Ráðunautur Leslistans: Fríða Björk Ingvarsdóttir

fridabjork

Ljósmynd: Gunnar Andrésson

Fríða Björk Ingvarsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands. Hún hefur einnig starfað sem háskólakennari í bókmenntum, ritstjóri og blaðamaður, einkum á sviði menningarinnar, og meðal annars ritað viðtöl, bókakrítík og sent frá sér þýðingar, til að mynda á einu skáldsögu Sylviu Plath, Glerhjálminum, sem kom út árið 2003 hjá Sölku, og Dætrum hússins eftir Michèle Roberts (Salka, 2007).

Sæl og blessuð, Fríða! Aldeilis gaman að fá í ráðuneyti Leslistans, hjartanlega velkomin og vel til fundið að fá sér sæti úti við gluggann, birtan er einmitt best hér. Fáðu þér svo endilega eins og þú vilt af kaffinu og pönnsunum meðan á spjallinu stendur. En segðu mér nú fyrst, hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Ég er í miðju kafi við að lesa Min Kamp-trílógíuna hans Karls Ove Knausgaard, sem er ótrúlegur doðrantur. Þetta er á köflum langdreginn lestur því það er lítið sem dregur frásögnina áfram annað en mjög hvunndagslegt líf höfundarins. En undir niðri kraumar þó mikil glíma, við lífið í heild sinni, skáldskapinn, frásagnarmátann og formið, samfélagsgerðina og ekki síst tilganginn eða jafnvel tilgangsleysið í tilvistinni. Það er langt síðan ég hef lesið verk sem er jafn hugrakkt og hreinskiptið. Stundum minnir lesturinn á leit Proust að týndum tíma (À la recherche du temps perdu) en Knausgaard stendur manni nær í tíma og um leið greiningu á samtímanum. Trílógían er líka áhugaverð á tímum þar sem hraðinn eða skyndibitinn í afþreyingu og menningu er mál málanna. Það er ögrun í því að kúpla sig frá því sem er fljótafgreitt og leyfa Knausgaard að taka tíma manns yfir.

En ég hef tekið ýmsa úturdúra frá Knausgaard, var t.d. að lesa The Futureeftir franska heimspekinginn Marc Augé – sem mér fannst mjög áhugaverð lesning um tengsl okkar og afstöðu til hins óorðna. Ég var líka að lesa sonnettukransinn Lip eftir Anne Carson sem kom út hjá Tunglútgáfunni núna í síðustu viku. Carson er náttúrlega eitthvert áhugaverðasta skáld síðari tíma á heimsvísu – ég bíð alltaf eftir því að hún fái Nóbelinn.

Undirferli hennar Oddnýjar Eirar vakti líka mikla aðdáun mína núverið – það er langt síðan ég hef lesið íslenskt skáldverk sem tekur jafn fallega á stóru málunum og því hvernig við erum hluti af þeirri gjöfulu heild sem býr í arfleifð okkar og náttúrunni umhverfis. Hún minnt mig á GunnlaðarsöguSvövu Jakobsdóttur, að gæðum, dýpt og skilningi á íslenskum veruleika og vísunum í forna arfleifð okkar.

Eins og ef til vill sést á þessum lestri mínum þá hef ég mikinn áhuga á höfundum sem eru tilbúnir til að gera tilraunir með formið, eða hafa þrek og þor til að láta formið þjóna efniviði sínum með hverjum þeim hætti sem þeim finnst hæfa, frekar en að beygja sig undir það hefðbundna og kannski fyrirsjáanlega.

Og þá dettur mér í hug bókin sem ég las um helgina, Waitress in Fall, þýðingar Völu Thorodds á ljóðum Kristínar Ómarsdóttur. Þessar þýðingar eru snilldarlega vel gerðar. Það vakti eftirtekt mína því ljóðaþýðingar eru stundum (og reynar of oft) svo slakar. Það er mjög erfitt að þýða ljóð af kostgæfni og skilningi, ekki bara á orðum og hvað þau „þýða“, heldur á heiminum handan ljóðsins, undirtextanum og öllu því sem gerir ljóðformið svo einstakt.

