, og finnst ekki ólíklegt að hún verði næsta skáldsaga sem ég les.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s