Ráðunautur Leslistans: Alexander Dan Vilhjálmsson

DSC_6134_bw.jpg

Alexander Dan Vilhjálmsson, einn efnilegasti furðusagnahöfundur landsins, sendi árið 2014 frá sér skáldsöguna Hrímland, og hyggur áenska útgáfu verksins á næstunni. Skáldsagan Vættir er einnig væntanleg frá forlaginu Benedikt nú í haust. Leslistinn hitti Alexander fyrir í dimmu húsasundi síðla nætur og tók hann í létt spjall.

Sverrir Norland: Hæ, Alexander! Gott að fá þig í ráðuneyti Leslistans. Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Alexander Dan Vilhjálmsson: Ég er eiginlega út um allt í lestri þessa dagana, með allt of mikið af bókum í startholunum eins og er. Svona er lestrarmynstrið hjá mér, virðist vera, þar sem ég er að grúska í einhverjum fimm bókum í einu með enn fleiri á biðlista. Þegar ég klára eina þá bætist önnur við. Gallinn er að núna undanfarið hefur verið of mikið að gera — eða kannski frekar að ég tími ekki að gefa mér leyfi til þess að lesa almennilega — og þá klára ég ekki neitt því ég er með einhverjar sjö bækur í gangi. Það er frekar glatað, en bráðum kemur betri tíð með bók í haga. Eða eitthvað svoleiðis.

The Black Tides of Heaven eftir JY Yang er helmingurinn af nóvellupari sem kom nýlega út samtímis. Tvíburi bókarinnar heitir The Red Threads of Fortune, en bækurnar fjalla einmitt um tvíburapar. Söguheimurinn sem Yang býr til er ótrúlega heillandi. Menningarlegu áhrifin sem hán sækir í eru greinilega asísk, en heimurinn er samt algjörlega sitt eigið element. Galdrar spila sterklega inn í frásögnina, sem heillar mig næstum undantekningarlaust. Það er eitthvað við sögu galdramannsins sem mér finnst ómótstæðilegt. Svo á líka að vera fullt af stórkostlegum furðusagnaelementum í sögunum. Ég segi sem minnst um það, tékkið bara á þessu! Þriðja nóvellan í Tensorate-bókaflokknum heitir The Descent of Monsters og er væntanleg í lok júlímánaðar. Ég er næstum búinn með Black Tides og er mjög spenntur fyrir restinni.

Mér fannst athyglisvert hvernig þau gáfu út tvær nóvellur samtímis sem eru sjálfstæðar, en tengjast þó. Það á víst ekki að skipta neinu máli á hvorri nóvellunni þú byrjar. Lesandinn fær leyfi til að ráða því hvernig hann kynnist söguheiminum. Kannski er allt önnur upplifun að lesa aðra bókina á eftir hinni, þegar skilningur manns á söguheiminum er öðruvísi. Tveir lesendur sem byrjuðu á sitthvorri bókinni áður en þeir lásu næstu gætu lagt mjög ólíka meiningu í persónur og atburði. Svoldið eins og áhorfendur sjá Svarthöfða allt öðrum augum ef þeir hafa séð Episode I-III áður en horft er á upprunalega þríleikinn.

Margt í fantasíugeiranum gengur út á það að byggja upp stóra söguheima í þríleikum og stærri sagnabálkum, lesendur þekkja vel biðina eftir nýjum bókum í Harry Potter eða Song of Ice and Fire (Game of Thrones). Mér finnst eitthvað brilljant við að skrifa styttri bækur sem koma út samtímis, eða með stuttu millibili. Jeff VanderMeer gaf til dæmis út Area X-þríleikinn sinn yfir nokkurra mánaða tímabil, ef ég man rétt komu bækurnar allar út sama árið. Lesendurnir fengu þetta upp í hendurnar með mjög litlum biðtíma, miðað við hvernig útgáfuheimurinn starfar. Þegar fólk er vant margra ára bið þá getur þetta verið eins og ferskur andvari.