Þarna er af nógu af taka, takk! En lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Ég les netsíður, vefmiðla og allskonar efni sem ég rekst á – en ekki mikið af tímaritum. Ég reyni að lesa Cabinet Magazine ef ég kemst yfir það. Var einu sinni áskrifandi en gleymdi að endurnýja, sem er nokkuð sem ég hef lengi ætlað að ráða bót á. Svo glugga ég í ýmislegt sem verður á vegi mínum, ekki síst í gegnum börnin mín eða manninn minn.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ætli ég lesi ekki mest á ensku. En líka heilmikið á íslensku – ég reyni að lesa flestar skáldsögur sem koma út á Íslandi. Ekki endilega í jólabókaflóðinu eins og þá áratugi sem ég var mjög iðin við gagnrýni, heldur eftir áramótin og fram eftir sumri, þegar öldurnar hefur lægt og kynningarefni og markaðssetning bókavertíðarinnar eru ekki að trufla mann.

Já, ef við aðeins ættum her af slíkum gagnrýnendum þessa dagana! En hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Ég hef ekki mikinn tíma yfirleitt til að hlusta því ég lifi frekar erilsömu lífi. Ef ég er heima þá hlusta ég á Rás eitt – mér finnst þáttargerðin þar oftast áhugaverð og innspírerandi. Og hún er heldur ekki svo krefjandi að maður geti ekki verið að gera eitthvað annað á meðan. Svo geri ég svolítið af því að setjast niður heima hjá mér og hlusta markvisst á tónlist með manninum mínum – Spotify hefur opnað manni svo stóran heim að það er erfitt að standast hann, þótt ég hafi miklar efasemdir um afstöðu þeirra, til tónlistarmannanna sjálfra sem bera nánast ekkert úr býtum. Tuttugustu aldar tónskáldin færa mér iðulega mest, þótt eldri klassík kveiki líka í mér. Ég er samt amatör í tónlist; ein af þeim sem þekki tónverkin – jafnvel út og inn – en veit lítið um þau. Ég hef aldrei sett mig inn í tónbókmenntir með sama hætti og ég stúdera bókmenntir, fylgi bara innsæinu og lönguninn hverju sinni.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Mér finnst þetta alltaf svo erfið spurning því það er svo margt sem hefur heillað mig. En jú, bók lífs míns er án efa þessi eina skáldsaga Sylviu Plath, The Bell Jar. Plath hefur mikla þýðingu fyrir mig sem höfundur.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Ég get lesið hvar sem er og hvernig sem er. Og það er meira að segja merkilegt hvað annað fólk truflar mig lítið þegar ég les; ég hverf bara inn í þann heim sem er á síðunum. Kjöraðstæður, sem maður nær reyndar ekki alltaf, eru þó í uppáhaldsstólnum heima sem afi mannsins míns smíðaði, undir standlampanum og með góðan tebolla við hliðina. Á síðustu tímum hef ég þó líklega náð besta samfellda lestrartímanum í flugvélum. Mér finnst ég alltaf ná bestu tengingunni við skáldverk ef ég næ að lesa þau í einum rykk, eða sem fæstum lotum.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Fyrsta bókin sem ég las spjaldanna á milli og var ekki myndabók, var Ævintýraeyjan eftir Enid Blyton. Hún er mér minnisstæð þess vegna. Ekki síst vegna þess að það var eins og það hefði verið skrúfað frá krana, ég las linnulaust upp frá því alla mína æsku, allt sem hönd á festi frá Blyton og Dickens til ævisögu Thors Jensens og Selmu Lagerlöf. En það er erfitt að gera upp við sig hvað er áhrifamest. Ég man samt að bækur Ragnheiðar Jónsdóttur höfðu töluverð áhrif á mig – ekki síst vegna þess hversu mannbætandi þær voru. Þær kenndu manni svo mikið, vöktu meðvitaðan vilja til að vera almennileg manneskja.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ég mæli yfirleitt ekki mikið með bókum, því bóklestur er svo persónuleg reynsla. En líklega hef ég gefið Birting Voltairs oftast. Ég kaupi hana gjarnan í fermingargjafir og bæti svo við einhverju öðru úr seríu Hins íslenska bókmenntafélags sem mér finnst hæfa viðkomandi. Stundum Susan Sontag, Kierkegaard eða Orwell – allt eftir karakter viðtakandans. Þetta eru örugglega ekki vinsælar gjafir hjá unglingum, en standast kannski tímans tönn betur en svo margt annað.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur? Klárar maður kannski aldrei bestu bækurnar?

