Bækur, 20. júlí 2018

„Ég held reyndar að það sé ekki síst af því að ég á þennan náttúruelskandi föður og er alin upp í sveit að ég hugsa alltaf um náttúruna sem hið stóra lifandi afl, móður allra mæðra sem ekki nokkur maður hefur leyfi til að níðast á. Engin hugsandi manneskja vill af ásettu ráði og með einbeittum vilja meiða móður sína og rústa lífi hennar, jafnvel þótt henni bjóðist fyrir það himinháar peningafúlgur.“

Þessi fallegu og tímabæru ábrýningarorð koma úr Elsku drauma mín, minningabók Sigríðar Halldórsdóttur, sem Vigdís Grímsdóttir hefur skrásett af mikilli kúnst. Mikið sem mér fannst þetta skemmtileg lesning. Sigríður lýsir æskuheimili sínu, Gljúfrasteini, hinum þjóðþekktu foreldrum sínum, Auði og Halldóri Laxness, og rekur sögur af öðrum skyldmennum, vinum, ástmönnum – sumar eru fyndnar, aðrar sárari – og lífi sínu allt frá blábernsku og fram til dagsins í dag. (Sumpart skarast frásögnin við annað áhugavert verk, Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur, sem kom út fyrir nokkrum árum.) Textinn er blæbrigðaríkur og lifandi og Sigríður slær, undir öruggri stjórn Vigdísar, einhvern heillandi tón sem helst út alla frásögnina; að lestri loknum líður manni eins og maður myndi heilsa henni úti í búð. Bók sem ýmist má bruna í gegnum á einni beit eða grípa niður í meðfram öðru. (SN.)

Af því að ég minntist á Adam Smith hér fyrir ofan þá má ég til með að mæla með bókinni How Adam Smith can Change Your Life eftir hagfræðinginn Russel Roberts. Höfundur bókarinnar er einna þekktastur fyrir hagfræðihlaðvarpið Econtalk, sem ég mæli líka eindregið með og hlusta reglulega á. Í bókinni dregur hann fram lærdóm úr bók Smith, The Theory of Moral Sentiments, sem er minna þekkt en stórvirkið The Wealth of Nations en þó alveg jafn merkileg. Bókin fjallar í örstuttu máli um siðferði og hvernig maðurinn getur lifað í sátt og samlyndi við nágranna sína, en það er mjög einfölduð lýsing á virkilega djúpri yfirferð á siðferðisheimspeki Adams Smith. Ég hef lesið hvoruga bók Smith í heild sinni en ég sé samt að Roberts tekst mjög vel til með að draga fram aðalatriði bókarinnar á mannamáli.

Ég var að rölta aðeins með konunni minni um Lyon í Frakklandi í síðustu viku og tók þar eftir því að gamli bærinn í þeirri borg var friðaður sérstaklega um miðbik síðustu aldar vegna svokallaðrar Malraux-löggjafar. Löggjöf þessi er nefnd eftir þáverandi menningarmálaráðherra Frakklands, André Malraux, sem er líklega þekktastur hér á landi fyrir skáldsögu sína Hlutskipti manns (La Condition humaine) sem Thor Vilhjálmsson, frændi Sverris, snaraði yfir á íslensku. Ég má til með að mæla með öðrum bókum eftir þennan stórbrotna mann en þar má fyrst nefna sjálfsævisögu hans, Antimémoires, sem ég las í enskri þýðingu eitt sinn og skildi mjög mikið eftir sig. Þetta er maður sem átti ótrúlega ævi, ferðaðist út um allan heim og kynntist fullt af áhugaverðu og áhrifamiklu fólki. Saga hans er listilega vel skrifuð og skemmtileg. Önnur bók sem ég las eftir hann og ekki síður áhugaverð er Les Voix du silence eða „Raddir þagnarinnar“ sem hann gaf út nokkrum árum áður en hann friðaði gamla bæinn í Lyon. Það var einmitt sú bók sem vakti fyrst áhuga minn á honum en í henni fjallar hann m.a. um hvernig afstaða okkar til listarinnar breytist í kjölfar ljósmyndatækninnar þar sem hún reisi eins konar „safn án veggja“ þar sem hægt er að kynnast listaverkum í mun víðara samhengi en áður var mögulegt. Ég velti því stundum fyrir mér hvað hann hefði að segja um ris internetsins og snjallsímana í því ljósi. Annars gæti ég skrifað mun lengri klausu um bækurnar hans. Á t.d. tvær frábærar viðtalsbækur þar sem hann ræðir annars vegar við Charles DeGaulle og hins vegar við Picasso, og mæli ég mikið með þeim báðum. Hér er að finna eldgamla og skemmtilega grein um hann í tímaritinu Samtíðin þar sem segir m.a. „Hvað sem því líður, að Malraux sé mesti núlifandi rithöfundur Frakka, er hitt víst, að sjálfur er hann enn þá meiri og furðulegri en skáldrit hans.“ (KF.)