Ég er nýbyrjaður á Sisyphean eftir Dempow Torishima og finn samstundis að þetta er bók sem mun þurfa nokkrar tilraunir til að detta almennilega inn í. Það er sjaldan sem maður les eitthvað sem manni finnst virkilega stórfurðulegt og næstum óskiljandi. Ég sem lesandi er stöðugt að leita eftir þessu elementi, ég vil lesa furðusögu og átta mig hægt og rólega á undarlegri heimsmyndinni. Það er óþolandi þegar maður er símataður á upplýsingum og er ekki treyst fyrir því að púsla hlutunum saman. Sisyphean málar súrrealíska framtíðarsýn þar sem mennskan er seigfljótandi hugtak og líftækni hefur gjörbreytt líkamanum í framandi, næstum óskiljanlegt fyrirbæri. Bókin átti víst að heita næstum óþýðanleg, sökum þess hversu listilega Torishima notaði japönskuna og lék sér með einstök element í tungumálinu. Mikið hefur víst glatast í þýðingunni, en það sem stendur eftir er engu að síður kynngimagnað.

Þegar Eyland eftir Sigríði Hagalín kom út varð ég samstundis gjörsamlega heillaður af þessu konsepti. Hversu oft hefur maður ekki leitt hugann að því hvernig verði að búa á einangruðu Íslandi? Það er ekki fyrr en nú sem ég er loksins að komast í lesturinn.

Kláraði nýlega The Poppy War eftir R.F. Kuang og The Traitor Baru Cormorant eftir Seth Dickinson. Báðar bækurnar eru mjög pólitískar og fjalla um stríð á sinn eigin máta. Baru er hörkuflétta þrungin spennu og pólitík, en The Poppy War fjallar um hrylling styrjaldarinnar. Sú bók fær skýran innblástur frá Kína og ópíumstríðunum og fléttar inn í það stríðinu gegn Japan í seinni heimsstyrjöldinni. Hún er mjög átakanleg eftir að stríðið hefst, þar sem hliðstæða Nanjing-fjöldamorðanna á sér stað í sögunni. Báðar bækurnar eru fyrstar í sínum bókaflokkum og ég mæli með að lesendur í leit að ferskum furðusögum kíki á þessar bækur.

Takk fyrir aldeilis yfirgripsmikið og gott svar! En lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Tor.com er ómissandi fyrir alla sem hafa áhuga á furðusögum í sem allra víðasta skilningi. Þau birta mjög skemmtilegar greinar um bókmenntir, sjónvarpsþætti og kvikmyndir, ásamt því að birta reglulega úrvalssmásögur eftir frábæra höfunda. Myndskreytingarnar sem fylgja með þeim eru einnig í hæsta gæðaflokki. Tor er bandarískur útgáfurisi og notar vefsíðuna til að birta smásögur og annað efni, en nýlega byrjuðu þau einmitt á nóvelluútgáfu, á t.d. Tensorate-flokknum eftir JY Yang.

Weird Fiction Review er vefsíða rekin af Jeff og Ann VanderMeer. Ann er fyrsti furðusagnaritstjórinn sem vakti athygli mína og að mínu mati ein af þeim allra bestu í geiranum. Sögurnar sem hún fær inn (hægt t.d. að fletta henni upp á Tor.com) eru undantekningarlaust stórgóðar. Ég byrjaði að fylgjast með henni þegar hún var ritstjóri Weird Tales, enduruppvakinni útgáfu klassíska pölptímaritsins frá því fyrir seinni heimsstyrjöld. Hún stýrði blaðinu listilega og varð mér mikill innblástur þegar ég gaf út tímaritið FurðusögurWFR birtir greinar og smásögur tengdar furðusögum — allt frá Kafka yfir í Lovecraft yfir í Murakami og þar fram eftir götunum.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les á íslensku og ensku, en töluvert meira á ensku á heildina litið. Mér finnst samt betra að lesa á íslensku.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Welcome to Night Vale var örugglega fyrsti hlaðvarpsþátturinn sem virkilega náði mér. Þátturinn er settur upp sem útvarpsþáttur í ímynduðum bæ sem heitir Night Vale, þar sem hið undarlega ræður ríkjum á alla vegu. Viku eftir viku fylgjumst við með bænum breytast þegar undarlegir atburðir setja svip sinn á landslagið og fólkið.

Oft er gott að hlusta bara á fólk tala og grínast (Night Vale er meira í átt að hljóðbók á köflum) og þá hlusta ég oft á My Brother, My Brother, And Me, þar sem þrír bræður svara spurningum frá hlustendum og nafnlausum aðilum á spurningaþjónustu Yahoo. Þessir bræður eru líka með þátt sem heitir The Adventure Zone, þar sem þeir spila spunaspil ásamt föður sínum. Spunaspil eru fyrir mér tæki sem fullorðið fólk notar til að leika sér að því að segja sögu í sameiningu og það er mjög gaman að fylgjast með því. Ég mæli með að allir forvitnir um spunaspil prófi að spila það eða hlusta á svona þátt.

