Bækur, 29. júní 2018

Það var í alla staða frekar absúrd reynsla að lesa Heather, the Totality, eftir Matthew Weiner. Höfundur þessarar örstuttu skáldsögu, ef skáldsögu skyldi kalla, er jafnframt maðurinn á bak við Mad Men-þættina vinsælu. Bókin, sem er örþunn, skrifuð í stuttum klausum sem brotnar eru upp með löngu bili, er ekki nema rétt rúmar hundrað blaðsíður og það virkar hálf-rausnarlegt að kalla hana skáldsögu; þetta er löng smásaga (eða kannski frekar „storyboard“ fyrir bíómynd?). Aftan á bókarkápu mæra þekktir listamenn verkið, meðal annars James Ellroy, Michael Chabon, Philip Pullman, Claire Messud og Nick Cave (sjálfsagt allt vinir Weiners?). Aftast eru svo þrjár síður helgaðar „þökkum“, þar sem höfundurinn þakkar samtals 65 nafngreindum manneskjum fyrir hjálpina við skrifin, auk allra hinna „sem eru of mörg til að telja upp“. Allt í allt samsvarar blaðsíðufjöldi bókarinnar því nokkurn veginn aðstoðar- og stuðningssveit höfundarins við skrifin. Þrátt fyrir þessa skínandi fínu sveit hjálparhellna eru bókin allt að því lygilega illa úr garði gerð. Textinn er algjörlega flatur og óinnspíreraður. Persónurnar eru steindauðar á síðunum. Hver klisjan rekur aðra. Það er grátlega illa unnið úr samfélagsádeilunni sem á bersýnilega að vera burðarstólpi verksins. Hvergi vottar fyrir frumlegri hugsun, hvað þá kraftmiklu orðalagi. Risið í verkinu, hápunkturinn, er afgreiddur á svo snubbóttan hátt að ég þurfti að lesa klausuna þrisvar til að ná því hvað væri að gerast, nákvæmlega; ég trúði ekki að höfundurinn hefði ekki orkað að púrra upp í sér meiri innblástur til að tækla þann (örstutta) kafla. Undir lok þakkargjarðarinnar á öftustu síðunum mærir Weiner svo eiginkonu sína og spyr auðmjúkur: „Hvernig má vera að sé slíkur lukkunnar pamfíll [að verja ævinni með jafn æðislegri konu sem sagt]?“ Á innanábrotinu er ljósmynd af Weiner (á einhvers konar fansý vínbar?) í dýrum en hæfilega kasjúal fötum; hann virkar afar vel nærður og pattaralegur og augljóslega, af útliti sínu að dæma, algjörlega ófær um að skrifa skemmtilegt skáldverk. Í því hvað bókin er vond, og eins í því hvað stíllinn er lélegur, hugmyndirnar barnalegar og persónurnar marflatar, minnir hún mig á aðra skáldsögu sem ég man að ég grýtti í gólfið að lestri loknum og lýsti yfir að um væri ef til vill að ræða lélegustu bók sem ég hefði lesið til enda –– The Vegetarian eftir Han Kang, sem ég las á ensku, en síðar kom hún svo út í íslenskri útgáfu. Hvað Heather, the Totality snertir, þá virðast notendur á Goodreads að vísu margir sammála mér: This is a colossally dumb book, skrifar einhver Jennifer til dæmis. Sammála Jennifer!

Stutt viðbót: Í einhvers konar gallsúrri veruleikafléttu –– eða þá staðfestingu þess að samfélagsmiðlarnir njósna auðvitað um skrifskjölin hjá mér –– var fyrsta fréttin, sem blasti við mér þegar ég opnaði FB strax eftir að hafa skrifað umsögnina um Heather, The Totality, hlekkur á frétt um að gömul vinkonahyggist nú leika í einhverju nýju sjónvarpsverki eftir ofannefndan Matthew Wiener. (!) Ég vona sannarlega að Weiner takist betur upp á skjánum en á bókarsíðunni …

Og þá að góðum bókum: Ég las, að vísu í próförk, frábæra bók síðustu helgi, Bókasafn föður míns, eftir Ragnar Helga Ólafsson. Hún kom út á fullu tunglifimmtudagskvöldið 28. júní 2018 nú í vikunni, og voru öll eintök, sem ekki seldust þá, vitanlega brennd á báli. Eigirðu hins vegar völ á að næla þér í (óbrunnið) eintak, þá mæli ég mikið með því. Bókin –– sem vissulega er eftir vin og samherja, tek það fram –– snerti mig óvenju djúpt og tekur með fallegum, persónulegum hætti á stórum (og viðsjárverðum?) breytingum í samtímanum.

