Bækur, 10. ágúst 2018

Ég hef verið í fríi í hitabylgju og ofátsgleði í Mið-Frakklandi og náð að lesa talsvert milli málsverða og síðdegisblunda. Lauk við Hin órólegu eftir Linn Ullmann – sú er aldeilis frábær og þá rifjast upp fyrir manni hversu gaman það er þegar virkilega góðar bækur rata til okkar yfir á íslensku. Linn Ullmann, einn flinkari höfunda Noregs, fjallar á fínlegan og djúpstæðan hátt um foreldra sína, heimsþekkta listamenn (Ingmar Bergmann og Liv Ullmann). Einhver kvartaði yfir því að foreldrarnir hlytu ekki hnífjafnt vægi í verkinu – þau njóta sín reyndar bæði afar vel, finnst mér – og ég verð að segja að mér finnst slík túlkun fela í sér misskilning á eðli bókarinnar og því sem Ullmann liggur á hjarta, en hryggjarstykki verksins eru viðtalsupptökur sem hún gerði ásamt föður sínum aðeins nokkrum vikum fyrir andlát hans, og drifkraftur verksins augljóslega pínleg fjarvera föðurins í lífi dótturinnar (sem er yngst níu barna hans) nær alla tíð og sá sársauki sem af slíku (fjar)sambandi hlýtur að hljótast: viðtölin, og síðar skrif bókarinnar, virðast vera leið Ullmann til að komast nær föðurnum, hinum skapandi karlkyns „snillingi“. Mér fannst áhugavert að lesa þessa bók nær beint á eftir Elsku Drauma mín (eftir Sigríði Halldórsdóttur og Vigdísi Grímsdóttur), þar sem svipað samband dóttur og föður (annars skapandi snillings: HKL) er í brennidepli. Æ, krakkar mínir, það verður sífellt erfiðara að taka alla hina tröllgáfuðu andans afreksmenn tuttugustu aldarinnar alvarlega, menn sem gátu varla hnýtt eigin skóþveng en hömuðust þeim mun ákafar við að útskýra fyrir okkur innsta eðli og ráðgátur tilverunnar. En sumar bókanna þeirra og sumar bíómyndanna voru nú samt svolítið skemmtilegar og standast tímans tönn.

Næst, góðir hálsar, las ég mér til mikillar ánægju skáldsöguna The Tremor of Forgery eftir hina einstöku Patriciu Highsmith, sem sjálfsagt er þekktust fyrir Ripley-bækurnar sínar (þær urðu að vinsælum bíómyndum með generískustu bandarísku karlleikstjörnu allra tíma í aðalhlutverki: Matt Damon) og nú síðast fyrir að hafa skrifað The Price of Salt, sem kom upprunalega út undir dulnefni því Highsmith vildi ekki, eða þorði ekki vegna fortíma þess tíma, bendla eigið nafn við skrif um lesbískt ástarsamband; sú saga var löguð að hvíta tjaldinu fyrir ekki svo ýkja löngu, bar þá titilinn Carol og skartaði Cate Blanchet í aðalhlutverkinu. The Tremor of Forgery er sálfræðileg stúdía sem gerist í Túnis og ber með sér að vera skrifuð fyrir allmörgum áratugum: framan af bókinni sækir verkið einkum spennu í það hvenær og hvort aðalpersónunni berist nú næsta bréf frá New York. Virkilega fín saga með hægri en þungri undiröldu og notalegt hversu góðan tíma Highsmith tekur sér í að byggja upp sögusviðið og persónurnar.

Pénélope Bagieu er franskur teiknari og höfundur, búsett í New York, og þekktasta verk hennar sjálfsagt Culottées; des femmes qui ne font que ce qu’elles veulent. Þar safnar Bagiue saman fjölmörgum sögum um konur sem, líkt og titillinn ber með sér, gera aðeins það sem þær langar – svo mörgum sögum raunar að útgefendur skiptu þeim upp í tvær bækur. Bagieu sækir efni til allra heimshorna (meðal söguhetja er hin finnska Tove Janson) og útkoman ætti að hugnast mörgum. Franska teiknimyndahefðin er svo skemmtileg og sterk, allir lesa myndasögur, grafískar skáldsögur, og þetta smitast líka út í barnabókaútgáfuna, sem er fjölbreytt og metnaðarfull og fjöldamargir flinkir myndskreytarar starfandi.

