Bækur, 3. ágúst 2018

Í blíðskaparveðri í Borgarfirði las ég Mamúsku; sögu um mína pólsku ömmu eftir Halldór Guðmundsson. Sú er með aðeins öðru sniði en ævisaga sama Halldórs um nafna hans Laxness, sem kom út árið 2004; það var mikill doðrantur, en sú nýja er lítil og nett. Bækurnar tvær eiga þó ýmislegt sameiginlegt. Viðfangsefni beggja er æviskeið manneskju sem lifði nær alla tuttugustu öldina, með öllum þeim miklu samfélags- og tæknibreytingum sem þá urðu. Í árlegum ferðum sínum á bókamessu í Frankfurt kynnist Halldór töfrandi veitingakonu sem rekur í kjallara veitingahúsið Rauðu akurliljuna og þangað snýr Halldór aftur, ár eftir ár, ásamt öðrum Íslendingum og ýmsum kynlegum kvistum. Með þeim gömlu konunni tekst vinátta (hún býðst til að gerast amma hans). Mamúska er afar litríkur karakter, hún eldar góðan mat en þó var sjálfsagt mest bragð af nærveru hennar, veitingastaðurinn breyttist í leiksvið. Ég rakst á bloggfærslu sem fangar efni bókarinnar betur en ég gæti get og þar segir meðal annars: „Í raun eru þetta tvær sögur. Annars vegar er saga konunnar sem rekur veitingastaðinn Rauðu akurliljuna og hins vegar er hörmungasaga þjóðanna sem búa við botn Eystrasaltsins.“ Góð bók sem maður les hratt, helst í góðu veðri yfir handverksbjór og veganborgurum (nei, nei, segi sona, líka allt í lagi að sötra bara neskaffi og borða Hraun).

Hin órólegu er heldur frábrugðin Mamúsku, þá bók les maður hægt og helst á degi þar sem ský svífa reglulega fyrir sólu. Maður drekkur viskí eða rauðvín. Höfundurinn, Linn Ullmann, flokkar verk sitt sem skáldsögu, en þó er það byggt á „sönnum“ æviminningum hennar af foreldrum sínum, Liv Ullmann og Ingmar Bergmann. Ég er hálfnaður með frábæra þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur og hlakka til að lesa framhaldið. Einkum finnst flott að Linn nafngreinir foreldra sína ekki, við vitum að þau eru þekktir listamenn en það er ekki endilega aðalatriðið hér, þetta er ekki slúðurkennd bók í æsifréttastíl heldur alvöru bókmenntaverk sem fjallar um minnið, samband foreldra við börn sín, ljóðræn frásögn en um leið afar læsileg og grípandi. Hin dularfulla Ásta hefur tekið þetta verk fyrir í bókaskáp sínum og þar er efnistökunum ágætlega lýst. (SN.)

Ég fór með konunni minni og foreldrum mínum á skemmtilega sýningu í Matisse-safninu í Nice í Frakklandi um daginn og þar er verkum hans telft saman við verk Picasso. Í gjafabúðinni fann ég svo litla bók sem heitir Henri Matisse: A Second Life og tók strax ákvörðun um að kaupa hana. Þetta er skemmtileg saga um hvernig listamaðurinn frægi náði að skipta algjörlega um gír eftir erfið veikindi sem gerðu honum ókleift að mála. Í staðinn fann hann upp nýja tækni við að klippa og líma saman myndir – sem er einmitt stíllinn sem hann er þekktastur fyrir í seinni tíð. Bókin er góð fyrir þá sem vilja kynnast Matisse betur en svo er hún líka verulega innspírerandi – kennir manni að það er aldrei of seint að breyta til. (KF.)

Þekkirðu Wolinski? Hann var frábær skopmyndateiknari, mjög franskur og hálfgerð karlremba, en einhvern veginn þannig að flestir virðast fyrirgefa honum chauvinismann. Ég fæ alltaf orkubúst af því að fletta Le bonheur est un métier (Gleðin er starfssvið), þykkri yfirlitsbók um feril hans. (Eftir hann liggja, tja, hátt í hundrað bækur?) Ég hálfpartinn svitna við að læða honum inn hér – mér sýnist kynjahlutfallið skakkt hér í bókahlutanum og ég slengi inn frönskum kvennabósa – en það er eitthvað við teikningarnar hans, hugmyndirnar, leikgleðina og endalausan sköpunarkraftinn sem höfðar svo sterkt til mín og veitir alltaf kraft og gleði. Wolinski lést þann 7. janúar 2015 í árásinni hræðilegu á Charlie Hebdo og umrædd bók var gefin út í kjölfarið.

Kristján Árnason, sá mikli bókmenntamaður, andaðist í vikunni. Leslistinn þakkar honum fyrir hans góða starf, meðal annars þýðinguna á Ummyndunum Óvíds. Nýlega kom einnig út afar fallegt ljóðakver, Það sem lifir af dauðann er ástin, úrval ljóðaþýðinga Kristjáns – allt frá Saffó til Philips Larkins – auk fáeinna frumsaminna ljóða. Þetta er flott bók, ekki síður en Hin órólegu, og hefði með réttu átt að hljóta miklu rækilegri umfjöllun. Hvar eru íslenskir menningarblaðamenn? Vill enginn – eða getur enginn – lengur borgað íslenskum pennum fyrir að skrifa um það sem mestu máli skiptir, menninguna?

Að lokum: Ég sit á lestarstöð og skrifa þennan lokahnykk, hér er píanó ætlað almenningi og ung kona er að leika djass, og svo er hér einnig, í seilingarfjarlægð, smásagnasjálfsali. Maður getur valið einnar mínútu, þriggja eða fimm mínútna smásögu, og sjálfsalinn hrækir henni út á litlum strimli. Þetta finnst mér fallegt. En ég kann samt ennþá betur að meta bókabúðir og þær eru úti um allt í París. Ímyndaðu þér: alls staðar bókabúðir. Alls staðar fólk að lesa. Sjáðu fyrir þér slíka framtíð. Er hún möguleg? Við erum framtíðin. Já, í hið minnsta hluti af henni og allt er mögulegt. Bækur, hlýja, hugsun, alls staðar. Það eru boðorð Leslistans. Sjáumst í næstu viku! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s