Hlekkir, 20. júlí 2018

Í tilefni þess að heimsmeistaramótið í knattspyrnu kláraðist síðustu helgi tók Kelly Grovier hjá BBC saman úrval ljósmynda af mótinu og fann hliðstæður þeirra í listasögunni. Við þökkum Þóri Gunnarssyni kærlega fyrir ábendinguna.

Tæknifjárfestirinn Marc Andreessen, sem er einna þekktastur fyrir að vera forsprakki Netscape vafrans, birtir á Twitter-reikningi sínum frábæran þráð yfir góðar bækur sem hann hefur lesið nýlega. Margt mjög forvitnilegt þar að finna.

Hér er fjallað ítarlega um aðgerðir til að stuðla að fjölbreytni í bandarísku vísindasamfélagi. Þær ganga allt of langt að mati Heather MacDonald, greinarhöfundar, og þykir henni líklegt að þær muni draga úr framförum á sviði vísinda.

Perrarithöfundurinn ástsæli Michel Houllebecq er hér í sviðsljósinu í ágætri grein þar sem hann er talinn hafa í bókum sínum spáð fyrir um hina ógeðfelldu Incel-hreyfingu. Forvitnilegar pælingar, sama hvaða skoðun maður hefur á honum sem rithöfundi. (KF.)

Fyrst að Kári minnist á Houllebecq – sem mér finnst frábær höfundur (og alls enginn perri) – þá langar mig að minnast á eftirminnilega kvikmynd, Michel Houllebecq rænt (L’enlèvement de Michel Houellebecq á frummálinu) sem skartar einmitt sjálfri titilpersónunni í aðalhlutverki. Houllebecq er rænt af hópi misindismanna, sem krefjast lausnargjalds fyrir skáldið. Yndisleg mynd þar sem kauði sýnir á sér mjúku hliðina.

*Leiðrétting:
Í síðustu viku vísaði ég á frábæra grein eftir Juliu Bell um skemmtistaðinn Berghain í Berlín, en í amstri hversdagsins – eflaust var ég með smábarn í fanginu og sjálfsagt að elda graut og setja í þvottavél og gott ef ekki skúra líka og skipta um ljósaperu– setti ég óvart inn rangan hlekk. Hér er sá rétti. Greinin birtist í The White Review. (SN.)

Hér fjallar Kate Wagner skemmtilega um borðstofuna, sem er að mati hennar gagnslausasta plássið í nútímaheimilum.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ég vísa í grein eftir fjármálaskríbentinn Morgan Housel og líklega ekki í síðasta skiptið. Hér fjallar hann, með mjög skýrum og vönduðum hætti, hvernig hægt er að glata sýn yfir heildarmyndina þegar við reiðum okkur um of á gögn og mælingar. Greinum hans er yfirleitt beint til fjármálafólks en hann nær samt að láta þær höfða til allra. Mæli með þessu.

Í þessum dúr er hér ágæta grein að finna eftir Christine Cave sem sýnir einmitt hvernig of einfölduð gagnagreining gefur af sér brenglaða mynd af heiminum. Margir draga þá ályktun að þar sem meðallífslíkur fornaldarmanna voru í kringum 40 ár, þá hljóti að hafa verið lítið um gamalt fólk í gamla daga. Hér er farið vandlega í að sú hafi ekki verið raunin.  (KF.)

Kári hefur aðeins fjallað um Jordan Peterson, höfund bókarinnar 12 Rules for Life. Sá maður hefur ekki vakið áhuga minn: ég ákvað bara einhvern veginn að hann væri skúrkur og klækjarefur og veit svo sem ekkert hvað ég hef fyrir mér í því. Á Longreads birtist grein þar sem greinarhöfundur gerir því skóna að Peterson höfði fyrst og síðast til tilfinninga aðdáenda sinna frekar en vitsmuna þeirra. (SN.)

Flott umfjöllun hér um bók sem fjallar um áhrif hugmyndafræði Adam Smith. Þegar ég lærði hagfræði á sínum tíma held ég að ég hefði haft mun meira gagn af því að stúdera Smith en að reikna út líkön um milliríkjaviðskipti. Hann hefur lengi verið misskilinn sem einhvers konar fanatíker fyrir óhefluðu viðskiptafrelsi og eiginhagsmunasemi en því fer fjarri að slík túlkun standist skoðun. Hér er ein góð klausa úr greininni: “Smith’s argument for markets is in large part an argument for exchange, not merely of goods and services, but also of regard and respect. Social interaction encourages the impartial spectator in all of us. It is not in a state of nature but in society that we develop our characters most effectively. The retreat from open exchange and discourse is therefore morally corrosive. ‘Of all the corrupters of moral sentiments,’ Smith writes, ‘faction and fanaticism have always been by far the greatest.’”(KF.)

Nýlega kom út bókin Landkostir, úrval af greinum Halldórs Laxness. Síðasta greinin þar er „Hernaðurinn gegn landinu“, ein sú flottasta sem rituð hefur verið á íslenska tungu. Hún er aðgengileg hér og virðist einhvern veginn alltaf vera jafn tímabær.

Aha! Þarna leynast rithöfundarnir þá: á ströndinni. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s