Já, mér finnst ég þurfa að klára bækur – líka misheppnaðar bækur, ekki síst ef höfundurinn er áhugaverður. Það er mjög ríkt í mér að gera bækur upp, leggja á þær minn dóm og súmmera fyrir sjálfri mér hvað heppnaðist og hvað ekki. Reyna að átta mig á ætlun höfundar og hvert bókin hefur tekið mig. En það kemur samt fyrir að ég gríp bækur sem eru einfaldlega svo innihaldslitlar eða lélegar að ég hef ekki tíma fyrir þær. Mjög sjaldan samt, því ég forðast slíkt efni markvisst.

Hvers vegna langaði þig að þýða Sylviu Plath? Hvað höfðaði sérstaklega til þín í höfundaverki hennar? Langar þig oft að þýða góða bók þegar þú lýkur við hana?

Mig langar stundum til að þýða bækur sem ég les, ekki spurning. Stundum vegna þess hvað orðfærið er stórkostlegur skáldskapur, en líka stundum af því efnið sem heild höfðar sterkt til mín. Ég myndi í öllu falli ekki nenna að þýða bók sem hefði ekki eitthvert gildi fyrir mig.

Skáldsagan hennar Sylviu Plath greip mig heljartökum þegar ég var mjög ung – rétt um tvítugt. Í raun áður en verkið varð að þessum mikla íkon í kvennabókmenntum og 20. aldar skáldsagnagerð. Ég keypti hanan fyrir tilviljun á ferðalagi í Hollandi í kringum 1980. Efnið talaði mjög sterkt til mín, því ég samsamaði mig þessari ungu konu sem langaði til að skrifa en komst hvergi að þar sem hún tilheyrði ekki réttu klíkunum, réttu hefðinni, rétta kyninu. Sjálf bjó ég heldur ekki í mínu eigin heimalandi á þessum tíma, rétt eins og Plath þegar hún skrifaði verkið, var ung móðir og stundum svolítið utangarðs, rétt eins og hún. Mín leið að Plath var því í gegnum þessa skáldsögu. Síðar lagðist ég yfir ljóðin hennar og þau styrktu mjög þá skoðun mína að hún hafi verið einstakur höfundur. Hún fór ótroðnar leiðir, bjó yfir einlægni og gríðarlegu þori, en einnig vitsmunalegum styrk sem gerir verkin hennar svo djúp og sérstök. Henni tókst að tvinna hefðir og menningu allt frá fornöld inn í samtíma sinn, með því að draga slíka hugmyndafræði inn í sitt eigið orðfæri, lúmskan húmor og ádeilu. Undirliggjandi alvarleikinn í verkum hennar tilheyrir samt hennar eigin tíð; sprettur upp úr víðtækri þekkingu og gagnrýni á það sem hefur mótað okkur sem fólk innan tiltekins menningarheims. Vitanlega er ekki allt úr hennar höfundarverki jafn mikil snilld, ekki frekar en hjá öðrum, en viljinn til að vera frumleg og djörf listrænt séð vinnur með henni – og fleytir mér af óskoraðri athygli í gegnum hverja einustu ljóðlínu. Ég hefði viljað sjá hvert þroskinn og árin hefðu tekið hana sem skáld – hún var náttúrulega svo ótrúlega ung þegar hún féll frá.