Maylis de Kerangal er að mínu mati einhver klárasti núlifandi rithöfundur Frakka og þekktasta verk hennar er ein albesta skáldsaga sem ég hef lesið á síðustu árum, Réparer les vivants. (Í röklegum heimi væri löngu búið að snara henni yfir á íslensku.) Bókin gerist á einum sólarhring og fjallar í stuttu máli um hjartaígræðslu: 19 ára brimbrettakappi, Simons Limbres, deyr í bílslysi og í hönd fer hröð og taugatrekkjandi atburðarás. Stíll Kerangal er afar nákvæmur, hún hefur bæði læknavísindin og ljóðrænuna á valdi sínu og ég efast um að nokkur verði svikinn af þessum lestri. (Bókin er til í – eftir því sem ég fæ best séð – afar vandaðri enskri þýðingu, undir aðeins lágstemmdari titli: The Heart.) (SN.)

Í fyrra kom út smásagnasafnið Sögur frá Rússlandi þar sem Áslaug Agnarsdóttir hefur tekið saman og þýtt úrval rússneskra smásagna eftir höfunda á borð við Púshkin, Tolstoy, Dostojevskí, Gógól og marga fleiri. Ég er rétt aðeins byrjaður á henni en þær sögur sem ég hef lesið eru vandaðar og að sjálfsögðu mjög skemmtilegar.

Patrick Collison, stofnandi og framkvæmdastjóri fjártæknirisans Stripe, tók nýlega saman bækur og greinar um rannsóknarstofur fyrirtækja. Þetta hljómar kannski býsna þurrt í eyrum margra en mér fannst sérstaklega gaman að rýna í nokkrar af þessum greinum og renna yfir þær bækur sem hann tók saman. Ég pantaði eina bók af þessum lista, The Idea Factory, sem fjallar um Bell Labs – sem var rannsóknarstofa á vegum fjarskiptafélagsins AT&T og gat af sér fjöldan allan af merkilegum uppgötvum á sviði tækni og vísinda. Það er vert að taka fram að Stripe stofnaði nýlega bókaútgáfu helgaða bókum tengdum tækni og hagfræði. Virðingavert framtak sem mörg önnur fyrirtæki mættu tileinka sér. (KF.)

Ástin var minn eini munaður, aðeins hún lét mér líða eins og ég væri jafnoki annarra kvenna sem voru ríkari og lánsamari en ég var. The Woman of Rome eftir gamlan uppáhaldshöfund, hinn ítalska Alberto Moravia, er eiginlega sísta bókin sem ég hef lesið eftir hann – ég mæli sérstaklega með Boredom og eins Contempt, sem Jean-Luc Godard gerði eftir þekkta kvikmynd – en þó hjakkaðist ég í gegnum hana. Mig rámar í lýsingu Thors frænda míns Vilhjálmssonar úr einu greinasafnanna hans – ég hef bækurnar hans ekki við við höndina og get því ekki flett þessu upp – þar sem Thor situr, minnir mig, rithöfundaþing á Ítalíu og Moravia gegnir einhvers konar forystuhlutverki og kemur Thor fyrir sjónir sem afar einmanalegur maður, nær útskúfaður þó að hann sé miðpunktur glaums og gleði. Eins kvartar Thor yfir því að bækurnar hans séu of kaldhamraðar, útreiknaðar – en þetta er einmitt það sem heillaði mig svo á sínum tíma þegar ég las Moravia fyrst fyrir nokkrum árum. Eftir því sem ég kemst næst er Dóttir Rómar eina bók Moravia sem færð hefur verið yfir á íslensku. (Ég las hana reyndar, líkt og fram kom hér að ofan, á lingua franca samtímans, ensku.)

Hef svo verið að lesa Le Petit Nicholas eftir Goscinny fyrir dóttur mína. Þessar sögur ættu auðvitað eins að vera til á íslensku og það með hinum óviðjafnanlegu myndskreytingum Sempé. Takk fyrir samfylgdina, sjáumst í næstu viku! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s