Í ljósi sögunnar stendur alltaf fyrir sínu. Yfirleitt vel ég þátt af handahófi og hef aldrei verið svikinn enn sem komið er. Gandreiðin er svo nýr íslenskur hlaðvarpsþáttur sem fókusar á furðusögur í víðtækum skilningi. Ég njósnaði um daginn hvað þau eru að bralla og gott efni er í vændum. Ég er líka að hlusta aftur á Shit Town, eða S-town, sem er örugglega einn vandaðasti hlaðvarpsþáttur sem ég hef hlustað á.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Mér finnst þetta vera svona spurning sem fólk vill ekki eiga pottþétt svar við. Er ekki frekar óspennandi að geta sagt hiklaust hver er í algjöru uppáhaldi hjá þér?

Jú, það er svolítið hættulegt að eiga sér uppáhalds-hitt eða þetta, þá er hætt við stöðnun.

Þegar ég byrjaði að lesa furðusögur af krafti á unglingsárunum þá breyttist öll sýn mín á geirann við að lesa eina bók. Ég keypti hana í Nexus af einhverri rælni, ég hafði aldrei heyrt áður um höfundinn eða bókina. Perdido Street Station eftir China Miéville er kannski ekki alltaf uppáhaldsbókin mín, eða besta bók sem ég hef lesið, en hún hafði djúpstæð áhrif á mig. Það tók mig dálítinn tíma að taka þessa bók niður af stallinum sem ég reisti henni eftir fyrsta lesturinn. Það var eitthvað sem ég gerði mjög meðvitað. Mér fannst óskynsamlegt, sem rithöfundi, að ætla að halda einni bók svona á lofti. Ég set hana ekki á háan stall í dag, en hún sýndi mér algjörlega nýja hlið á furðusögunni og færði lestraráhuga minn yfir á nýja braut.

Manazuru eftir Hiromi Kawakami er líka í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Á meðan ég var að skrifa Vætti hellti ég mér í lestur á japönskum bókum. Kawakami er stórkostlegur höfundur og finnst mér Manazuru algjörlega magnað verk. Angurvært og hugljúft og biturt, undiraldan í textanum samtímis sterk og næstum ógreinanleg. Þetta er ótrúleg bók.

Uppáhaldshöfundurinn minn er á sífelldu reiki. Tove Jansson finnst mér þó bera af. Hún var ótrúlegur rithöfundur. Múmínskáldsögurnar eru með bestu bókum sem ég hef lesið.

Tove Jansson! Þar er ég þér sammála. En hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Það truflar mig mjög lítið að hafa annað fólk eða læti í kringum mig þegar ég er að lesa. Mér reynist mjög auðvelt að detta í bók og gleyma mér. Áður en ég fer í ferðalag nýt ég þess að plana lesturinn fyrir ferðina á áfangastað. Mér finnst allra best að lesa í lest. Það er svo fyrirhafnarlaust að stíga um borð og síðan horfa á landslagið líða hjá. Best þótti mér að lesa í margra tíma lestarferðalagi í Japan. Fyrst fór ég með Shinkansen-hraðlest frá Tokyo til Hokkaido, nyrstu eyjunnar. Þaðan tók við önnur lest sem fór til borgarinnar Sapporo, en þessir tveir ferðaleggir tóku sirka jafn langan tíma þó kílómetramunurinn væri töluverður. Á vissum tímapunkti á Hokkaido fylgdu lestarteinarnir ströndinni eftir um stund. Stundum langar mig að fara þangað aftur, bara til að geta farið með lestinni norður og lesið á leiðinni.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Ég las mjög mikið sem barn, Narnía var lengi í uppáhaldi áður en Harry Potter kom út. Ég hugsa að fyrsta bókin sé sú bók sem ég hef lesið oftast. Gyllti Áttavitinn eftir Philip Pullman var hinsvegar það sem virkilega kitlaði mig. Heimurinn sem þar birtist var keimlíkur okkar eigin, en samt svo frábrugðinn. Þetta var ekki hulinn heimur eins og í Harry Potter og Narníu, heldur var hið undarlega og furðulega fyrir opnum dyrum. Veröldin sem þarna birtist var flókin og raunveruleg og göldrum gædd.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ætli það sé ekki Perdido Street Station, ef fólk hefur áhuga á furðusögum. En núna mæli ég með að allir lesi Manazuru eftir Kawakami.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Oftast langar mig til þess, mér finnst ég sjaldan lenda á bók sem mér finnst ekki þess virði að klára. En svo er staðreyndin sú að oft verða bækur bara útundan. Stundum er það því ég þarf að skila þeim á bókasafnið, en yfirleitt bara því hún náði mér ekki alveg. Mér finnst það allt í lagi. Erfiðara finnst mér að ákveða að lesa ekki t.d. hinar tvær bækurnar í þríleik, ef maður lauk við fyrstu bókina. Svona þríleikir eru oft settir upp sem eitt heildstætt verk. Hefur maður virkilega lokið við söguna ef maður les bara eina bók? Þetta er bölvun furðusagnalesandans.

