Ráðunautur Leslistans: Fríða Ísberg

fridaisberg

Ljósmynd: Saga Sigurðardóttir

Fríða Ísberg gaf á síðasta ári út ljóðabókina Slitförin og hlaut fyrir hana aldeilis góð viðbrögð. Hún hefur einnig meðal annars gefið út hlaðvarpið Póetrý Gó og skrifað fyrir The Times Literary Supplement, og þá er hún hluti af skáldahópnum Svikaskáld.

Hæ, Fríða! Og hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans, það gleður okkur að fá þig í hópinn. Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Sæll Sverrir! Takk fyrir að bjóða mér í hópinn. Ég var að ljúka við að lesa Okkar á milli eftir hina írsku, 26 ára Sally Rooney, í bland við Sögu Ástu eftir Jón Kalman. Ég man ekki hvenær ég gerði þetta síðast, að sikksakka svona á milli, en þetta var gaman. Þau mynduðu skemmtilegt dínamískt dúó, hið eilífa og hið stundlega, dauðinn og tölvupóstar.

Já og svo las ég þar áður fína skáldsögu eftir Sigrid Nunez sem heiti The Friend, hún er aðallega góð því hún fjallar svo mikið um skrif, sjálfsefann og bara skömm rithöfundarins, að finnast hann eiga erindi við heiminn – sögumaðurinn er rithöfundur sem missir besta vin sinn og fyrrum ritlistarkennara, en sá fellur fyrir eigin hendi og lætur henni eftir hundinn sinn, Stóra Dan.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Já, já. Ég svindla reyndar aðeins, notast við fréttavef sem kallast Lit Hub, hægt er að gerast áskrifandi að fréttablaðinu Lit Hub Daily eða Weekly, ókeypis. Þetta er í rauninni sama fúnktíón og Leslistinn, eins konar samantekt, bendir konu á hverjum degi/viku á nýjar greinar, sögur, ljóð sem hægt er að lesa á netinu. Í gær t.d. beindi Lib Hub mér á smásöguna Snake Stories eftir Lauren Groff sem kom á Iceland Writers Retreat í ár, úr nýja safninu hennar Florida. Annars les ég mest efni frá TLS og New Yorker, og svo Tímarit Máls og Menningar auðvitað.  

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ensku og íslensku.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Núna er ég að hlusta á allt frábæra stöffið sem var að detta inn á Rúv Núll. Femíníska hlaðvarpið Smá pláss í umsjón Sunnu Axelsdóttur og Elínar Elísabetar Einarsdóttur og Ástin í umsjón Nínu Hjálmarsdóttur. Tómas maðurinn minn setur svo á tónlistarhlaðvarpið Cocaine & Rhinestones þegar við erum að elda, sem fjallar um míkróþemu innan bandarískrar kántrítónlistar. Svo myndi ég vilja nefna Fiction Podcast á The New Yorker, þar sem höfundar lesa upp smásögur eftir aðra höfunda og ræða svo um skáldskapinn.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund? Var jafnvel einhver einn höfundur, eða ein bók, sem blés þér á sínum tíma anda í brjóst og fékk þig til að vilja skrifa?

Ég á svolítið erfitt með þessa spurningu. Má ég segja pass?

Hér má segja allt sem manni dettur í hug. Hefurðu einhvern tímann, líkt og ein gömul vinkona mín, lesið bók á reiðhjóli og rankað við þér með gat á hausnum?

Ég hef rankað við mér á reiðhjóli eftir að hafa lesið bók sem var með gat á hausnum.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Harry Potter. Bara svona út frá siðagildum, frekar en bókmenntum. Mín kynslóð er gjörsamlega gegndrepa af þrælasiðferðinu þaðan. Að trúa á hinn veika, hjálpa þeim sem minna mega sín. Dobby, Neville Longbottom, Luna Lovegood. Að vera aumingjagóður, að leggja ekki í einelti, að vera næs. Já, eða með öðrum orðum, samkennd.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur hugsa ég.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Núna þarf ég að klára bækurnar því ég er með hundrað bóka áskorun á Goodreads í ár. Annars er mottóið að lesa ekki bækur sem fá mig ekki til þess að lesa.

Hvers konar bók langar þig að skrifa næst?

Ég hef ekki grænan grun. Ég var að enda við að skila af mér handriti svo að í þessum haus er blankalogn og blæs ekki í neina sérstaka átt.

Var einhver einn höfundur, eða jafnvel ein bók, sem blés þér á sínum tíma anda í brjóst og fékk þig til að vilja skrifa?

Ef svo er þá man ég ekki eftir því. En ég man svosem heldur ekki eftir því hvenær ég byrjaði að skrifa. Kannski var þetta bara öfugt, ég ákvað að vilja skrifa og fór svo að lesa bækur? Mér dettur eiginlega bara í hug barnalög, Krummi svaf í Klettagjá og Malakoff, eitthvað slíkt. Ég samdi svolítið af vísum um skólalífið þegar ég var lítil.

Svo er það kannski önnur spurning, en allar góðar bækur fá mig til að vilja skrifa.

Heldurðu að við séum smátt og smátt að fórna heilunum í okkur, og jafnvel mennskunni, á altari tækninnar? Verður smám saman erfiðara að skrifa skáldskap og sjá tilgang með því, í framtíðinni, eða fylgja bókmenntir –– sögur, ljóð, orðsnilld –– alltaf mannkyninu?

Er þetta ekki bara eins og Mátturinn í Stjörnustríði? Ef það er disturbance í The Force þá mun hann reyna að vega upp á móti því sem vantar. Ef það vantar mennsku þá mun fólk reyna að skapa pláss fyrir hana – og bækur eru svolítil mennska út af fyrir sig, á gervihnattaöld.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Ég er orðin svo spennt fyrir Lauren Groff, var að fá Delicate Edible Birds í hendurnar í dag, sem er smásagnasafn, en svo langar mig líka að lesa nýja safnið hennar Florida.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s