Bækur, 27. júlí 2018

Mig hefur lengi langað til að reykja að staðaldri. Enn hefur mér þó ekki lánast að temja mér slíkan ávana. Nú má reyndar eiginlega enginn reykja lengur, ekki einu sinni rithöfundar. Eflaust gerir það mannlífið fátæklegra. Rithöfundar eru auðvitað annálaðir keðjureykingamenn og ganga í gegnum ýmsar hremmingar við að losa sig við sígarettuna. Í „The Smoking Section“, ritgerð/smásögu úr When You Are Engulfed in Flames eftir David Sedaris, flyst David meira að segja til Japans í því skyni að reyna að hætta að reykja. Í My Documentseftir Alejandro Zambra er svipuð ritgerð/smásaga, sem nefnist í ensku þýðingunni „I Smoked Very Well“. Góðar sögur úr góðum bókum. Ég veit annars ekki hversu margir hafa ritað viðlíka kveðjubréf til sígarettunnar á íslensku. Mig rámar í að Sigurður Pálsson fjalli talsvert um reykingar sínar í Minnisbók. Á tímabili sat hann víst við og hamaðist við að klára leikrit og reykti þá þrjá pakka á dag. Þá hefur verið hressandi að setja endapunktinn og opna glugga.

Milli vinaheimsókna og sundferða í reykvísku fríi hef ég annars mest verið að fletta í mikilli uppáhaldsbók – C.P. Cavafy: Collected Poems í þýðingu Daniels Mendelsohn. Þetta eru bestu ensku þýðingar sem ég hef fundið á Cavafy – gaman væri að fá ábendingar frá áskrifendum ef þeir þekkja til íslenskra þýðinga á ljóðum gríska skáldsins? – og ekki spilla ýtarlegar skýringar þýðandans og frábær formáli. Í alla staði mjög flott útgáfa. Eitt áhrifamesta ljóð sem ég hef lesið er „Borgin“, hér í þýðingu Edmund Keely (mun síðri frammistaða en hjá Mendelsohn). Þarf nokkuð að yrkja fleiri ljóð?

Svo er ég hálfnaður gegnum skáldsöguna Eileen eftir Ottessu Mosfegh. Ung vinkona mín í útgáfubransanum í New York er forfallinn aðdáandi hinnar ungu Mosfegh og hefur mikið hvatt mig til að lesa hana. En ég er latur. Í vikunni greip ég þó loks Eileen, aðra skáldsögu Mosfegh, og er hálfnaður í gegnum hana – stórskemmtileg. Sagan gerist í ónefndum bandarískum smábæ, X-ville, árið 1964 og er í senn fyndin og nöturleg, drifin áfram af stórskemmtilegri fyrstu persónu-sögumannsrödd. (SN.)

Manstu eftir því þegar Hulk Hogan bar sigurorð af slúðurmiðlinum Gawker í miklum réttarhöldum, og svo þegar í ljós kom að tæknifjárfestirinn Peter Thiel hafði stutt við málaferli Hogan bak við tjöldin? Rosaleg frétt og jafnvel ennþá rosalegra hversu fáir miðlar lögðu í að rannsaka málið ýtarlega. Rithöfundurinn ungi Ryan Holiday, sem ég hef áður haft til umfjöllunar á þessum vettvangi, komst að því á síðasta ári að hann var í einstakri stöðu – þar sem hann var í beinu sambandi við bæði Peter Thiel og Nick Denton, stofnanda og eiganda Gawker. Hann ákvað að nýta sér stöðu sína og skrifaði bók um málið sem heitir Conspiracy og kom út fyrr á þessu ári. Ég er búinn að vera að lesa hana í vikunni og get varla lagt hana frá mér. Hún er bæði virkilega vel rannsökuð og fáránlega spennandi. Mér finnst á köflum ótrúlegt að þetta sé sönn saga – að Thiel hafi í alvörunni lagt á ráðin um að knésetja Gawker í næstum áratug! Það sem er líka frábært við bókina er hversu vandlega Holiday setur sig í spor beggja aðila. Hann fer yfir kosti og galla bæði Thiel og Denton og rekur líka listilega vel hvað þessir menn eiga sameiginlegt. Þetta er ein allra besta (nýja) bók sem ég hef lesið á árinu og ég hvet alla til að lesa hana.

Úr því að ég minntist á Peter Thiel þá má ég til með að minnast á einu bókina sem hann hefur gefið út, Zero to One, þar sem hann rekur heimspeki sína á bak við stofnun og rekstur fyrirtækja. Mér fannst hún bæði skemmtileg og lærdómsrík þegar ég las hana á sínum tíma. (KF.)

Nýlega kom út hjá Bjarti, í samvinnu við Opnu, í tveimur bindum verkið Norðlingabók, safn allra sagnaþátta Hannesar Péturssonar, í endurskoðaðri útgáfu. Af því tilefni seildist ég eftir eftirlætis-ljóðabók minni eftir skáldið, Fyrir kvölddyrum. Það er alveg kynngimögnuð bók – og hún mætti mín vegna koma út á hverju ári, um ókomna tíð. Hannes er að vanda kjarnyrtur, en slær drungalegri tón en oft áður. Svona yrkir hann í bók sem kemur út árið 2006:

Hugtækur er þessi garður
þó að haustbliknað falli
lauf og lauf
á lúðar yfirhafnir.

Í raun og veru
mjög viðkunnanlegt hrun.
 (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s