Í vikunni átti ég allt að því trúarlega reynslu þegar ég blússaði um Borgarfjörð með Bruce Springsteen í eyrunum og söng hástöfum með. Tár streymdu niður kinnarnar á mér. Sem ég grét blygðunarlaust og söng „Thunder Road“ þöndum rómi rifjaðist upp fyrir mér að Bruce gaf fyrir ekki svo margt löngu út ævisögu – hann hefur sjálfsagt fengið vel borgað fyrir að rubba henni af – og ég flengdist hratt í gegnum hana á sínum tíma. Hún geymdi svo sem engar hugljómanir fyrir þá sem vel eru að sér í Springsteen, en þó er sjálfsagt hægt að gera margt heimskulegra en að lesa hana, svo sem kafna á tyggjói eða halda einmanalega fullveldishátíð á Þingvöllum fyrir áttatíu milljónir. (SN.)

… Og þá yfir í eitthvað allt annað. Við fengum ábendingu frá ötulum lesanda (sem kýs að njóta nafnleyndar):
I Capture the Castle eftir Dodie Smith er þroskasaga sem gerist á fjórða áratug síðustu aldar og skartar sterkum kvenkyns sögumanni – alveg stórskemmtileg. Aðeins í anda Jane Austen.

Mér fannst Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson eiginlega byggjast á eftirfarandi mótsögn: Maður les bækur til að gera lífið bærilegt – en eftir því sem maður les fleiri bækur, þeim mun óbærilegra verður lífið. Og eins: Maður les til að lina einmanaleika og þjáningu, en eftir því sem maður les meira, þeim mun meira einmana verður maður og þjáðari. Bygging verksins er áhugaverð: þar „ægir saman frumsömdum ljóðum og prósum, launfyndnum hugrenningum og lánstextum sem mynda frumlega og yfirgripsmikla heild,“ líkt og segir á kápu, og ekki fjarri lagi að þar hafi útgefendum tekist að lýsa innihaldinu ágætlega; Magnús vitnar jöfnum höndum í æviminningar íslensks alþýðufólks og heimsþekkt stórskáld, nútímahöfunda og spekinga frá fornum tíma. Sumir frumsömdu textanna eru algjörlega yndislegir, svo sem sá sem lýsir því þegar ráðamenn ríkisins ákveða í hagræðingarskyni að fækka stöfunum í stafrófinu. Mér fannst bókin aðeins brokkgeng – en hér er einhver spennandi tilraun í gangi og ég er viss um að verkið hefur burði til að heilla marga. Magnús leikur sér mikið með útúrsnúninga eða merkingartengsl út frá rími – rétt eins og annar Dimmuhöfundur gerir mikið í seinni tíð: Gyrðir Elíasson – og stundum þykir manni nóg um, leikirnir virka vélrænir. En ég er vís til að lesa Tregahandbókina aftur. Mér finnst hún kallast dálítið á við Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem hér hefur áður verið fjallað um; báðar geyma tilvitnanir úr þjóðlegum fróðleik og hugleiðingar um stöðu og gildi lesturs (og bóka) í samtímanum. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s