Ráðunautur Leslistans: Elísabet Kristín Jökulsdóttir

37293327_10156523097661170_7170947547102445568_o

Hér er Elísabet 14 ára í Heiðargerði með nýja ritvél sem hún fékk í fermingargjöf

Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur þarf vart að kynna fyrir samfélagi Leslistans: hún er skáld fram í fingurgóma, aktívisti, frambjóðandi — og auðvitað, líkt og svo margt kraftmikið fólk, bókaunnandi.

*Stutt útskýring:

Fulltrúi Leslistans var á göngu um Fossvogskirkjugarð þegar viðtalið við Elísabetu var tekið (með fingurgómunum á símaskjá) — en lýsingar á göngutúrnum hafa, af fagurfræðilegum ástæðum, verið klipptar út úr textanum — en þetta skýrir hvers vegna Elísabet víkur um miðbik spjallsins að áletrunum á legsteinum.

Sæl og blessuð, Elísabet! Við hefjum auðvitað leik með að bjóða þig hjartanlega velkomna í ráðuneyti Leslistans. Fyrsta spurning er einföld: Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Heyrðu, elskan, núna er ég að lesa bókina Mannsævi eftir rússneska höfundinn Konstantin Pastovskí. Ég kynntist þessari bók, eða 4 binda ritsafni þegar ég var 13 ára. Kennarinn minn í Hagaskóla, Bjarni Jónsson, kynnti mig fyrir henni. Og núna þegar ég les hana aftur sé ég hvurslags snillingur ég hef verið 13 ára að lesa hana.

En ég er að hugsa um ævisögur núna og rússneskar sögur og langar til Rússlands til að vita hvernig þeir skrifa og segja sögur. Ég fór til Írlands til að rannsaka þeirra sögugerð og komst að því að Írar setja alltaf eitthvað SKRÍTIÐ í sínar sögur. Undirvitundin segir mér að ég þurfi safa eða element núna frá Rússunum.

Já og þess má geta að Konstantin Pastovskí var fæddur í Kænugarði og telst því sjálfsagt Úkraínumaður.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Eða læturðu þér sjóinn og náttúruna, sólskinið og ævisögurnar nægja?

Ég er mjög léleg að lesa af netinu, en varð að gera það þegar ég var í LHÍ í sviðslistum og fæ oft voða móral að ég sé ekki alltaf að lesa Washington Post og svona. En ef ég fæ brennandi áhuga á einhverju einsog gyðjunni Baubo eða Bóbó, þá háma ég í mig netsíður. Bóbó er gyðja dónabrandara, sjálfsfróunar. Hún flassar og er gyðja trommunnar, magans ofl., grísk gyðja sem var þögguð niður. Ég hef gert Bóbógjörninga þarsem ég málaði augu á brjóstin og varir á píkuna og fór svo í síða mikla kápu og flassaði hvað eftir annað í Myndlistartíma í Listaháskólanum.

Bóbó er frelsandi afl. Ég get sagt þér söguna af því þegar hún frelsaði jörðina þegar Demetra jarðargyðja lá í þunglyndi.

Gerðu það, takk!

Það var af því Hades undirheimaguð hafði rænt dóttur hennar Persefónu.

Trén og blómin voru hætt að spretta og Demetra hékk bara við brunninn og grét. En þá kom Bóbó og hún skakklappast því hún er frík eða kríp, ekki sona fegurðardót einsog Aþena og Afródíta.

Svo hún krípaðist til Demetru og fór að segja henni dónabrandara og þá hló Demetra.

Þegar trén og blómin heyrðu hlátur Demetru fóru þau aftur að spretta.

Hefurðu lesið bækur á tungumáli sem þú skilur ekki? Og á hvaða tungumáli (sem þú skilur) lestu helst?

Mér finnst mjög gaman að lesa á legsteina.

Kirkjugarðstungumál.

Og dettur í hug gjörningur núna að fara með upptökutæki og lesa á fullt af legsteinum.

En ég á barnabók á ungversku og litla prinsinn á frönsku. En ég hef aldrei lesið þær, góður punktur. Les aðallega íslensku, stundum læt ég trufla mig að fræðibækur séu á ensku.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Geturðu lesið gangandi, jafnvel hlaupandi, svo að ég tali nú ekki um akandi?

Nei, en tengdadóttir mín segir að hreyfivirkum börnum finnist best að lesa í trambólíni, hoppandi.

Yfirleitt liggjandi held ég.

En ég á púlt svo ég skrifa stundum standandi og hef skrifað heilt leikrit standandi.

Ég gat ekki lesið í heilt ár en svo fór ég að lesa aftur og byrjaði á Elín, ýmislegt. Mér fannst hún svo góð að ég reif hana í sundur og líka af þakklæti að geta lesið aftur, svo núna er Elín ýmislegt í tveimur hlutum. Af því hún var svo góð.

Langaði lílka að gera þetta við Halldór Laxness, að grýta henni útí horn en þá var ég of feimin.

Hefurðu skrifað ljóð í svefni?

Nei en vakna stundum og hef alltaf penna og blað á náttborðinu. Hef aldrei skrifað í svefni en oft í transi, en það er atvinnuleyndarmál. Trans er vitundarástand, einsog vaka, svefn, hálfsvefn, dá, draumur. Þessvegna finnst mér oft erfitt en frelsandi að fara útí búð þegar ég búin að skrifa, og vildi hafa mann til þess eða sendisvein, en sendlar eru sjaldséðir nú á dögum.

Ég er í rauninni sendill.

Í grunninn er ég sendill.

Sem skáld. Elísabet sendill.

Hvaða bók hefurðu oftast mælt með eða gefið öðrum?

Úps.

Litli Prinsinn, Sjálfstætt fólk, Women Who Run with Wolves, Hundshjarta, Ásta Sigurðardóttir, og Þögnin sem stefndi í nýja átt. Verðlaunabókin hans Sjón. um Refinn.

Njála.

Völuspá.

Ásta Sigurðardóttir er sennilega einn mesti ritsnillingur á sl. öld.

Já, Kristnihald undir jökli, klikkuð bók um að vera skáld, þar er sterkur sendill, Umbi sem er sendur. Sveitin er skáldskapurinn, biskupinn er sá sem sendi hann, Óðinn. Eða Gunnlöð.

Hvernig bók, eða hvað, langar þig að skrifa næst?

Búin að skrifa og myndskreyta meistarastykki, sem er leyndarmál, en má koma í þessu viðtali.

Og heyrðu, ertu í gamla kirkjugarðinum, við Ljósvallagötu?

Þar býr maðurinn sem ég er skotinn í.

Nei, ég er Fossvogskirkjugarði: fallegasta stað í Reykjavík.

Ó já …. þarsem krossarnir hallast í mýrinni.

Einmitt. Þar sem krossarnir hallast í mýrinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s