Hlekkir, 29. júní 2018

Hér má lesa tólfta tölublað Bændablaðsins 2018, og það ættum við öll að gera, sá fjölmiðill er auðveldlega sá best stílaði á Íslandi um þessar mundir. Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, varar við því að við séum að missa landið í hendur ríkra útlendinga. Það er eflaust rétt hjá honum. Ég hef stundum velt því fyrir mér að þetta hljóti reyndar einmitt að gerast: eftir því sem þjóðerni mást út, tenging einstaklinga við landsvæði rýrnar, stjórnvöld missa enn frekar völd sín í hendur stórfyrirtækja og peningar verða endanlegur mælikvarði á allt, þá hljóta slyngir útlendingar einfaldlega að kaupa upp allt Ísland og byrja að leigja út landsvæði til vel borgandi túrista og það gegn síhækkandi gjaldi, eftir því sem „óspillt náttúra“ hverfur enn. Bara rökrétt skref.

Og á þeim nótum: Hér fjalla blaðamennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Þorgeir Helgason um Ríka-Ísland. Þeir eiga ekki við þá Íslendinga sem lifa auðugu innra lífi, eru gjafmildir og vel lesnir, gæskufullir og listrænir, heldur taka hér fyrir það fólk á Íslandi sem tekist hefur að sanka að sér miklum fjárhagslegum auðæfum. Á þetta fólk skilið að eiga alla þessa peninga? Mig langar að vitna í Fran Lebowitz, orðheppinn New York-búa: „No one earns a billion dollars. People earn $10 an hour, people steal a billion dollars.“ (SN.)

Eiginkona mín útskrifaðist með meistaragráðu í verkefnastjórnun síðastliðna helgi og var þar einkunnahæst í sínum útskriftarárgangi. Hún skrifaði frábæra meistararitgerð um það sem einkennir árangursríka verkefnastjóra og ég hvet alla til að lesa hana. Svona ritgerðir eru yfirleitt leiðinlegar, en þessi er virkilega vel unnin og áhugaverð.

Hérna er stórgott viðtal við breska rithöfundinn Martin Amis. Ég hef reynt að byrja á bókum eftir hann en aldrei dottið almennilega inn í þær. Mér finnst samt gaman að lesa greinar eftir hann og viðtöl við hann af einhverjum ástæðum, enda las ég þetta spjall til enda og hafði mjög gaman af. (KF.)

Greinarhöfundur fastar í heila viku ásamt eiginkonu sinni og skýrir frá því hvaða áhrif það hefur á bæði líkamlega heilsu þeirra og geðheilsu.

Það er greinilega enginn dans á rósum að vera Johnny Deep. (SN.)

Jean-Michel Basquiat er listamaður sem ég hef alltaf haft gaman af en þó kannski meira þegar ég var yngri en í dag. Hann var algjör poppstjarna á meðan hann lifði og svo virðist sem að hróður hans hafi vaxið, enda er hann með dýrustu og þekktustu samtímalistamönnum heims. Hér er góð grein sem kafar í feril hans og veltir vöngum yfir stöðu hans sem listamaður.

Ed Ruscha er annar listamaður sem ég hef haft gaman af, þó ekki alveg jafn mikið og Basquiat. Hér er flottur prófíll um kauða.

David Lynch var í viðtali við Guardian nýlega þar sem hann missti út úr sér að Donald Trump kynni á endanum að verða álitinn besti forseti Bandaríkjanna (Trump til mikillar ánægju). Síðan hefur hann dregið ummælin að einhverju leyti til baka, en þau eru alls ekki það áhugaverðasta við þetta forvitnilega viðtal. Í því talar hann m.a. um helstu ástríðu sína, málaralistina, og hvernig hún hefur áhrif á kvikmyndagerð hans. Mér hefur alltaf fundist furðulegt þegar fólk keppist við að „útskýra“ verk eftir Lynch, það er alveg jafn gagnslaust og að „útskýra“ verk eftir Rothko – þetta þarf ekki að meika sens, þetta er list! (KF.)

Þessi grein kom út á níunda áratugnum og þar skýrir Wendell Berry, rithöfundur, ljóðskáld og bóndi, frá því hvers vegna hann hyggist ekki kaupa sér tölvu. Harper’s-tímaritið birti í kjölfarið viðbrögð ýmissa lesenda við greininni og loks einnig svar Berrys við svörunum, og er það algjörlega frábært, einkum hvað snertir ásakanir femínistana. Nýlega kom út safn af ritgerðum Berrys, The World-Ending Fire, sem ég hef verið að grípa í síðustu vikurnar –– ég vildi óska að öllu heimsbyggðin læsi hann. Áfram Wendell Berry. Hér má sjá mynd og lesa sér betur til um þennan óviðjafnanlega töffara.

Hvers vegna hefur Barack Obama haldið sig algjörlega utan sviðsljóssins síðastliðinn tvö ár? Hér er leitað svara við því. (SN.)

Mér finnst flestar greinar sem fjalla um gervigreind og sjálfvirknivæðingu enda á einhverju rausi um að tölvur séu að taka yfir störfin okkar eða að við séum að stefna í einhvers konar Terminator heim. Þessi grein, eftir Benedict Evans, er alls ekki þannig. Í henni er fjallað um gervigreind á mannamáli og talað með gagnrýnum hætti um hverjir notkunarmöguleikar hennar eru í raun og veru. Ég mæli líka mikið með fréttabréfinu hans sem hann sendir vikulega út um nýjustu fréttir í tækniheiminum. (KF.)

Jonathan Franzen, rithöfundur og fuglaskoðari, hefur verið að birta greinar um fugla í The National Geographic að undanförnu. Hér er ein slík.

Hin frábæra listakona Adrian Piper er um þessar myndir með stærstu, og algjölega magnaða, einkasýningu sem núlifandi listamaður hefur fengið um sig í MoMA-safninu í New York. Ég sá sýninguna um daginn og var virkilega ánægður með hana, en eyðilagðist algjörlega þegar ég settist inn í lítinn klefa þar sem leikin er án afláts upptakan af hrottafengnu morði nokkurra lögreglumanna á Rodney King, leigubílstjóra sem laganna verðir börðu til dauða árið 1991, líkt og frægt er orðið. Upptakan rataði vítt og breitt um heimsbyggðina á þeim tíma og er eitt fyrsta dæmi um upptöku óbreytts borgara á hrottaskap bandarísks lögreglufólks gagnvart einkum lituðu fólki –– slíkum upptökum hefur, líkt og varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, fjölgað mikið undanfarið, þökk sé þeirri staðreynd að nú göngum við öll með litla kvikmyndatökuvél í vasanum. Ég vara við upptökunni, hún er sannarlega ekki fyrir viðkvæma. Sýning Piper er mjög pólítísk, á áhrifamikinn og sterkan hátt, og ég mæli eindregið með henni fyrir þá sem eiga völ á því að sjá hana; sendið mér línu ef þið eruð stödd í New York og ég læt setja ykkur á VIP-listann gegn því að þið bjóðið mér upp á stóran bragðaref þegar ég verð á Íslandi nú í júlí. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s