Bækur, 6. júlí 2018

Ég las nokkrar bækur í vikunni. Sú fyrsta var Speaking of Faith: Why Religion Matters–and How to Talk About It eftir Kristu Tippet. Sú er býsna þekkt fyrir að halda úti On Being-hlaðvarpinu, en þar laðar hún til sín ótal frábæra gesti og leiðir samræður um andleg efni, lífið og listina. Í nefndri bók lýsir Tippett fjölskyldu sinni, sem var afar kristin, lífi sínu í Berlín á þrítugsaldri og því hvernig hún enduruppgötvaði smátt og smátt trúna. Hún einskorðar sig ekki við kristnar hugmyndir heldur rekur einnig þræði úr búddisma og múhameðstrú, pólitíkina í kringum trúarbrögð og svo framvegis. Þetta er dágott varnarskjal, trúarbrögðunum í hag, og hressileg tilbreyting frá æstum trúleysingjum.

“When it comes to silencing women, Western culture has had thousands of years of practice.” Svo kemst Mary Beard að orði í stuttri bók, Women & Power, sem byggist á fyrirlestrum eftir hana frá 2014 og 2017. Snaggaraleg bók: rökföst, greindarleg, tímabær. Að vanda skoðar Beard Grikkland og Rómaveldi til forna og notar til að bregða birtu á samfélög okkar tíma. Gæti ímyndað mér að ungir lesendur fíli þessa.

Ekki get ég hins vegar mælt jafn sterklega með The Tao of Bill Murray. Það er stórfurðuleg bók, kannski einkum vegna þess að höfundurinn er svo ástfanginn af viðfangsefni sínu að það er hálf vandræðalegt. Bill Murray, sem að sögn höfundar er „hrelligoð samtímans“ (modern day trickster god), hefur á síðustu árum nær alfarið helgað sig því að valda usla hér og þar í heiminum, skjóta upp kollinum óvænt í unglingapartíium og á hamborgarastöðum frekar en að leika í kvikmyndum, og höfundur ýjar ítrekað að því að Murray sýni þannig fram á að hann hafi höndlað einhver djúpstæð sannindi um lífið sem séu okkur leikmönnum hulin og að markmið hans sé að „vekja okkur“ til lífsins. Ég vaknaði ekkert sérstaklega til lífsins við að lesa þessa bók og mæli eiginlega frekar með því að horfa bara aftur á Groundhog Day.

Í síðustu viku fjallaði ég lítillega um Bókasafn föður míns, nýútkomna bók eftir Ragnar Helga Ólafsson. Í kjölfarið varð mér hugsað til fínnar spjallbókar sem ég las fyrir mörgum árum, Til fundar við skáldið eftir Ólaf Ragnarsson, föður Ragnars Helga. Þar lýsir Ólafur kynnum sínum af Halldóri Kiljan Laxness, einkum heimsóknum sínum til skáldsins á Gljúfrastein. Eitt situr alltaf sérstaklega í mér eftir þennan lestur. Ólafur innir Laxness eftir því hvers vegna hann svari einföldum spurningum eiginlega aldrei með smáorðunum „já“ og „nei“. Halldór hugsar sig um og segist á sínum tíma hafa tekið meðvitaða ákvörðun um þetta. Já, kannski væri svolítið lélegt að grípa alltaf til sömu smáorðanna sem við öll eigum á lager og – nei – líklega betra að fitja ævinlega upp á ferskari leiðum til að svara jafnvel léttustu spurningum. Þetta plagaði mig lengi á eftir. Ég hlustaði á sjálfan mig segja „já“ og „nei“ í gríð og erg, margsinnis á dag, og velti oft fyrir mér hvernig ég gæti yfirstigið þessa hugarleti, en rambaði aldrei á neina góða aðferð. Ég hélt sem sagt áfram að segja já og nei. Sé ég eftir því? Nei, nei. Er allt í lagi að segja já og nei? Já, já. En þetta er allavega skemmtileg bók og víðar leitað fanga en einungis í skoðanir Nóbelsskáldsins á eins atkvæðis smáorðum.

Og svo er það rúsínan í pylsuendanum: Ég las hina stórskemmtilegu The Disaster Artist: My Life Inside the Room, the Greatest Bad Movie Ever Made í flugferð. Þessi bók fjallar um gerð kvikmyndarinnar The Room, sem almennt er talin versta mynd allra tíma. Ég man afar vel eftir því þegar ég settist fyrir rúmum áratug niður til að horfa ásamt nokkrum vinum á þessa einkennilegu kvikmynd og þær blendnu tilfinningar sem í okkur bærðust, eða bærðust ekki, að loknu áhorfi. Líkt og alþjóð veit, þá tekur listamaður fjölmargar „listrænar ákvarðanir“ við gerð hvers listaverks, og einhvern veginn tókst Tommy Wiseu, höfundi, leikstjóra, aðalleikara, framleiðanda og listrænum stjórnanda The Room, að taka alltaf ranga listræna ákvörðun. Útkoman sker sig frá öllum öðrum bíómyndum sem litið hafa dagsins ljós. Bókin er vel stíluð og fjörug, sögð af mótleikara og félaga Wiseu, Greg Sestero, með hjálp rithöfundarins Tom Bissell. Ég las hana reyndar á frönsku, þar sem enska frumútgáfan var í útláni í bókasafnsforritinu mínu en ekki sú franska, og það gerði upplifunina ennþá fyndnari, þar sem þýðendurnir hafa þurft að þýða hina frumlegu ensku rödd aðalhetjunnar Tommy Wiseu með sannfærandi hætti, sem er í raun óhugsandi verk. Ef þú hatar að lesa bækur, þá bendi ég á að einnig er búið að gera leikna bíómynd sem byggist á bókinni sem fjallar um gerð upprunalegu bíómyndarinnar. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s