Bækur, 13. júlí 2018

Ég er búinn að vera á ferðalagi um Suður-Frakkland síðustu daga og tók bara eina (prentaða) bók með mér, Hina smánuðu og svívirtu eftir Dostojevskí sem kom nýlega út í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur og Gunnars Þorra Péturssonar. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig maður veit hvort þýðingar séu góðar, þrátt fyrir að maður kunni ekki frummálið. Þegar ég les þessa bók dettur mér í hug að þetta sé svipað og með góða leikara – þegar þeir eru góðir þá gleymir maður því að þeir séu að leika. Það á svo sannarlega við um þessa frábæru þýðingu. Karakterarnir í bókinni eru líka svo ljóslifandi að mér líður eins og ég sé að lesa um skyldmenni mín. Ég er ekki búinn að klára bókina en ég get hæglega mælt með henni.

Ég heyrði nýlega frábært hlaðvarpsviðtal við bandaríska rithöfundinn Robert Greene. Hann er einna þekktastur fyrir að vera allra helsti spekingur rappara og fanga, enda skrifaði hann eitt sinn bók með 50 Cent og mig minnir að bókin hans, 48 Laws of Power, sé meðal þeirra bóka sem bandarískir fangar lesa mest. Ég man þegar ég heyrði um þessa bók fyrst að ég afskrifaði hana fyrirfram sem einfalt sjálfshjálparraus en þegar ég las hana loksins þá gat ég varla látið hana frá mér. Hún er mjög vel skrifuð og alveg greinilegt að Greene vann rosalega heimildarvinnu við skrif hennar. Það er í raun alveg þess virði að lesa hana bara til þess að kanna allar þær fjölbreyttu heimildir sem hann vísar í. Ég mæli líka mikið með áðurnefndu viðtali sem er býsna djúpt og skemmtilegt. (KF.)

Angústúra hefur verið að gefa út afar smekklegar bækur, þýðingar á erlendum verkum þar sem nostrað er við hvert smáatriði. Síðustu helgi las ég Veislu í greninu eftir Juan Pablo Villalobos. Þar nýtir Villalobos algengt sagnatrikk. Sögumaðurinn er mjög naífur, á barnsaldri reyndar, og hljómar eftir því svolítið sakleysislega þegar hann útskýrir hræðilega hluti, svo sem skipulagða glæpastarfsemi, dýr í útrýmingarhættu, karlmennsku og annað skemmtilegt. Fyrir vikið hægt að útskýra einföldustu hluti á barnalegan, og stundum sláandi, hátt. Þetta er ágætis bók – fyndin og stutt, sem oft er kostur – um ungan dreng sem býr ásamt glæpamönnum í afskekktri villu í Mexíkó og þráir að eignast dvergflóðhest frá Líberíu. Mér finnst nú heldur djúpt í árinni tekið að halda því fram að Villalobos sé „einn áhugaverðasti rithöfundur samtímans“, líkt og þýðandinn, María Rán Guðjónsdóttir, gerir í eftirmála, en þýðingin er stórvel gerð og bókin sjálf eigulegur gripur og eflaust bitastæðari afþreying en kvikmyndin Skyscraper með Dwayne Johnson, sem nú er í sýningu á Íslandi og ég óska engum að þurfa að sjá.

Litlu íslensku bókaforlögin gefa út áhugaverðustu bækurnar hér á landi um þessar mundir. Ég hef áður nefnt afar eigulega útgáfu Dimmu á Walden eftir Thoreau, í glæsilegri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur, og þýðingar á skáldsögum Jon Fosse. Nýlega kom út ný bók eftir Fosse, Ég er Alla, sem mér finnst kannski ekki jafn sterk og fyrri verkin. Öðru gegnir hins vegar um frábært tvímála þýðingasafn Aðalsteins Ásbergs, Heimferðir, þar sem hann þýðir ljóð Christine De Luca úr hjaltlensku. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað þau ljóð hreyfðu við mér; myndirnar eru kraftmiklar, hlýlegar, og bókin í heild afar vönduð. Í sama vetfangi rifjast upp fyrir útgáfa annars þýðingasafns hjá Dimmu, Ummyndanir skáldsins og fleiri ljóð, þar sem Sigurður heitinn Pálsson þýddi valin ljóð hins belgíska Willems M. Roggeman. Þessar bækur leynast þarna úti, maður þarf bara að þefa þær uppi.

Af því að ég nefndi Kurt Vonnegut hér fyrir ofan, þá langar mig að geta skrambi fínnar ævisögu um hann, sem ég las fyrir nokkrum árum. Tilvalin lesning í ferðalagið eða yfir netlausa sumarbústaðarhelgi. Sjáumst í næstu viku! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s