Annað ritverk, sem ég hef oft hugsað til í áranna rás og kemur aðeins við sögu í verki Ragnars Helga, er sex binda ljóðasafn Saffó, sem brann til ösku í bókasafnsbrunanum mikla í Alexandríu á sínum tíma, rétt eins og óseldu eintökin af Bókasafni föður míns gerðu nú á fimmtudagskvöldið, samkvæmt reglu Tunglsins forlags. Hið stóra og fallega ljóðasafn Saffó, einstakt í sinni röð, hef ég lesið aftur og aftur í huganum árum saman. Hafirðu möguleika á að nálgast það, þótt ekki sé nema í huganum, skaltu ekki hika.

Lesa, lesa lesa: Skömmu eftir að Oliver Sacks, taugasjúkdómafræðingurinn þekkti, lést árið 2015, kom út sjálfsævisagan On the Move: A Life, sem mér fannst afar vel heppnuð. Þar kynnist maður höfundinum náið. Ég vissi til dæmis ekki að Sacks hefði ungur verið með kraftlyftingadellu; að hann hafði verið samkynhneigður og að mestu í skápnum (skírlífur í meira en þrjátíu ár! –– sögurnar sem lýsa fyrstu þreifingum hans í tilhugalífi eru vægast sagt pínlegar); að hann þjáðist af andlitsblindu og bar einkum kennsl á fólk af rödd þess, hreyfingum, fasi; að hann hefði verið með ástríðu fyrir mótorhjólum og næstum drepið sig í slysi sem hlaust af því áhugamáli; og svo framvegis. Loks var hann algjör graffómaníak og sískrifandi, einkum á stöðuvatnsbakkanum eftir nektarsundspretti í uppsveitum New York. (SN.)

Móðir mín benti mér á bókina Lacci eftir ítalska rithöfundinn Domenico Starnone sem er um þessa mundir líklega þekktastur fyrir að vera meintur eiginmaður hennar Elenu Ferrante sem Sverrir hefur skrifað nokkrum sinnum um á þessum vettvangi. Ég hef ekkert lesið eftir Ferrante og kannast ekkert við Starnone en ákvað engu að síður að kíkja á þessa bók í vikunni. Þetta er, eins og Dagar höfnunar eftir Ferrante, bók um mann sem yfirgefur konu sína og barn til að hefja nýtt líf með nýrri konu. Hún er sögð af sjónarhóli eiginkonunnar, eiginmannsins og svo barnanna á ólíkum tímum í lífi þeirra og sýnt hvernig þau takast öll sömul við þessar sviptingar í lífi þeirra. Ég er vís til að lesa fleiri bækur eftir Starnone og geri fastlega ráð fyrir því að lesa Daga höfnunar eftir Ferrante, þótt hann segi enga tengingu vera á milli hans og meintrar eiginkonu sinnar. Það er kannski vert að minnast á að ég las bókina í ágætri enskri þýðingu Jhumpa Lahiri þar sem titill bókarinnar var þýddur sem Ties en ætli bein þýðing á titlinum væri ekki skóreimar (þ.e. samkvæmt Google Translate, ég get varla pantað mér cappuccino á ítölsku). Fjötrar væri kannski betri þýðing, en þessi myndlíking verður ljósari við lestur bókarinnar.

Ég hef virkilega gaman af bókum sem fá mann til að hugsa tvisvar um hvernig maður hugsar um hlutina – þ.e. hversu óræður og óútreiknanlegur mannshugurinn er. Ég hef áður minnst á dálæti mitt af öllu því sem sálfræðingurinn Daniel Kahneman hefur skrifað um atferli mannsins (mæli þá sérstaklega með bók hans Thinking Fast and Slow) en ég sökkvi mér gjarnan í greinar og bækur um allt sem tengist því hvernig mannskepnan hegðar sér með „órökréttum“ hætti. Þess vegna greip ég og hóf lestur á bókinni Elephant in the Brain eftir þá Robin Hanson og Kevin Simler. Ég hef lengi fylgst með því sem Hanson hefur skrifað, þá sérstaklega á blogginu hans Overcoming Bias. Þetta er svona týpa sem er alltof klár fyrir lífið og sama hversu hversu oft ég er ósammála honum, þá veit ég að hann gæti alltaf rökrætt mig í kaf ef svo bæri undir. Hér er t.d. áhugaverð grein um hann og konu hans þar sem rætt er um áform hans um að frysta í sér heilann þegar hann deyr svo að hægt verði að vekja hann aftur til lífsins í framtíðinni. Allavega, þetta er útúrdúr sem kemur þessari ágætu bók ekkert við. Elephant in the Brain fjallar í stuttu máli um hvernig við blekkjum okkur sjálf – hvernig við segjumst vera gera hluti vegna tiltekinnar ástæðu þó að raunveruleg ætlun okkar sé allt önnur. Þótt ég sé skammt á veg kominn í henni hef ég lært heilmikið og er spenntur fyrir framhaldinu. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s