Bækur, 22. júní 2018

Í You Can’t Catch Death; a daughter’s memoir fjallar Ianthe Brautigan um föður sinn, rithöfundinn Richard Brautigan, sem á sér ágætis aðdáaendahóp á Íslandi og hefur meðal annars komið út í þýðingum Gyrðis Elíassonar. Brautigan var einn eftirlætishöfunda minna á unglingsárunum, þá las ég hvert einasta snifsi sem ég komst yfir eftir hann. Uppáhaldsbókin var The Revenge of the Lawn, eina útgefna smásagnasafnið hans; ég hef örugglega lesið hana tólf sinnum. Unnendur Brautigan munu hafa gaman af þessari bók. Ianthe skrifar í dálítið svipuðum stíl og faðir hennar gerði, kaflarnir eru oftast knappir og ljóðrænir, í senn fyndnir og sorglegir –– grátbroslegir. Falleg bók, að vísu svolítið brokkgeng, og myndin sem hún dregur upp af föður sínum, sem var afar kvalinn og erfiður maður, í senn hrífandi og raunaleg. Ég á svo uppi í hillu aðra ævisögu um Brautigan, eftir William Hjortsberg, Jubilee Hitchiker, tröllaukinn 800 blaðsíðna doðrant sem ég fékk senda með þyrlu í pósti og er, svo kaldhæðnislega sem það hljómar, eins konar antítesa hinna stuttu, ljóðrænu bóka höfundarins sjálfs: Hjortsberg telur upp hvert einasta líkþorn í móðurætt, lýsir hverri freknu í föðurætt. Galin bók –– mjög vel skrifuð en ég mun örugglega aldrei lesa hana alla. Aðdáendur Brautigan hafa þó eflaust einnig gaman af því að kíkja í hana. (SN.)

Kindilappið í símanum mínum er bæði mikil blessun og böl. Það gerir mér kleift að lesa nánast hvar sem er og hvenær sem er auk þess sem ég get hlaðið niður miklu úrvali bóka án nokkurrar fyrirhafnar. Það truflar mig samt hvað ég á erfitt með að leggja á minnið það sem ég les á skjá og það dregur mikið úr upplifuninni að geta ekki handleikið og þefað af bókunum. Ég fann semsagt áþreifanlega fyrir þessum mun þegar ég las bókina Only the Paranoid Survive eftir Andy Grove, fyrrum stjórnanda Intel. Þetta er virkilega vönduð bók sem fjallar með beinskeyttum hætti um hvernig stjórnendur eiga að sigla í gegnum breytingaskeið í rekstri. Ég þaut í gegnum hana í kindilappinu og hafði mjög gaman af henni. Áður hafði ég lesið aðra bók eftir hana sem heitir High Output Management og fjallar um svipuð mál nema að hann fer yfir víðari völl. Hana las ég á prentuðu formi fyrir ári síðan og hún situr einhvern veginn fastar í hausnum á mér en rafbókin sem ég kláraði í fyrradag. Ég mæli með báðum bókunum og kannski sérstaklega þeirri fyrri vegna þess að hún á mikið erindi við nútímamanninn og þær öru breytingar sem eru að verða í vinnuumhverfi okkar allra. Bókin er skrifuð fyrir um 20 árum síðan og þótt hún fjalli um tæknigeirann þá er hún langt frá því að vera úrelt. (KF.)

Ég er hálfnaður í  gegnum Bullshit Jobs; a Theory spánýja bók eftir David Graeber, og það einhverja tímabærustu bók síðustu ára. Kannski meira um það síðar — þangað til gef ég Halldóri Armand orðið, í fínum pistli í Lestinni.

Og af því að Færeyjar bar á góma hér að ofan: Mér verður hugsað til frábærrar bókar sem kom út hjá Menningarsjóði árið 1967 og geymir einhverja fallegustu og ríkustu íslensku sem ég hef lesið –– Eyjarnar 18 eftir Hannes Pétursson. Sú lýsir ferð skáldsins til Færeyja árið 1965. Gott að glugga í hana í hálfleik! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s