Ég hef tekið eftir því á síðustu árum, eftir því sem gott fólk opnar augu mín í síauknum mæli fyrir verkum ótal listamanna víðsvegar að úr heiminum, og eins þökk sé þeim forréttindum að ég hef um alllangt skeið búið í borgum þar sem ótal listaverk flæða í gegnum listasöfn og gallerí, að margir helstu listamanna síðustu aldar voru algjörir lestrarhestar og ótrúlega vel að sér í bókmenntum okkar tíma sem og fyrri alda. (Þetta er til dæmis eitt helsta einkennið á yfirlitssýningu hinnar frábæru Adrian Piper, sem nú stendur yfir í MoMA-safninu.) Það sama hefur svo oft komið upp úr dúrnum þegar ég hef kynnist listamönnum persónulega, einkum fólki af eldri skólanum: þetta eru lestrarhestar og stúdíóin jafnt sem heimilin þakin bókum. Telurðu að bókmenntirnar séu uppspretta hugmynda og innblásturs fyrir listamenn í öllum greinum, tónlist, leiklist, dansi, málaralist og svo framvegis, og heldurðu að listamenn sæki enn jafn mikið í þennan drjúga og góða brunn, bókmenntirnar, og þeir gerðu hér áður fyrr? Eða eru önnur form „lesefnis“, s.s. samfélagsmiðlar, skilaboð í snjallsímum og svo framvegis, listamönnum nú innblástur og efniviður til jafns á við bókmenntirnar og heimspekina?

Þessi spurning er efni í langa grein eða jafnvel heila bók. Sjálf var ég að flytja á síðasta ári og tók með mér 52 bókakassa eða rösklega 2000 bindi. En ákvað um leið að losa mig við næstum því jafnmikið. Að hluta til vegna þess að ég finn að bækur hafa annað aðdráttarafl í dag en þær höfðu fyrir mína kynslóð og munu ekki ferðast á milli kynslóða með sama hætti og áður.

Ég þekki töluvert af mjög góðum ungum listamönnum í öllum greinum sem ekki safna bókum af sömu ástríðu og mín kynslóð gerði. Uppspretta hugljómunar þeirra er annarsstaðar; í sjónrænni upplifun, á netinu, í kvikmyndum, ferðalögum og þar fram eftir götunum. Ég treysti mér ekki til að dæma þá tilhneigingu, því þótt hún tilheyri ekki mínu innra lífi þá virðist hún næra framúrskarandi hluti í öðrum. Heimurinn hefur breyst gríðarlega frá síðustu aldamótum hvað þetta varðar.

Bækur og bókasöfn eru rómantísk fyrirbrigði og vissulega uppspretta hugmynda og innblásturs, en eru samt ekki endilega mikilvægasta uppsprettan fyrir alla. Ég held samt að bækur eigi eftir að halda sjó, því bókmenntaformið er svo merkilegt að því leytinu til að innan spjalda bókar er hægt að skapa hvaða heim sem er. Formið – þessi huglæga upplifun eða kveikja sem höfundar vekja í lesendum sínum – er einstakt hvað þetta varðar og verður tæpast útfært í öðrum listformum. Hver gæti t.d. endurgert ósýnilegar borgir Italo Calvino með sama hætti í öðru listformi? Ekkert annað listform gæti spannað slíka hugmynd því hún er svo flókin og efnismikil. Svo eru bækur líka merkilegar vegna þess hversu greiðan aðgang þær eiga að þeim sem njóta þeirra, þær eru ódýrar í framleiðslu – miðað við leiklist, tónlist og myndlist t.d. Fólk bara kippir þeim með sér og fer síðan í ótrúlegustu ferðalög innra með sér þar sem því sýnist.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Það er nú það! Ég er að fara í frí til Frakklands og hugsa að ég kippi með mér einhverju af því sem kom út hér á landi fyrir síðustu jól og ég hef ekki enn komist yfir. Og svo á ég náttúrulega síðasta bindið af Knausgaard eftir …

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s