Hvers konar bók langar þig að skrifa næst? Og hvernig er að skrifa til skiptis á ensku og íslensku? Er það ruglingslegt eða stækkar það jafnvel ímyndunaraflið?

Ég er með hugmynd að bók sem ég ætla að fara í eftir að Hrímlandsbók tvö fer í ritstýringu. Ég hugsa að hún standi bara ein og sér. Sú saga fjallar um stúlku sem bindur drauginn af ægilegum dreka við sig með forneskju. Sjáum til hvenær ég hef tíma til að fara í það. Næsta bók sem ég mun hinsvegar skrifa er framhaldið af Hrímlandi.

Þegar ég þýddi Hrímland var ég að skrifa Vætti á íslensku fyrir hádegi og þýða yfir á ensku eftir hádegi. Það reyndist mér mjög vel. Þetta er mjög mismunandi vinna, þar sem ég lét alveg eiga sig að endurskrifa handritið að Hrímlandi á meðan ég þýddi. En núna þegar ég er að ritstýra báðum bókum samtímis þá finn ég að það er of mikið í einu. Þannig ég held að tungumálið spili ekki svo mikið inn í, vandamálið sem ég horfist í augu við núna er frekar að troða allri þessari sögu í hausinn á sér til að koma skipulagi á þetta. Endurskrif eru erfið og eiginlega bara pláss fyrir eitt verk í einu. Það er ekkert svo bilað að vinna á tveimur tungumálum, mér finnst mikilvægara að vinnan sé mismunandi þegar tvö verk eru í gangi. Best væri samt að geta bara unnið eingöngu á íslensku. Draumurinn var ekki að skrifa líka á ensku, það var eitthvað sem ég þurfti að gera til að finna verkinu farveg.

Þessa dagana er ég að ritstýra handritinu að Hrímlandi á ensku undir titlinum Shadows of the Short Days, ásamt því að ritstýra íslenska handritinu að Vættum sem kemur út í haust. Um leið og þessi tvö verk eru komin á skikkanlegan stað fer ég að skrifa framhaldsbók Hrímlands af krafti, ásamt því að vinna í öðrum verkum. Til dæmis vonast ég til þess að fá tækifæri til að þýða Shadows of the Short Days aftur yfir á íslensku (kannski með titilinn Skammdegisskuggar), þar sem bókin hefur tekið stórtækum breytingum. Mér þætti algjör synd ef lokaútgáfan væri ekki til á íslensku, þar sem ég hefði ekki getað frumskrifað bókina öðruvísi en á íslenskri tungu. Allur heimurinn í sögunni á allt sitt tungumálinu að þakka. Svo mun ég dunda mér við að þýða Vætti á ensku um leið og hún er tilbúin. Ætli næst langi mig ekki mest að skrifa bók sem ég þarf ekki að þýða sjálfur. En mig grunar að þetta séu örlög mín um ókomna tíð.

Ég hlakka til að sjá nýju bókina (þá íslensku) og hvert þetta ævintýri leiðir þig. Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Úff, það er allt of mikið af bókum sem bíða. Erfitt að segja hvað ratar efst í bókahrúguna. Robert Jackson Bennett skrifaði skemmtilegan bókaflokk sem heitir The Divine Cities og er nú að byrja á nýrri seríu. Foundryside er fyrsta bókin og kemur bráðlega út, ég er spenntur að sjá hvernig rætist úr því. Ég hef heyrt mjög góða hluti um Koparborgina eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, sem er næst í röðinni. The Fifth Season eftir N.K. Jemisin hefur einnig beðið allt of lengi.

Það er algjör lúxus að eiga allt of mikið af góðum, ólesnum bókum eftir, svo lengi sem maður nái að lesa eitthvað af þeim. Það er svo geðveikt að lesa góða bók. Ég vona að ég fái aldrei á tilfinninguna að engar góðar bækur bíði aflesturs. Þá er eitthvað mikið að mér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s